M.is er opið öllum! ..eða opinn öllum?
Menningar- og viðskiptaráðuneytið og Árnastofnun kynna nýjasta skriffærið í pennaveskjum landsmanna: íslenskuvefinn m.is sem er nú opinn öllum eftir fyrsta fasa þróunar. M.is er sérsniðinn að þörfum yngra fólks og þeirra sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Markmið hans er að gera orðabækur og upplýsingar um íslenska tungu aðgengilegri og þá sérstaklega með tilliti til ungmenna.
Hvað gerir m.is?
Á m.is er að finna íslenska orðabók sem sýnir merkingu orða, beygingu þeirra og helstu orðasambönd. Þar er einnig að finna íslensk-enska orðabók og íslensk-pólska orðabók auk þess sem hægt er að þýða orð eða setningar á ensku. Einfalt hugtakasafn skýrir svo helstu hugtök. Boðið er upp á að slá inn texta eða tala inn orð og setningar auk þess sem hægt að hlusta á framburð orða. M.is er þróaður á mörkum hefðbundinna orðabóka og máltæknilausna og nýtir til þess nýjustu tækni. Vefurinn mun því þróast áfram samhliða notkun. Meðal atriða sem kemur til greina að bæta við á næstunni eru yfirlestrartól og samheitaorðabók.
Vinsælar villur
Markmiðið með m-inu er að veita aðgang að gæðaefni um íslenskt mál og að m-ið verði fyrsti viðkomustaður ungs fólks og þeirra sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Þannig einfaldar m.is málið – og er síða sem notendur geta treyst þar sem almennar leitarvélar skila ekki endilega réttri stafsetningu efst í niðurstöðum.
Við vinnslu á kynningarefni fyrir m.is var leitað til hóps framhaldsskólanema úr fimm framhaldsskólum.
„Ungmennin okkar eru snillingar. Þau deildu með okkur algengum villum sem þau sjálf eru að glíma við eða rekast reglulega á og ég er nokkuð viss um að við flest séum með dæmi sem við ruglumst ítrekað á,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra og nefnir dæmi frá hópnum. „Hangir jakkinn eða hengur? Af hverju er hringur kringlóttur en ekki hringlóttur? Það sem er svo frábært við þessa umræðu er að ungu fólki er ekki sama hvernig það skrifar. Það er þessi metnaður og umhyggja fyrir íslenskunni sem sannfærir mig um að íslenskan muni lifi af ef við höldum áfram að hlúa vel að henni.“
Vilja dönsku
Ráðherra og fulltrúi Árnastofnunnar heimsóttu í haust Kvennaskólann og kynntu vefinn fyrir nemendum og starfsfólki. „Það var frábært að fá beint í æð frá nemendum hvað þau þurfa og vilja. Það kom mér til dæmis á óvart að það fyrsta sem þau nefndu að þeim fyndist vanta væri þýðing úr dönsku,“ segir ráðherra en viðbætur við vefinn eru í þróun og hvetur ráðherra notendur til að senda ábendingar á [email protected] til þess að vefurinn þroskist og þróist sem best.