Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2025 Forsætisráðuneytið

Anna Rut, Anna Sigrún og Sveinbjörn ráðin aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar

Aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar: Anna Rut Kristjánsdóttir, Sveinbjörn Finnsson og Anna Sigrún Baldursdóttir. - mynd

Anna Rut Kristjánsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir og Sveinbjörn Finnsson hafa verið ráðin aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar.

Anna Rut mun sinna almennri samhæfingu og Anna Sigrún verður ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum með áherslu á samhæfingu verkefna velferðarþjónustunnar. Þær hafa báðar hafið störf. Sveinbjörn mun vinna að samhæfingu á sviði atvinnustefnu og loftslagsmála og hefur störf á næstu mánuðum.

Anna Rut er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur frá árinu 2021 starfað hjá umboðsmanni Alþingis, lengst af sem skrifstofustjóri kvartanasviðs. Á árunum 2014 til 2019 starfaði hún sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og leysti tímabundið af sem lögfræðingur við Mannréttindadómstól Evrópu.

Þá starfaði Anna Rut sem lögfræðingur í forsætisráðuneytinu 2020 til 2021 og á skrifstofu rektors Háskóla Íslands 2019 til 2020 auk þess að sitja í úrskurðarnefnd velferðarmála árin 2020 til 2021. Anna Rut hefur undanfarin ár sinnt stundakennslu, m.a. í stjórnsýslurétti, opinberri stjórnsýslu og starfsmannarétti á grunn- og meistarastigi við lagadeild og stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Anna Sigrún er með BS próf í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún stundaði nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Hún var síðustu ár skrifstofustjóri öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg en áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri, aðstoðarmaður forstjóra, fjármálaráðgjafi og hjúkrunarfræðingur á Landspítala.

Anna Sigrún var einnig aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra 2009 til 2011 og aðstoðarmaður velferðarráðherra 2011 til 2013. Þar áður starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur í Stokkhólmi og víðar og rak m.a. eigið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu í Reykjavík.

Sveinbjörn er með BSc gráður í eðlisfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, MSc gráðu í orkuverkfræði frá ETH í Zürich og alþjóðlega IMPA vottun í verkefnastjórnun. Hann hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015, síðast sem forstöðumaður verkefnaþróunar á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar. Áður sinnti hann alþjóðlegri viðskiptaþróun og viðskiptagreiningu hjá fyrirtækinu.

Í störfum sínum hjá Landsvirkjun hefur hann m.a. leitt stefnumótun um alþjóðlega starfsemi fyrirtækisins, farið fyrir samningaviðræðum við nýja viðskiptavini og stýrt verkefnum sem snúa að orkuskiptum í íslensku atvinnulífi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta