Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2025 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Starfshópur um öryggi ferðamanna: Undirbúningur hafinn við skráningarkerfi slysa og óhappa

Starfshópur um öryggi ferðamanna skilaði sinni fyrstu áfangaskýrslu til ráðherra í desember síðastliðnum. Starfsemi hans er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar með ferðamálastefnu til 2030. Samkvæmt aðgerð E.7. Bætt öryggi ferðamanna er markmið hennar að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt.

Hlutverk starfshópsins er að koma með tillögur að úrbótum á sviði öryggismála í ferðaþjónustu, tryggja samráð á milli hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnana og atvinnugreinarinnar, auk þess að stuðla að framgangi verkefna sem hafa það að markmiði að bæta öryggi ferðamanna þvert á hið opinbera og atvinnulíf.

Við upphaf vinnu starfshópsins skilgreindi hann eftirfarandi sex verkefni sem forgangsverkefni: endurskoðun regluverks, skráningu slysa og óhappa, öryggi og ævintýraferðaþjónustu, áhættumat áfangastaða, ferðaþjónustu innan þjóðlendna og menntun leiðsögumanna.

Samkvæmt áfangaskýrslu er staða þessara forgangsverkefna eftirfarandi:

Endurskoðun regluverks.
Vinna við drög að reglugerð sem kveður nánar um form og innihald öryggisáætlunar og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni með öryggisáætlunum er hafin og mun starfshópurinn skila drögum að reglugerð til ráðuneytisins vorið 2025.

Skráning slysa og óhappa.
Starfshópurinn skilaði tillögu að slíkri skráningu til ráðuneytisins í desember 2024. Ferðamálastofu var í kjölfarið falið að hefja áætlanagerð og undirbúningsvinnu við atvikaskráningakerfi. Kerfinu er ætlað að halda utan um gögn og upplýsingar um slys, óhöpp og nærslys með það að markmiði að:

- Kortleggja flokka og tegundir slysa.

- Greina slysamynstur til að styðja við forvarnir og áhættustjórnun.

- Stytta viðbragðstíma við óhöppum.

- Bæta upplýsingamiðlun með ábyrgri gagnameðferð

Áhættumat í ævintýraferðaþjónustu.
Tillögum er varðar áhættumat verður skilað til ráðuneytisins snemma árs 2025.

Áhættumat áfangastaða.
Hópurinn hefur lagt áherslu á að kortleggja og meta þær aðferðir sem notaðar eru í dag við áhættumat á áfangastöðum. Horft er sérstaklega til aðferða þar sem tækifæri eru til að þróa og innleiða áhættumat áfangastaða í stærra samhengi með þeim hætti að matið verði hluti af heildarnálgun við stjórnun áfangastaða í framtíðinni. Tillögum að útfærslu verður skilað til ráðuneytisins vorið 2025.

Ferðaþjónusta innan þjóðlendna
Meðal niðurstaðna úr vinnu ráðuneytisstjórahóps um jöklaferðir var sú tillaga að sömu kröfur yrðu gerðar til ferðaþjónustuaðila á þjóðlendum og í þjóðgörðum með nýtingarsamningum við sveitarfélög. Árið 2025 mun starfshópurinn hafa þetta verkefni til skoðunar.

Menntun leiðsögumanna.
Aukin menntun leiðsögumanna tengist verkefnum tveggja annarra starfshópa sem eru skipaðir til að fylgja eftir aðgerðum í aðgerðaáætlun með ferðaþjónustustefnu til 2030. Annar vegar starfshópur um alþjóðlegt nám í afþreyingartengdri ferðaþjónustu með áherslu á sjálfbærni, og hins vegar starfshópur um eflingu náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig og aukið aðgengi að námi. Formenn þessara þriggja starfshópa vinna að verkaskiptingu á milli starfshópanna, en starfshópur um öryggismál í ferðaþjónustu stefnir að því að skila inn tillögum sínum er varða menntun leiðsögumanna haustið 2025.

Starfshópurinn vinnur samkvæmt starfsáætlun sem hann hefur sett sér. Hann mun á komandi misserum vinna að framgangi forgangsverkefnanna sex og jafnframt stuðla að samráði á milli hlutaðeigandi ráðuneyta, stofnana og atvinnugreinarinnar. Starfshópurinn mun næst skila áfangaskýrslu til ráðuneytisins 1. júní 2025.

Á heimasíðu Ferðamálastofu má nálgast nánari upplýsingar um störf starfshópsins og þar má einnig koma á framfæri ábendingum til hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta