Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni ráðuneytisins

Meginviðfangsefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru á sviði loftslags- og orkumála, hringrásarhagkerfis og umhverfisgæða, náttúruverndar og menningarminja og rannsókna, varna og vöktunar náttúruvár.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands. Á síðasta kjörtímabili var lögfest markmið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040 og markmið um full orkuskipti 2040. Til þess að ná þessum metnaðarfullu markmiðum er nauðsynlegt að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Í stuttu máli fela markmiðin í sér: 

  • Draga þarf úr losun sem er á beinni ábyrgð Íslands (innan ESR kerfisins) um sem nemur 1,3 milljón tonn af CO2 -ígildi/ár fyrir árslok 2030 miðað við árslosun 2020 til viðbótar við þann samdrátt sem þegar hefur náðst. 
  • Draga þarf úr losun innan allra flokka (ESR, ETS og LULUCF) 1 um sem nemur um 12-14 milljón tonn af CO2 -ígildi/ár (nettó) fyrir árslok 2040 miðað við árslosun 2020 til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust Ísland.

Hert markmið Íslands um samdrátt í losun og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kalla á skýrari sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífisins, aukinni áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins.

Verkefni ráðuneytisins

Loftslagsmál

Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er meðal þeirra viðfangsefna sem ber hvað hæst í umhverfismálum.  Helstu verkefni ráðuneytisins í þessum málaflokki eru m.a. vinna við að ná 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og kolefnishlutleysi 2040, uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Meira

 

Orkumál

Helstu áherslur ráðuneytisins á sviði orkumála er að tryggja orku til orkuskipta og framgang þriðju orkuskiptanna, svo fullum  orkuskiptum verði náð fyrir lok árs 2040 og Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða. Áhersla er á græna atvinnuuppbyggingu og grænar fjárfestingar sem geri Ísland að vöggu nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Meira

 

Hringrásarhagkerfið

Virkt hringrásarhagkerfi er ein lykilforsenda þess að árangur náist í loftslagsmálum og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Helstu áherslur ráðuneytisins í þessum málaflokki eru að hraða eins og kostur er innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi, draga úr myndun úrgangs með sjálfbærari neysluháttum og byggja upp innviði sem stuðla að endurvinnslu úrgangs. Meira

 

Náttúruvernd

Ráðuneytið leggur áherslu á að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða og er markmiðið að fyrir árslok 2027 verði 95% áfangastaða innan náttúruverndarsvæða innan þolmarka. Í gangi er vinna að gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði og áhersla er á eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, sem er meðal mikilvægustu verkefna allra þjóða á því sviði. Meira

 

Náttúruvá

Náttúruvá er mikilvægur málaflokkur sem þarfnast öflugrar og heildstæðrar stefnumótunar. Þekking á umhverfinu er undirstaða réttra viðbragða við náttúruvá. Forsendur hafa þó verið að breytast með breyttu byggðamynstri og landnýtingu, aukinni ferðaþjónustu og áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá. Meira

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta