Heilbrigðisráðherra fær Björn Zoëga til ráðgjafar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur ráðið Björn Zoëga, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, sem ráðgjafa í tímabundið hlutastarf meðfram störfum sínum sem forstjóri. Björn hefur þegar hafið störf.
„Ljóst er að Landspítalinn er hryggjarstykkið í okkar heilbrigðiskerfi. Spítalinn verður að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki nú og í framtíðinni. Þá er gott samspil spítalans við aðra þætti heilbrigðiskerfisins lykilatriði. Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.“ Segir Willum Þór.
Meðal þess sem liggur til grundvallar þeirri vinnu sem er framundan eru áherslur í heilbrigðismálum í nýjum stjórnarsáttmála, innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar og greiningarvinna sem gerð hefur verið á framtíðarþjónustu Landspítala.
„Velferð Landspítalans er og verður ætíð mitt hjartans mál. Það eru fjölmörg tækifæri til að styðja við og styrkja stofnunina og starfsfólkið. Ég er því þakklátur og ánægður að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum, og aðstoða nýjan ráðherra í þessu mikilvæga verkefni.“ Segir Björn Zoëga.