Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra undirritar stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu

Undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar rjúpu. Fv. Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku og loftslagráðuneytisins, Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.  - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu. Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi.

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Þá naut samstarfshópurinn aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Stjórnunar- og verndaráætlunin felur í sér nýtt kerfi veiðistjórnunar þar sem landinu er skipt í sex hluta og veiðistjórnunin er svæðisbundin. Einnig hafa verið þróuð ný stofnlíkön sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Enn fremur er markmiðið með áætluninni að stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Við undirritun stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu er brotið blað í veiðistjórnun fyrir rjúpu. Veiðistjórnunarkerfið byggist á sterkum vísindalegum grunni og aðferðafræði þar sem þekking og áliti aðila hefur verið tekin með í reikninginn. Stefnt er að því að þessi tegund veiðistjórnunar tryggi stöðu rjúpunnar sem veiðibráðar en á sama tíma stöðu stofnsins í íslenskri náttúru. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þá vinnu sem unnin var af samstarfshópnum og Dr. Fred A. Johnson. Í áætluninni felst fyrirsjáanleiki sem oft hefur vantað þegar veiðimenn hafa undirbúið sig fyrir ferðir sínar út í íslenska náttúru. Á heildina litið er því um mikið framfaraskref að ræða í þessum málum.“

Kortasjá Umhverfisstofnunar

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta