Menningarsamningur við Akureyrarbæ undirritaður
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri undirrituðu samninginn.
„Akureyrarbær státar af fjölbreyttu menningarlífi og það er mikilvægur liður í okkar menningarstefnu að stuðla að uppbyggingu, aðgengi og fagmennsku í listalífi íbúa um land allt. Þannig eflum við samfélög og stuðlum að auknum lífsgæðum. Akureyrarbær er að mörgu leyti í einstakri stöðu sem stærsti þéttbýliskjarninn utan höfuðborgarsvæðisins. Menningarlífið er kvikt og þróun samstarfssamninga þarf vitanlega að taka mið af því, svo og ef vilji er til þess að víkka út hlutverk þeirra eða áhrifasvæði. Það munum við skoða áfram í samvinnu við Akureyrarbæ og menningarstofnanir á svæðinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Akureyrarbær og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa átt í löngu og farsælu samstarfi um uppbyggingu menningarstarfs á Akureyri og það er afar ánægjulegt að staðfesta framhald þess í dag. Tilgangur samningsins er að byggja upp atvinnustarfsemi í listum á Akureyri og við lítum svo á að með því styrkjum við mikilvæga innviði fyrir Norður- og Austurland því áhrifin teygja sig langt út fyrir bæjarmörkin. Svæðið sem heild eflist sem búsetukostur og atvinnufólk í listum á fleiri raunverulega valkosti en höfuðborgarsvæðið eitt þegar það velur sér vettvang. Við viljum á næstu árum styrkja og stækka grunn menningarstarfsins enn frekar í samstarfi við ráðuneytið m.a. með það að markmiði að það sem við höfum leyft okkur að kalla borgarhlutverk Akureyrar verði formlega viðurkennt,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.
Menningarsamningurinn beinist að fjórum meginverkefnum; starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Menningarhússins Hofs og Listasafnsins á Akureyri. Akureyrarbær ákveður og ber ábyrgð á skiptingu framlagsins til menningarstofnanna og skilgreinir hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.