Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Opinberir háskólar fái heimild til að innheimta skólagjöld af nemendum utan EES

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hyggst leggja fram frumvarp á haustþingi um breytingar á lögum um opinbera háskóla sem fela í sér heimild til skólanna til að innheimta skólagjöld fyrir nemendur sem koma frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins (EES). Samhliða þessu verða teknir upp námsstyrkir fyrir afburðanemendur frá þessum löndum í þeim tilgangi að efnilegir nemendur hafi áfram tækifæri til náms á Íslandi, óháð efnahag. Markmið þessara breytinga er að laga íslenska háskólakerfið betur að alþjóðlegri þróun, efla gæði háskólanáms og styrkja fjárhagslega stöðu opinberu háskólanna í alþjóðlegri samkeppni.

„Með þessum breytingum erum við að forgangsraða fjármunum um leið og við aukum gæði og þjónustu við nemendur. Það er ekki rétt forgangsröðun að nýta sameiginlega sjóði til að greiða háskólanám fyrir erlenda nemendur. Við eigum að laða til okkar nemendur vegna gæða háskólanáms en ekki vegna þess að það er gjaldfrjálst. Þessar breytingar verða hvati fyrir skólana að laða til sín afburðanemendur, nemendur sem margir hverjir dvelja hér áfram að námi loknu svo samfélagið geti notið sérþekkingar þeirra sem eykur verðmætasköpun,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Í dag er Ísland eina Norðurlandaþjóðin sem ekki innheimtir skólagjöld frá nemendum utan EES, en á síðustu tæpum tveimur áratugum hafa sambærilegar breytingar verið gerðar í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Í öllum löndunum eru gerðar undanþágur fyrir nemendur sem hafa sambærilega réttarstöðu og nemendur innan EES, auk þess sem doktorsnemar greiða almennt ekki skólagjöld. Fyrirhuguð breyting á íslensku lögunum gerir einnig ráð fyrir slíkum undanþágum.

Erlendum umsóknum í íslenska háskóla fjölgar hratt

Ætla má að stóraukinn fjölda umsókna frá löndum utan EES í háskóla á Íslandi undanfarin ár megi rekja til þeirrar staðreyndar að hingað til hafi opinberu háskólarnir ekki innheimt skólagjöld fyrir nemendur frá þessum löndum. T.a.m. fjölgaði erlendum umsóknum í Háskóla Íslands úr 1.472 fyrir síðasta skólaár í 2.285 fyrir skólaárið sem nú er að hefjast. Þar af eru tæplega 2.000 umsóknir frá nemendum utan EES. Sambærileg þróun hefur átt sér stað hjá hinum háskólunum. Verði skólagjöld sem þessi ekki tekin upp má leiða líkur að því að nýlegar lagabreytingar um aukin réttindi til dvalarleyfis eftir að háskólanámi lýkur muni gera það að verkum að umsóknum frá löndum utan EES fjölgi enn frekar.

Fulltrúar opinberu háskólanna hafa bent á að með auknum fjölda erlendra nemenda eykst kostnaður vegna kennslu og þjónustu. Þar sem aukningin er talsvert meiri vegna nemenda utan EES sé mikilvægt að mæta slíkum kostnaði með gjaldtöku í stað þess að kostnaðurinn komi niður á opinberri fjármögnun háskólastigsins.

Í samræmi við ábendingar OECD

Vinna við undirbúning frumvarps til breytingar laga um opinbera háskóla er nú hafin í ráðuneytinu. Breytingar þær sem lagðar eru til eru í takt við ábendingar sem borist hafa frá OECD um þessi mál. Þar að auki er mikilvæg að opinberir háskólar á Íslandi gangi í takt við hin Norðurlöndin sem og alþjóðlega þróun á sviði háskólamála. Þannig mun frumvarpið leggja til að nemendur frá löndum utan EES verði teknir út úr fjármögnunarlíkani háskólanna og að þess í stað fái opinberir háskólar heimild til að innheimta skólagjöld sem svari a.m.k. áætluðum kostnaði við það nám sem sótt er um.

Breytingin felur ekki í sér skerðingu á heildarfjármögnun hins opinbera til háskólamála. Þvert á móti felur hún í sér að fjármagnið nýtist betur til að auka gæði í háskólastarfi og veita sem besta þjónustu við nemendur. Vinna við breytingarfrumvarpið mun fela í sér áframhaldandi greiningarvinnu og náið samráð við háskólana, samtök nemenda og fulltrúa norrænna háskóla. Stefnt er að því framlagningu frumvarpsins á haustþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum