Hoppa yfir valmynd

Umsóknir um styrki til þróunarsamvinnuverkefna íslenskra félagasamtaka

Auglýst er eftir áhugayfirlýsingum af hálfu félagasamtaka um rammasamning við utanríkisráðuneytið vegna þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar 

Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir áhugayfirlýsingum frá reyndum félagasamtökum sem hafa áhuga á rammasamningi við ráðuneytið vegna alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og/eða mannúðaraðstoðar. Ráðuneytið tók upp rammasamninga við félagasamtök til þriggja ára í janúar 2022, og var sú ákvörðun byggð á niðurstöðum óháðrar úttektar sem gerð var á samstarfi utanríkisráðuneytisins við félagasamtök. Auglýsing þessi er í samræmi við reglur um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka og fyrirtækja í þróunarsamvinnu nr. 1035/2020 þar sem kveðið er á um að utanríkisráðuneytið geti gert rammasamninga við félagasamtök um þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoð að undangenginni auglýsingu, sbr. 2. og 4. gr. 

Rammasamningar á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar eru byggðir á sameiginlegum markmiðum, gagnkvæmu trausti og virkum samskiptum milli samningsaðila. Í vali á félagasamtökum til rammasamninga er m.a. horft til virðisauka þeirra innan þróunarsamvinnuverkefna og mannúðaraðstoðar, stofnanagetu og stefnu í alþjóðasamstarfi. Sá fjárhagsrammi sem rammasamningar munu taka mið af byggist á fyrri úthlutunum, starfi samtakanna og almennu framlagi íslenskra stjórnvalda til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Gildandi samningar utanríkisráðuneytisins við félagasamtök sem ekki þegar hafa rammasamning, um þróunar- og/eða mannúðarverkefni, munu vera felldir undir nýja rammasamninga komi slíkt til. 

Vakin er athygli á því að félagasamtök sem gera rammasamning við ráðuneytið eru ekki styrkhæf til stakra styrkja til sams konar verkefna og rammasamningur nær til, sbr. 2. gr. reglna nr. 1035/2020. Er áætlað að rammasamningar geti tekið gildi undir lok árs 2024.

Formkröfur

Áhugasöm félagasamtök vegna rammasamninga skulu uppfylla eftirfarandi kröfur: 

  1. Standast formkröfur vegna umsókna í félagasamtakasjóð utanríkisráðuneytisins, sbr. reglur nr. 1035/2020 og verklagsreglur þar um. 
  2. Hafa árlega hlotið styrki úr sjóðnum á síðastliðnum 5 árum, að lágmarki 10 milljónir króna á ári eða verið með rammasamning vegna þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoðar og geta sýnt fram á árangur af styrktum verkefnum.
  3. Standast kröfur Ríkisendurskoðunar um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. 

Þau félagasamtök sem standast formkröfur í auglýsingu munu undirgangast áreiðanleikakönnun sem framkvæmd verður af óháðu endurskoðunarfyrirtæki, að undanskyldum félagasamtökum sem að stóðust slíka könnun árið 2021 eða síðar. Könnunin metur hæfni og getu viðkomandi samtaka til að standast kröfur um umsýslu þróunarsamvinnuframlaga Íslands. 

Öllum áhugayfirlýsingum skulu fylgja gögn sem staðfesta að umsækjandi uppfylli ofangreindar formkröfur.

Lýsing á markmiðum og verkefnum

Áhugayfirlýsing skal einnig taka fram: 

  • Stefnu og framtíðarsýn samtakanna hvað varðar alþjóðlega þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.
  • Tengingu megináherslna og markmiða samtakanna við stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu 2024-2028 og þá sérstaklega hvernig verkefni samþætti jafnrétti, mannréttindi, umhverfis- og loftlagsmál.
  • Hvaða ávinningi félagasamtök sjá fyrir sér að rammasamningur geti skilað í starfi, einkum hvað varðar skilvirkni og fyrirsjáanleika.
  • Lýsingu á helstu verkefnum sem fyrirséð er að myndu falla undir rammasamninga og í hvaða löndum þau kæmu til framkvæmda.
  • Hvernig verkefni verði framkvæmd undir merkjum viðkomandi samnings, þ.e. hverjir eru helstu samstarfsaðilar á vettvangi og aðrar upplýsingar um framkvæmd. 

Áhugayfirlýsingum skal skilað með rafrænum hætti á [email protected] fyrir 15. júlí 2024.

 
Síðast uppfært: 25.6.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum