Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022

Meginhlutverk fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að fara með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála. Ráðuneytið fer að auki með málefni fjármálamarkaðarins, ber ábyrgð á bættum stjórnunarháttum og áætlanagerð, hefur með höndum virka stjórn mannauðsmála ríkisins og er leiðandi í umbótum og nýsköpun í rekstri ríkisins. Um hundrað starfsmenn eru í ráðuneytinu. Árið 2022 sinnti ráðuneytið fjölmörgum verkefnum sem tengjast stefnumörkun stjórnvalda, bæði reglubundnum á borð við fjármálaáætlun, fjárlög og fjáraukalög, en einnig ýmsum áhersluverkefnum. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2022.

Fréttaannáll 2022

Yfirlit yfir helstu verkefni ráðuneytisins má sjá í meðfylgjandi fréttaannál.

Tekjuöflun ríkisins 

Fjármála- og efnahagsráðherra fer með tekjuöflun ríkissjóðs, en það felur í sér stefnumótun og áætlunargerð skatta, eignatekna og annarra tekjustofna. Í fjárlögum ársins 2022 voru heildartekjur samkvæmt GFS-staðli áætlaðar 952 ma.kr. Vel áraði í efnahagslífinu og var hagvöxtur meiri en gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlaga, sem skýrist að hluta til af aukningu í komu erlendra ferðamanna hingað til lands umfram það sem búist var við, sem og miklum aðflutningi fólks. Það endurspeglast í hærri tekjum, en framvinda efnahagsmála hefur mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs af sköttum og tryggingagjöldum. Voru heildartekjur samkvæmt uppgjöri 1.122 ma.kr.

Ferðamönnum fjölgaði á árinu 2022.

Skatttekjur og tryggingagjöld voru alls um 88% af tekjum ríkissjóðs, og því um mjög mikilvæga tekjustofna að ræða. Skatttekjur og tryggingagjöld voru áætluð 853 ma.kr. í fjárlögum, en reyndust 990 ma.kr. í uppgjöri samkvæmt sama staðli. Á meðfylgjandi mynd má sjá breytingu á skatttekjum og tryggingagjöldum milli samþykktra fjárlaga og lokaniðurstöðu samkvæmt ríkisreikningi.

 

Skattaívilnanir á sviði umhverfismála - grænir hvatar 

Skattar og skattaívilnanir eru meðal þeirra stýritækja sem stjórnvöld geta beitt til þess að íslenskt samfélag þokist nær markmiðum sínum í loftslagsmálum. Ýmsir umhverfisskattar eru til staðar hér á landi, en til þeirra teljast þeir skattar þar sem andlag skattlagningar hefur samkvæmt sannreyndum niðurstöðum sértæk neikvæð áhrif á umhverfið. Má þar m.a. nefna kolefnisgjald, vörugjöld af bensíni, olíugjald, vörugjald af ökutækjum, bifreiðagjald, kílómetragjald, skatt á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úrvinnslugjald og gjald rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis.

Þá eru að auki til staðar ýmsar skattaívilnanir á sviði umhverfismála. Ber þar helst að nefna tímabundnar en umfangsmiklar ívilnanir á virðisaukaskatti vegna vistvænna samgangna, með það að markmiði að styðja við orkuskipti og hafa áhrif á ferðavenjur fólks. Ívilnanirnar varða m.a. kaup á vistvænum bifreiðum, útleigu þeirra og endursölu. Auk þess er að finna ýmsar ívilnanir í virðisaukaskatti fyrir smærri farartæki, t.a.m. reiðhjól og rafmagnsreiðhjól. Gildistími flestra ívilnananna er út árið 2023. Vel hefur tekist til í þeim hluta orkuskiptanna er varðar rafvæðingu fólksbílaflotans og er Ísland á meðal fremstu þjóða á heimsvísu er kemur að rafvæðingu flotans. Þá hefur jafnframt verið veittur afsláttur af vörugjaldi á tiltekin vistvæn ökutæki og lækkun á vörugjöldum á eldsneyti sem notað er í samgöngum sé í það blandað vistvænt eldsneyti. Einnig er að finna ákvæði í tekjuskattslögum um ívilnanir er varða samgöngugreiðslur, kolefnisjöfnun, flýtifyrningu vistvænna ökutækja og fyrningarálag vegna grænna fjárfestinga fyrirtækja.

Mannauðstorg ríkisins

Upplýsingasíðan Mannauðstorg ríkisins var opnuð á Ísland.is í október 2022. Ráðuneytið vann að síðunni í samstarfi við Fjársýsluna með það að markmiði að bæta þjónustu við alla sem koma að mannauðsmálum ríkisins. Á síðunni er að finna heildstæða umfjöllun um alla þætti mannauðsmála hjá ríkinu, svo sem ráðningar, starfsþróun, heilsu, öryggi, vinnuumhverfi, samskipti, endurgjöf, starfsþróun og starfslok. Enn fremur er á síðunni að finna upplýsingar um túlkun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á ákvæðum kjarasamninga, heildartexta kjarasamninga sem og leiðbeiningar og sniðmát.

Samhliða útgáfu Mannauðstorgsins fluttist ráðgjöf vegna mannauðsmála sem áður var á hendi kjara- og mannauðssýslu ríkisins til mannauðs- og launasviðs Fjársýslunnar, Með bættu aðgengi að upplýsingum á Mannauðstorgi og aukinni áherslu á stafrænar lausnir er gert ráð fyrir að hægt verði að leysa mörg erindi í formi sjálfsafgreiðslu.

Nýsköpunarmót fest í sessi

Fjármála- og efnahagsráðherra setti formlega Nýsköpunarmót hins opinbera í nóvember og hefur sá vettvangur nú verið festur í sessi. Nýsköpunarmót er vettvangur sem færir opinbera aðila og nýsköpunar- og sprotafyrirtæki að sama borði til að ræða áskoranir og leita lausna. Í þessu skyni opnaði ráðherra nýja vefsíðu inni á Ísland.is þar sem opinberir aðilar og nýskapandi fyrirtæki geta tengst og unnið að því að bæta opinberan rekstur. Verkefnið er hluti af áherslu úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kemur fram að skapa eigi forsendur fyrir opinbera aðila til þess að vinna að jafnaði með nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í því að hanna og þróa lausnir sem geta leyst viðfangsefni hins opinbera á betri og hagkvæmari hátt en gert er. Ríkiskaup er umsjónaraðili verkefnisins sem tengist einnig framgangi innkaupastefnu ríkisins þar sem leitast verður við að auka nýsköpun og hagræði í innkaupum ríkisins.

Stafrænt Ísland

Ísland komst í fremstu röð ríkja í stafrænni opinberri þjónustu með því að mælast í 4. sæti í könnun Evrópusambandsins á stafrænni, opinberri þjónustu (eGovernment Benchmark) í 5. sæti í úttekt Sameinuðu þjóðanna (UN eGovernment Development Index, eGDI). Markmiðið er að komast enn nær toppnum.

Verkefni Stafræns Íslands hlutu sjö tilnefningar á íslensku vefverðlaununum og unnu tvenn verðlaun. Innskráning fyrir alla vann í flokknum Tæknilausn ársins og Mínar síður Ísland.is unnu í flokknum Vefkerfi ársins.

Í könnun sem birt var í nóvember 2022 reyndust 70% notenda Ísland.is ánægð með vefinn og um 28% hlutlaus sem er góð vísbending um að þróun vefsins sé á réttri leið.

Ráðstefnan Tengjum ríkið var haldin í þriðja sinn og var fjölsótt. Um 400 manns sátu ráðstefnuna en yfir 1.000 manns fylgdust með í streymi.
Unnið var að því á árinu að fullmóta þær stafrænu kjarnaþjónustur sem Stafrænt Ísland býður opinberum aðilum. Ný innskráningarþjónusta Ísland.is var innleidd hjá fjölda stofnana en hún inniheldur nýtt umboðskerfi og er bæði hraðvirkari og öruggari en sú sem fyrir var. Þá fjölguðu nýjar Mínar síður á Ísland.is til muna þeim gögnum og þjónustuferlum sem eru nú aðgengileg einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Einföldum líf fólks

Ísland.is vinnur að því meginhlutverki sínu að einfalda líf fólks með stafrænni, opinberri þjónustu á tvo vegu. Annars vegar með því að styðja stafræna þróun stofnana og hins vegar með áherslu á að þjónustan sé notendamiðuð með áherslu á lífsviðburði á Ísland.is, þar sem notendur geta fundið og nýtt stafræna þjónustu út frá sínum forsendum.

Eftirfarandi verkefni voru í brennidepli á árinu:

Stafræn umsókn um fæðingarorlof fór í loftið áramótin 2021/2022. Umsókn um fæðingarorlof er gott dæmi um flókið og tímafrekt umsóknarferli fyrir notendur, sem kallaði á talsverða pappírsvinnu og ferðir á milli stofnana. Með stafrænni lausn skráir verðandi foreldri sig inn með rafrænum skilríkjum og umsóknin sækir sjálfkrafa allar þær upplýsingar sem þarf til að afgreiða umsóknina. Í fyrstu var umsóknin aðeins aðgengileg um 70% notenda en undir lok árs var sá hópur um 94%. Um áramótin var hlutfall stafrænna umsókna um 80%.

Ökunám frá a-ö er dæmi um lífsviðburð þar sem fjölmargir aðilar koma að. Ferlið var endurhugsað út frá þörfum notenda og það einfaldað á þann hátt að allar umsóknir og upplýsingar má nú nálgast á Ísland.is. Mikil hagræðing næst fram með því að sjálfvirknivæða ferlið.

Rafrænar þinglýsingar eru annað dæmi um lífsviðburð sem hefur mikil áhrif á líf fólks og fjöldi aðila kemur að. Stórir áfangar hafa náðst á síðustu árum sem hófust með rafrænum aflýsingum í lok árs 2020. Síðan þá hafa bæst við aflýsingar veðskjala fyrir ökutæki og fasteignir, skuldskeyting gefin út svo eitthvað sé nefnt.

Árið í tölum:

  • Fjöldi flettinga á Ísland.is fór yfir 10 milljónir en aukningin er 78% milli ára.
  • Sex stofnanir fluttu vef sinn og eru nú hluti af Ísland.is: Sjúkratryggingar, Ríkislögmaður, Landskjörstjórn, Útlendingastofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Fiskistofa, en fyrir voru sýslumenn.
  • Tveir verkefnavefir opnuðu á Ísland.is - Mannauðstorg ríkisins og vefur um opinbera nýsköpun.
  • Innleiðingaráætlun Stafræns pósthólfs er komin á fullt en undir lok árs 2022 tengdust þrjár stofnanir pósthólfinu.
  • 65.000 manns sóttu Ísland.is appið árið 2022.
  • Fjögur ný stafræn skírteini bættust í Ísland.is appið: ADR-réttindi, vinnuvélaréttindi, skotvopnaleyfi og byssueign. Fyrir var stafræna ökuskírteinið.
  • Yfir 1.000 umsóknarferli eru komin á Ísland.is.
  •  Allar grunnskrár ríkisins er að finna í Straumnum (X-Road).
  •  Rúmlega 74.000 skjölum var þinglýst rafrænt árið 2022 og yfir 9.000 veðskjölum.

Upplýsingatæknimál

Innleiðing á stefnu um notkun skýjalausna var haldið áfram. Þörf ríkisaðila fyrir notkun á skýjalausnum fer vaxandi. Þannig hófst vinna, undir leiðsögn erlendra ráðgjafa, við að staðla bæði innkaup og stillingar við notkun skýjalausna. Markmiðið er að fá aukna samræmingu og yfirsýn þvert á ríkisaðila við notkun skýjalausna.

Öryggisflokkun gagna ríkisins var gefin út. Öryggisflokkunin er mikilvægur undanfari aukinnar hagnýtingar upplýsingatækni og gagna ríkisaðila. Öryggisflokkun gagna hefur enn fremur áhrif á hvar og hvernig gögn eru geymd, hvort og hvernig þau eru unnin, samnýtt og gerð aðgengileg. Ein birtingarmynd í þessu samhengi er notkun skýjaþjónusta fyrir vistun og vinnslu gagna ríkisins. Öryggisflokkun gagna er því mikilvægt og gagnlegt tól sem hefur áhrif á rekstrarumhverfi og öryggisráðstafanir ríkisaðila.

Lok Covid-úrræða

Í ársbyrjun 2022 voru sóttvarnatakmarkanir framlengdar og þeim ítrekað breytt vegna ómíkron-afbrigðis kórónaveirunnar. Samhliða því dvínuðu vonir tímabundið um snöggan viðsnúning ferðaþjónustunnar. Í janúar var því ákveðið að áfram yrði stutt við rekstraraðila með styrkjum og frestun staðgreiðslu. Sérstök áhersla var lögð á að styðja við aðila í veitingarekstri sem höfðu orðið fyrir miklum áhrifum af sóttvarnaráðstöfunum og minnkandi umsvifum umfram aðra geira hagkerfisins. Frumvarp um sérstaka veitingastyrki var því lagt fram á Alþingi og samþykkt í febrúar. Þá voru viðspyrnu- og lokunarstyrkir framlengdir. Alls voru greiddar 938 m.kr. í veitingastyrki til 614 rekstraraðila sem töldust nær allir til greina ferðaþjónustunnar. Viðspyrnustyrkir námu í heild nærri 11,5 ma.kr. til hátt í 1.900 rekstraraðila. Tveir þriðju hlutar þeirra teljast til ferðaþjónustufyrirtækja.

Auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um auknir heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis var lagt fram á Alþingi árið 2022 en samþykkt sem lög í mars 2023. Markmið með auknum fjárfestingarheimildum sjóðanna erlendis var m.a. að stuðla að sem mestum árangri af sjóðsöfnun til að létta lífeyrisbyrði starfandi fólks, draga úr álagi á innlenda fjármálamarkaði og ruðningsáhrifum í þjóðarbúinu og stuðla að betri áhættudreifingu eigna. Með auknum fjárfestingum erlendis flyst lífeyrisbyrði framtíðarinnar frá starfandi fólki hér á landi til starfandi fólks í þeim ríkjum þar sem fjárfest er. Með ruðningsáhrifum er átt við að þvinguð þörf lífeyrissjóða fyrir fjárfestingar í innlendum eignum geti hækkað virði eignanna og lækkað ávöxtun þeirra og þannig spillt fyrir öðrum fjárfestum og reyndar lífeyrissjóðunum sjálfum. Í lok árs 2022 námu heildareignir lífeyrissjóða 6.600 ma.kr. og hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða af heildareignum þeirra var rúmlega 35% á sama tíma. Hlutfallið var þó breytilegt milli sjóða, hæst um 45% og lægst 11%.

Reglur um verklag í tengslum við lög um vernd uppljóstrara

Á árinu 2022 vann kjara- og mannauðssýsla að gerð reglna um verklag í tengslum við lög um vernd uppljóstrara sem tóku gildi árið 2021. Lögin hafa að markmiði að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni. Í lögunum felst að fjármála- og efnahagsráðherra setji reglur um verklag þegar starfsmenn ríkisins eða lögaðila, sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra. Drög að reglunum voru kynnt í samráðsgátt og birtar í Stjórnartíðindum í október 2022.

Kynja- og jafnréttismál 

Ráðuneytið er ábyrgðaraðili kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar en vinnur, líkt og önnur ráðuneyti, einnig að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í þeim málaflokkum sem það ber ábyrgð á.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið ritstýrir ásamt forsætisráðuneytinu stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða, auk þess að greina stöðu kynjanna í málaflokkum sem það ber ábyrgð á. Uppfærð stöðuskýrsla var birt í ágúst 2022. Á vegum ráðuneytisins voru m.a. greind áhrif af betri vinnutíma í vaktavinnu á kynin og dregin fram kynja- og jafnréttissjónarmið við opinberar framkvæmdir. Við birtingu skýrslunnar samþykkti ríkisstjórnin að í fjármálaáætlun 2024–2028 skyldu öll ráðuneyti skilgreina sérstök jafnréttismarkmið sem fylgt yrði eftir með aðgerðum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024. Vinnan við skýrsluna nýttist vel við jafnréttismat ráðstafana í fjármálaáætlun 2023–2027 og í fjárlagafrumvarpi 2023 og var gerð grein fyrir niðurstöðum matsins í báðum fjárlagaritunum.

Sérfræðingar ráðuneytisins komu að fræðslu um jafnréttismat, bæði innan Stjórnarráðsins og utan. Þá var útbúinn gagnvirkur greiningarrammi fyrir jafnréttismat sem nýtist þeim sem leggja þurfa mat á áhrif ýmissa ráðstafana á jafnrétti, bæði í tengslum við fjárlaga- og áætlanagerð sem og við gerð lagafrumvarpa og aðra stefnumótun. Byggt var á fyrirliggjandi fræðsluefni um kynjaða fjárlagagerð og jafnréttismat og lagt upp með að greiningarramminn sé einfaldur í notkun og vísi notandanum á hagnýtt efni, gögn og annað sem þarf þegar gera á jafnréttismat.

Til að stuðla að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun í fjármálaáætlun hefur ráðuneytið lagt áherslu á að mælikvarðar sem mæla framgang settra markmiða séu kynnæmir, þ.e. að þeir séu sundurgreindir eftir kyni eða mæli ráðstafanir sem eru sérstaklega ætlaðar tilteknu kyni eða eru í eðli sínu kynjaðar. Í fjármálaáætlun 2021–2024 var sett fram markmið um skýrari tengingar milli stefnu, fjármuna og árangurs sem m.a. skyldi mæla með hlutfalli mælikvarða í fjármálaáætlun sem eru kynnæmir og náðust sett viðmið (sjá málaflokk 5.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála).

Ársskýrsla ráðherra 2022

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta