Aukin þátttaka fatlaðra í íþrótta- og afreksstarfi
Samningur um áframhaldandi stuðning við Íþróttasamband fatlaðra var undirritaður í mennta- og barnamálaráðuneytinu í dag. Markmið samningsins er að auka þátttöku fatlaðra í íþróttastarfi.
Sérstök áhersla hefur verið lögð á stuðning við íþróttaiðkun fatlaðra á undanförnum árum. Má þar nefna verkefnið Allir með sem miðar að því að fjölga tækifærum og auka aðgengi fatlaðra að íþróttum. Verkefnið er samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra, ÍSÍ og UMFÍ og er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu, félags- og vinnumálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu.
Einnig er sérstök áhersla á afreksstarf fyrir fatlað íþróttafólk í samræmi við tillögur starfshóps mennta- og barnamálaráðherra sem birtar voru í apríl á síðasta ári.
Íþróttasamband fatlaðra samræmir starf allra íþróttafélaga sem bjóða upp á starf fyrir einstaklinga með fötlun. Með samningnum er sambandinu falið að
- stuðla að heilbrigðum lífsháttum og hollri hreyfingu,
- veita faglegan stuðning og ráðgjöf til að skapa sem hagstæðustu skilyrði til íþróttaiðkunar og gefa sem flestum kost á að taka þátt,
- vinna að útbreiðslu, fræðslu og forvarnarmálum,
- undirbúa og tryggja þátttöku Íslands á Ólympíumóti fatlaðra og öðrum tengdum verkefnum.
Samningurinn gildir til eins árs.