Mælti fyrir frumvarpi um tilkynningar heimilisofbeldis til lögreglu (lög um heilbrigðisstarfsmenn)
Fá mál tilkynnt lögreglu
Árið 2022 voru tæplega 1.100 heimilisofbeldismál tilkynnt lögreglu. Um 63% þeirra voru ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka. Tæplega 80% gerenda voru karlar en 67% þolenda konur og er sú staðreynd ein meginástæða þess að heimilisofbeldi er skilgreint sem kynbundið ofbeldi. Samkvæmt skrám Landspítala hafði lögregla aðkomu að einungis 12% mála þeirra kvenna sem lagðar voru inn á Landspítala í kjölfar heimilisofbeldis á árunum 2005-2019.Ofbeldi ítrekað og alvarleiki stigmagnast
Fyrir liggur að þolendur heimilisofbeldis eru útsettir fyrir ítrekað ofbeldi og að alvarleiki þess stigmagnist. Af þeim 1.636 konum sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis á 15 ára tímabili höfðu 38% þeirra komið á spítalann áður á tímabilinu af sömu sökum. Þetta sýnir mikilvægi þess að leitast við að rjúfa ofbeldishringinn og styðja þolendur til að komast út úr aðstæðum.Markmið lagabreytingar
Heimilisofbeldi er umfangsmikið samfélagslegt mein sem er í vaxandi mæli álitið úrlausnarefni samfélagsins alls. Því hafa auknar kröfur verið settar á stjórnvöld til að bregðast við og grípa til nauðsynlegra og markvissra aðgerða til að vinna gegn því og vernda þau sem fyrir því verða. Heilbrigðisstarfsmenn eru oft fyrstu og jafnvel einu fagaðilarnir sem fá vitneskju um heimilisofbeldi og því mikilvægt að þeir hafi verklag og skýra lagaheimild til að bregðast við.Tölfræðin sýnir að þrátt fyrir alvarleika heimilisofbeldis, þar sem þolendur þurfa að leita á heilbrigðisstofnun vegna þess, eru hlutfallslega fá mál tilkynnt lögreglu. Mögulega er ástæðan sú að heilbrigðisstarfsfólk telji undanþáguákvæði frá þagnarskyldu í gildandi lögum ekki nógu skýrt. Með áformaðri lagabreytingu er því sérstaklega kveðið á um heimild heilbrigðisstarfsmanns, að höfðu samráði við þolandann, til að tilkynna lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings. Þar er jafnframt tilgreint hvaða upplýsingum er heimilt að miðla til lögreglu þannig að henni sé kleift að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja hlutaðeigandi nauðsynlega vernd og stuðning.
Verklagsreglur um móttöku þolenda heimilisofbeldis
Nú er unnið að innleiðingu samræmds verklags í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis. Verklagið verður tekið upp næsta haust og innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum hér á landi. Markmiðið er að tryggja þolendum viðeigandi heilbrigðisþjónustu og að auk aðkomu læknis og hjúkrunarfræðings sé einnig gert ráð fyrir tengingu við félagsráðgjafa og þjónustu áfallateymis. Jafnframt á verklagið að tryggja að öll heimilisofbeldismál verði skráð og unnin á sambærilegan hátt og tryggja að þolendur, óháð búsetu og efnahag, fái sambærilega þjónustu. Innleiðing verklagsins er óháð áformaðri lagabreytingu en hvoru tveggja hefur að markmiði að bæta málsmeðferð heimilisofbeldismála, styðja við störf heilbrigðisstarfsfólks í slíkum málum og bæta þjónustu við þolendur.