Hoppa yfir valmynd
12. mars 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stórbætt kjör eldri borgara á Íslandi

Kjör eldri borgara hafa batnað verulega á síðustu árum. Á það við hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu og hafa kjarabætur hópsins á ýmsum sviðum verið talsvert meiri en annarra aldurshópa. Þá hafa útgjöld ríkisins til ellilífeyrisþega aukist verulega. Þetta kemur fram í nýrri samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Heildartekjur lífeyrisþega sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafa hækkað um helming frá árinu 2015 og kaupmáttur þeirra aukist, en aukningin er hlutfallslega mest hjá þeim tekjulægstu. Þá er eigna- og skuldastaða hópsins góð, langflestir búa í eigin húsnæði og hjá miklum meirihluta eldri borgara er greiðslubyrði á bilinu 0-10% af ráðstöfunartekjum.

Mikil áhersla á málefni aldraðra

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020 voru íbúar 67 ára og eldri 45.250 talsins hér á landi og hafði þeim fjölgað um 16% frá árinu 2015. Á tímabilinu jukust útgjöld ríkissjóðs vegna lífeyrisgreiðslna á hvern ellilífeyrisþega úr 1,6 milljón króna á ári í 2,4 milljónir króna.

Mikil áhersla hefur verið lögð á málefni aldraðra og jukust t.a.m. útgjöld ríkissjóðs í málaflokkinn úr 51 milljarði króna árið 2015 í 86 milljarða árið 2020. Um er að ræða 70% aukningu að raunvirði, miðað við vísitölu neysluverðs, en hana má bæði rekja til fjölgunar ellilífeyrisþega og hækkunar ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun (TR). Þá voru á árinu 2016 gerðar breytingar á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að stórbæta kjör aldraðra og jukust útgjöld til málaflokksins í kjölfarið um 16,3 milljarða króna á milli ára.

Veruleg tekjuhækkun í tíð sitjandi ríkisstjórnar

Þegar heildartekjur ellilífeyrisþega sem fá greiðslur frá TR eru skoðaðar og skipt upp eftir tekjutíundunum sést að mikil tekjuhækkun hefur orðið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hafa tekjulægri hópar hækkað meira en þeir tekjuhærri en frá árinu 2016 hefur meðaltal heildartekna tekjulægsta hópsins hækkað um 39%. Á sama tíma hafa heildartekjur einstaklinga sem tilheyra næstefstu tíundinni hækkað um 9%.

 

Góð staða ellilífeyrisþega endurspeglast bæði í lágum skuldum og í eignastöðu hópsins. Árið 2019 skuldaði sambúðarfólk á lífeyristökualdri að meðaltali um 7 milljónir króna á meðan hrein eign nam að meðaltali um 70 milljónum og skuldir hópsins því um 10% af eignum. Langflestir 67 ára og eldri búa í eigin húsnæði, en hlutfallið var um 90% árið 2016 og árið 2018 bjó aðeins um 6% hópsins í leiguhúsnæði og þar af er aðeins lítill hluti á almennum leigumarkaði.

Færri reiða sig á greiðslur frá Tryggingastofnun

Þá hefur þeim fjölgað á síðustu árum sem eru svo tekjuháir að þeir fá eingöngu greiðslur frá lífeyrissjóðum en ekki frá TR. Um fimmtungur 67 ára og eldri fékk eingöngu greiðslur frá lífeyrissjóðum árið 2018 og fjölgaði um 7% frá árinu 2015 þegar horft er til hlutfalls af aldurshópnum. Hjá aldurshópnum 65-74 ára stóð greiðslubyrði af föstum greiðslum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hjá tæplega 70% hópsins í 0-10% af ráðstöfunartekjum árið 2018 og var hlutfallið enn hærra hjá þeim sem voru 75 ára og eldri. Til samanburðar voru tæp 55% fólks í aldurshópnum 35-55 ára með svo lága greiðslubyrði sama ár.

 

Stöðug aukning frá 2015

Tekjur og réttindi ellilífeyrisþega námu í fyrra 117% af lágmarkslaunum. Þetta hlutfall lækkaði í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og hélt áfram að lækka til 2016 þegar það fór lægst í 108% af lágmarkslaunum. Þær breytingar sem þá voru gerðar á almannatryggingakerfinu til að bæta kjör ellilífeyrisþega leiddu aftur á móti til umtalsverðrar hækkunar næstu ár þar á eftir. Frá 2015 hefur kaupmáttur heildartekna ellilífeyrisþega aukist um ríflega þriðjung, mun meira en kaupmáttur launa, sem hefur aukist um fjórðung á sama tímabili.

Bætur og lífeyrir farið hækkandi

Meirihluti ellilífeyrisþega er með aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga og mjög lítill hópur framfleytir sér eingöngu á ellilífeyri frá TR. Sá hópur taldi alls um 1.300 manns árið 2018 eða um 3% þeirra sem eru 67 ára og eldri.

Frá 2015 til 2021 hafa bætur almannatrygginga:

  • Hækkað að meðaltali um 5,4% á ári hjá ellilífeyrisþegum í sambúð.
  • Hækkað að meðaltali um 6,8% hjá þeim sem búa einir og eru með heimilisuppbót auk ellilífeyris.
  • Ellilífeyrir er í dag 37% hærri en hann var 2015.
  • Ellilífeyrir ásamt heimilisuppbót er 48% hærri en 2015.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta