Hoppa yfir valmynd
31. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um tengiliði og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Með farsældarlögunum eiga öll börn og foreldrar þeirra, sem á þurfa að halda, rétt á þjónustu tengiliðs og/eða málstjóra. Um er að ræða aðila sem geta aðstoðað börn og barnafjölskyldur við að sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana, á öllum þjónustustigum.

Tengiliður er einstaklingur í nærumhverfi barns og er starfsmaður mismunandi þjónustuveitenda eftir æviskeiði þess. Í hverjum leik-, grunn- og framhaldsskóla og á hverri heilsugæslustöð verður í það minnsta einn starfsmaður að gegna hlutverki tengiliðar og skal gætt að því að hann hafi svigrúm til að sinna hlutverkinu.

Á grundvelli reglugerðarinnar er þjónustuveitendum nú skylt að tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um þá aðila sem gegna hlutverkinu enda er stofunni ætlað styðjandi og leiðbeinandi hlutverk gagnvart þessum aðilum. Upplýsingar um það hverjir gegna hlutverkinu skulu vera aðgengilegar börnum og barnafjölskyldum.

Sérhverri félagsþjónustu sveitarfélags er jafnframt skylt að hafa yfir að ráða a.m.k. einum einstaklingi sem sinnir hlutverki málstjóra á grundvelli laganna og reglugerðarinnar. Sveitarfélag getur einnig nýtt heimild til að velja málstjóra utan félagsþjónustu en þá skal tilkynna Barna- og fjölskyldustofu um það, líkt og kveðið er á um í reglugerðinni.

„Innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna stendur yfir og er birting reglugerðarinnar mikilvægur liður í því að skilgreina hlutverk, hæfisskilyrði og menntunarkröfur sem gerðar eru til tengiliða og málstjóra,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Um er að ræða fagaðila sem aðstoða börn og foreldra þeirra við að fá þá þjónustu sem börnin þurfa á að halda hverju sinni þvert á kerfi. Þeir gegna lykilhlutverki við samþættingu þjónustu og er þetta stórt skref í sameiginlegri vegferð okkar við innleiðingu farsældarlaganna.“

Reglugerðin var kynnt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda 8. ágúst og hefur nú verið birt í Stjórnartíðindum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta