Flugfélögum skylt að kanna hvort farþegar hafi tilskilin vottorð fyrir brottför til Íslands
Frá og með 5. júní nk. verður flugfélögum sem fljúga til Íslands skylt að kanna hvort farþegar hafi tilskilin vottorð vegna Covid-19 fyrir brottför til landsins. Reglugerð þessa efnis var birt í gær og tekur gildi á laugardaginn. Geti farþegi ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu um neikvætt próf vegna Covid-19 ber flugfélaginu skylda til að synja viðkomandi um flutning. Skylda til að synja um flutning nær þó ekki til íslenskra ríkisborgara.
Reglugerðin er sett með stoð í bráðabirgðaákvæði við loftferðalög sem samþykkt var á Alþingi í maí sl. og sem heimilar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að setja reglugerð um tímabundnar skyldur flugrekenda eða umráðanda loftfars til að tryggja sóttvarnir vegna Covid-19. Reglugerðin verður endurskoðuð á fjögurra vikna fresti en bráðabirgðaákvæðið í loftferðalögum gildir til og með 31. desember nk.
Skyldur flugrekenda og umráðamanna loftfara samkvæmt reglugerðinni eru eftirtaldar:
- Skylt er að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn Covid-19, vottorð um að Covid-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu Covid-19 prófs áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.
- Skylt er að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu. Skylda til að synja farþega um flutning nær ekki til íslenskra ríkisborgara. Slík synjun felur ekki í sér neitun um far á grundvelli Evrópureglugerðar um skaðabætur eða aðstoð til farþega sem neitað er um far þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt.
Samgöngustofa getur lagt á stjórnvaldssektir vegna brota gegn reglugerðinni.
- Reglugerð um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna Covid-19
- Lög um breytingu á loftferðalögum nr. 60/1998 (skyldur flugrekenda vegna COVID-19)