Hildur H. Dungal skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Hildi H. Dungal í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála.
Hildur er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála sem lögfræðingur frá árinu 2022 og staðgengill skrifstofustjóra frá árinu 2023. Hún hefur verið settur skrifstofustjóri á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála frá 1. mars 2024. Hildur starfaði sem lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá árinu 2019 og dómsmálaráðuneytinu/innanríkisráðuneytinu frá 2013, þar af var hún staðgengill skrifstofustjóra frá árinu 2016.
Hildur var áður formaður áfrýjunarnefndar neytendamála. Hún var lögfræðingur hjá Útlendingastofnun og síðan forstjóri stofnunarinnar á árunum 2005-2008. Áður var hún deildarstjóri upplýsinga- og lögfræðideildar hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Hildur hefur átt sæti í ýmsum stjórnum, meðal annars Origo hf. og Vodafone/Sýn hf. Þá var hún um tíma bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Embætti skrifstofustjóra á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála var auglýst í júlí síðastliðinn. Skipuð var ráðgefandi hæfnisnefnd sem skilaði ráðherra greinargerð í október og voru þrír einstaklingar metnir hæfastir. Sökum stjórnarslita tafðist ráðningarferlið en að loknu heildarmati á gögnum málsins og viðtölum við þrjá umsækjendur var það mat ráðherra að Hildur H. Dungal fullnægi best af umsækjendum þeim hæfniskröfum sem tilgreindar eru í auglýsingu um embætti skrifstofustjóra á skrifstofu húsnæðis- og skipulagsmála.