Hoppa yfir valmynd
7. mars 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

S&P staðfestir A+ lánshæfiseinkunn Íslands með stöðugum horfum

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A+ lánshæfiseinkunn Íslands. Horfur fyrir einkunnina eru stöðugar.

Lánshæfiseinkunn Íslands endurspeglar mjög háa landsframleiðslu á mann og sterkan hagvöxt, sem hefur verið hærri en hjá flestum ríkjum sem S&P meta í Vestur-Evrópu, sem og sterka stofnanaumgjörð og trausta efnahags- og ríkisfjármálastefnu. Þættir sem halda aftur af einkunninni eru eftir sem áður sveiflukennt eðli íslenska hagkerfisins, sem er útsett fyrir náttúruvá, þar á meðal eldvirkni, sem og neikvæð ytri þróun sem það hefur ekki stjórn á, svo sem áhætta í alþjóðamálum, deilur um alþjóðaviðskipti og sveiflukennd viðskiptakjör. Smæð íslensks efnahagslífs takmarkar einnig nokkuð skilvirkni hagstjórnar og peningastefnu vegna áhrifa utanaðkomandi þátta sem Ísland hefur ekki stjórn á.

Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að í kjölfar tímabundins samdráttar á árinu 2024 muni hagvöxtur á Íslandi taka við sér á næstu árum á meðan halli á ríkisfjármálum og í viðskiptum við útlönd haldast í skefjum. Horfurnar endurspegla einnig þá forsendu S&P að hvorki eldvirkni né spenna í alþjóðlegum viðskiptum muni hafa veruleg viðvarandi neikvæð áhrif á efnahagsstarfsemi, ríkisfjármál eða greiðslujöfnuð. Álútflutningur er að mestu leyti til evrópskra markaða, einkum Hollands og Þýskalands, sem dregur úr beinni áhættu vegna tolla sem stendur.

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað ef opinber fjármál landsins styrktust umtalsvert meira en S&P gerir ráð fyrir. Einkunnin gæti einnig hækkað ef S&P telja að aukin fjölbreytni gerði hagkerfið viðnámsþolnara fyrir ytri áföllum á sama tíma og núverandi spenna í alþjóðaviðskiptum minnkaði án viðvarandi neikvæðra efnahagslegra áhrifa.

Lánshæfiseinkunnin gæti lækkað ef afkoma ríkisfjármála eða greiðslujöfnuður reyndust verulega lakari en í grunnspá S&P. Það gæti til dæmis gerst ef viðvarandi truflandi eldvirkni hamlaði ferðaþjónustu landsins og vexti; eða ef Ísland yrði fyrir meiri áhrifum af spennu í alþjóðaviðskiptum eða yrði að auka verulega útgjöld til varnarmála.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta