Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson - innviðaráðherraNýtt og öflugt innviðaráðuneyti tekst á við nýja tíma. Hlutverk þess er að líta eftir, upplýsa og leiða samfélagið til aukinna lífsgæða. Undir ráðuneytið heyra málaflokkar samgangna, húsnæðis, skipulags, sveitarstjórna og byggða sem allt eru málaflokkar sem snerta daglegt líf fólks um allt land. Þau nýmæli að húsnæðis- og skipulagsmál voru færð undir sama ráðuneyti eru gríðarlega mikilvæg til að betri yfirsýn náist yfir það svið samfélagsins sem er ekki aðeins mikilvægt fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir almenning og fyrirtæki heldur einnig mikilvægt efnahagsmál fyrir þjóðina.

Búsetufrelsi er það hugtak sem er yfir og allt um kring í vinnu innviðaráðuneytisins enda eru lífsgæði fólks ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar, og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.

Byggðamál eru rauður þráður í starfi ráðuneytisins og ganga þau þvert á alla málaflokka. Mikil áhersla er lögð á að jafna aðgengi landsmanna að þjónustu og er Loftbrúin gott dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð.

Í uppbyggingu samgönguinnviða um allt land er gríðarlega arðsöm fjárfesting fyrir ríkið. Samgöngur eru lífæð samfélagsins og styðja við öflugt atvinnulíf um allt land og veitir byggðunum mikinn styrk. Verkefnin eru fjölbreytt og spanna allt frá bundnu slitlagi á tengivegi til metnaðarfullra samvinnuverkefna á borð við Ölfusárbrú og Sundabraut.

Stöðug vinna er í gangi varðandi samvinnu ríkis og sveitarfélaga og verkaskiptingu þessara tveggja stjórnsýslustiga. Áhersla hefur verið lögð á styrkingu sveitarstjórnarstigsins með öflugum stuðningi við sameiningu sveitarfélaga enda hefur verið sýnt fram á að stærri sveitarfélög hafa öflugri stjórnsýslu og geta veitt íbúum betri þjónustu.

Mikilvægasta verkefni okkar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði sem er ekki aðeins brýnt fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þær miklu sveiflur sem hafa verið og skapast af skorti á framboði eitt árið og offramboði annað árið hafa mikil áhrif á allt hagkerfið, hafa áhrif á verðbólgu og vexti. Það að ná jafnvægi er því ekki aðeins mikilvægt fyrir líf einstaklinga og fjölskyldna heldur einnig fyrirtækin í landinu. Jafnvægi verður aðeins náð með náinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga og með réttu samspili húsnæðis- og skipulagsmála.

Þau verkefni sem heyra undir innviðaráðuneytið eru viðamikil og mikilvæg fyrir daglegt líf á Íslandi. Við munum leggja nótt við dag við þjónustu okkar við samfélagið. Við munum vinna að umbótum og uppbyggingu í þágu lands og þjóðar af heilindum og dugnaði.

Áfram veginn.

Horfa á ávarpið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta