Jens Stoltenberg falið að gera tillögur um að efla öryggis- og varnarsamstarf NB8-ríkjanna
Ríkisstjórnaroddvitar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) fólu fyrr í dag Jens Stoltenberg, fyrrum framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, að vinna að sjálfstæðri skýrslu og tillögum sem miða að því að efla samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála.
Hafa ríkin farið þess á leit við Stoltenberg að hann greini möguleikana á að efla svæðisbundið samstarf og styrkja varnir og fælingarmátt ríkjanna og að hann leggi fram tillögur til úrbóta í aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Haag í lok júní. Mun skýrslan leggja áherslu á hervarnir en jafnframt hvernig unnt er að mæta skemmdarverkum af hálfu Rússa og öðrum fjölþáttaógnum.
„Ógnir í norðanverðri Evrópu hafa stigmagnast á undanförum misserum, ekki síst í kjölfar árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Nú þegar Norðurlöndin fimm og Eystrasaltsríkin þrjú eru öll orðin aðildarríki Atlantshafsbandalagsins gefst einstakt tækifæri til að huga að því hvernig unnt er að efla samvinnu ríkjanna. Ég fagna þessu frumkvæði þar sem leitast verður við að nýta tækifærin sem gefast til að þétta samstarf þessa öfluga ríkjahóps, og styrkja þannig svæðisbundnar varnir og varnir Atlantshafsbandalagsins í heild sinni,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. Segir hún jafnframt að ríkisstjórnaroddvitar allra ríkjanna bindi miklar væntingar við tillögur Stoltenbergs sem verða lagðar til grundvallar sameiginlegri afstöðu NB8-ríkjanna fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í sumar.
„Auknar ógnir beinast nú að svæðinu sem markast af Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Ég er þess fullviss að skýrsla Jens Stoltenbergs mun skapa styrka og sjálfstæða ráðgjöf til NB8-ríkjanna um hvernig við getum eflt svæðisbundið samstarf á sviði öryggis- og varnarmála,“ segir Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur sem tók nú um áramótin við forystu í NB8-ríkjahópnum eftir formennskuár Svía í fyrra.
„Í fyrsta sinn í sögunni eru öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin aðilar að sama varnarbandalaginu. Þessi staða færir okkur ný tækifæri og þessi skýrsla er mikilvægt frumkvæði með það fyrir augum að dýpka svæðisbundna samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála. Ég er afar þakklátur fyrir þetta tækifæri að fá að leggja mitt af mörkum ,“ segir Jens Stoltenberg, fyrrum framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.