Fjarskiptalæknir bráðaþjónustu á sólarhringsvakt vegna illviðris um allt land
Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samráði við Landspítala að tryggja sólarhringsmönnun fjarskiptalæknis bráðaþjónustu meðan illviðri gengur yfir landið. Í gildi eru rauðar veðurviðvaranir um allt land. Ljóst er að við slíkar aðstæður geta samgöngur farið úr skorðum sem getur gert sjúkraflutninga torvelda eða ómögulega meðan ástandið varir.
Hlutverk fjarskiptalæknis er að veita viðbragðsaðilum og heilbrigðisstarfsfólki stuðning í bráðum aðstæðum. Í því felst að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf til viðbragðsaðila og heilbrigðisstarfsmanna. Verkefni fjarskiptalæknis eru meðal annars að styðja Neyðarlinuna þegar virkja þarf sjúkraþyrlu, forgangsraða sjúkrabílum og sjúkraflutningum. Hann styður einnig við vinnu sjúkraflutningamanna og annara viðbragðsaðila, þar með talið björgunnarsveita Landsbjargar við að sinna sjúklingum á vettvangi. Þessu til viðbótar getur fjarskiptalæknir veitt heilbrigðisstarfmönnum stuðning til að takast á við bráð og alvarleg tilfelli sem alla jafna hefðu verið flutt á aðra heilbrigðisstofnum svo sem sjúkrahúsið á Akureyri eða Landspítala.
Vakin er athygli á því einstaklingar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda skulu áfram hringja í síma 112 í neyðartilvikum eða síma 1700 til að fá ráðgjöf um heilbrigðisþjónustu. Viðbragðsaðilar og heilbrigðisstarfsmenn leita til fjarskiptalæknis bráðaþjónustu eftir þörfum.
Fjarskiptalæknir bráðaþjónustu starfar innan Landspítala sem sér um stjórnun og mönnun starfseminnar.