Starfshópur fer yfir tjón bænda vegna kuldatíðar og skoðar stuðningsaðgerðir
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sl. föstudag tillögu matvælaráðherra um skipun starfshóps til að fara yfir tjón bænda vegna óvanalegs veðurfars fyrr á árinu og gera tillögur um útfærslu og umfang stuðningsaðgerða.
Kuldatíð síðasta vor og kalt sumar með fáum sólarstundum ollu búsifjum víða um land. Tjón varð á búfénaði vegna kuldakasts, sáning spilltist vegna mikillar bleytu og foks með tilheyrandi uppskerubresti og kaltjón varð á túnum. Þá leiddu óvenjufáar sólarstundir til hærri raforkukostnaðar hjá garðyrkjubændum.
Viðbragðshópur skipaður fulltrúum matvælaráðuneytis, Bændasamtaka Íslands, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og Almannavarna tók til starfa í júní. Í kjölfarið var ráðist í vinnu við að skrá umfang tjóns bænda umfram það sem núverandi kerfi gera ráð fyrir að styðja við.
Alls var skráð tjón á 375 búum, flestum á Norðurlandi. Er þar um að ræða tjón á búfénaði, uppskeru, afurðatap og kostnað við endursáningu. Meginverkefni starfshópsins verður yfirferð á þeim skráningum.
Þá mun starfshópurinn einnig skoða stöðu garðyrkjubænda vegna hækkunar orkukostnaðar. Áætlanir gera ráð fyrir að um 40 milljónir króna vanti upp á svo fjárheimildir til niðurgreiðslu flutnings- og dreifingar raforku til garðyrkjubænda nái 95% niðurgreiðsluhlutfalli sem samningur ríkisins og Bændasamtakanna um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða miðar að.
Fulltrúar forsætisráðuneytis, matvælaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis munu eiga sæti í starfshópnum sem ætlað er að skila matvælaráðherra tillögum sínum í næsta mánuði.
Kaltjón fellur undir hlutverk Bjargráðasjóðs en alls bárust 123 umsóknir um stuðning af svæðinu frá Strandabyggð til Múlaþings. Gert er ráð fyrir að um 300 milljónum króna verði varið til stuðnings vegna tjónsins. Þessar umsóknir verða afgreiddar af Bjargráðasjóði í samræmi við fyrri afgreiðslur í sambærilegum tilvikum, en síðast varð verulegt kaltjón veturinn 2019-2020. Það kemur því ekki til skoðunar í starfshópnum.