Spurt og svarað
Athugið að svartími getur numið allt að einni viku. Svar við fyrirspurn þinni gæti verið að finna í algengum spurningum og svörum hér að neðan.
Ef um neyðartilvik erlendis er að ræða, vinsamlegast hafðu samband við neyðarsíma utanríkisþjónustunnar: +354 - 545-0-112
Upplýsingar um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.
Í þeim tilvikum þar sem ekki er í gildi gagnkvæmur samningur á milli Íslands og ríkisins sem ferðast er til, þurfa ferðamenn að hafa samband við sendiráð viðkomandi ríkis eða afla upplýsinga á vef þess, til að kanna með hvaða hætti hægt er að sækja um áritun.
Algengt er að ferðamenn þurfi að senda vegabréf sín til viðkomandi sendiráðs, ásamt umsókn, passamynd og greiðslu, því er mikilvægt að ganga frá umsókn um áritun tímanlega. Í sumum tilvikum er hægt að fá áritun á flugvelli við komu. Athugið að kröfur um fylgigögn geta verið mismunandi á milli ríkja. Varðandi áritun vegna millilendinga, þá er mismunandi eftir ríkjum hvort svokallað „transit visa“ þurfi fyrirfram. Nánari upplýsingar veitir sendiráð viðkomandi ríkis.
Að öllum líkindum þarf að sækja um vegabréfsáritun á þar til gerðu eyðublaði, sem hægt er að hala niður af vefsíðum sendiráða í flestum tilvikum og senda ásamt gjaldi fyrir vegabréfsáritun og vegabréfi. Yfirleitt eru tilgreind þau gögn sem sendiráð viðkomandi ríkis biður um, en best er að hafa samband við sendiráðið ef einhver vafi leikur á.
Við hvetjum þá sem eru á leið í ferðalag til að sækja tímanlega um nýtt vegabréf, ef minna en sex mánuðir eru eftir af gildistíma gamla vegabréfsins þar sem sum ríki gera kröfu um og setji sem skilyrði fyrir landgöngu að vegabréf gildi að minnsta kosti sex mánuði fram yfir áætlaðan dvalartíma í viðkomandi ríki. Mörg evrópuríki gera þó einungis kröfu um þriggja mánaða gildistíma fram yfir áætlaðan dvalartíma. Aðrar hagnýtar upplýsingar fyrir ferðalagið er að finna á vef borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Útlendingastofnun fer með málefni erlendra ríkisborgara, þ.m.t. um heimild útlendinga til þess að dvelja og starfa á Íslandi. Starfsfólk Útlendingastofnunar veitir upplýsingar í síma 510-5400 og á vefsíðu stofnunarinnar, www.utl.is
Almennt gildir sú regla að vegabréf þurfi að vera gilt í sex mánuði við brottför frá áfangastað. Hins vegar gera sum ríki undantekningu og leyfa ferðamönnum að koma inn í landið á vegabréfum sem gilda í þrjá mánuði. Innan EES-svæðisins þurfa vegabréf aðeins að vera í gildi umfram dvöl í viðkomandi landi.
Aðildarríki EES-svæðisins eru:
Ísland, Noregur og Liectenstein ásamt aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB):
Austurríki,
Belgía,
Danmörk,
Eistland,
Finnland,
Frakkland,
Grikkland,
Holland,
Írland,
Ítalía,
Króatía,
Kýpur,
Lettland,
Litháen,
Lúxemborg,
Malta,
Portúgal,
Pólland,
Rúmenía,
Slóvakía,
Slóvenía,
Spánn,
Svíþjóð,
Tékkland,
Ungverjaland,
Þýsklaland.
Upplýsingar vegna umsókna um vegabréf fyrir íslenskt barn erlendis má finn á vef Þjóðskrár og á vef borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Unnt er að sækja um vegabréf í sendiráðum Íslands í eftirtöldum borgum : Berlín, Brussel, Genf, Helsinki, Kampala, Kaupmannahöfn, Lilongwe, London, Nýja Delí, Ottawa, Osló, París, Peking, Stokkhólmur, Tókýó, Washington DC, Nuuk, Winnipeg, Þórshöfn.
Vinsamlegast hafið samband við viðkomandi sendiráð til að panta tíma. Símanúmer og netföng sendiráðanna er að finna á vefjum þeirra: www.utn.is/sendiskrifstofur
Ræðismenn Íslands geta eingöngu gefið út neyðarvegabréf fyrir barnið, en það dugar til að koma heim til Íslands. Sækja verður um vegabréf hjá sýslumanni sem fyrst eftir komuna til landsins.
Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn yngra en 18 ára skulu báðir forsjármenn mæta, ásamt barni, til þess að sækja um vegabréf barnsins. Ef annar forsjármaður barns getur ekki mætt skal hann rita samþykki sitt á þar til gert eyðublað sem vottað er af tveimur einstaklingum eldri en 18 ára.
Fari aðili einn með forsjá barns er undirskrift hans nægjanleg vegna umsóknar um vegabréf og staðfestir Þjóðskrá Íslands að viðkomandi fari einn með forsjá.
Eyðublaðið má nálgast á vef Þjóðskrár.
Einnig þarf að hafa mynd af barninu meðferðis.
Nauðsynlegt er að skrá barnið í Þjóðskrá Íslands, hafi það ekki þegar verið gert. Allar nánari upplýsingar um hvernig skuli staðið að því er að finna á vef Þjóðskrár.
Sendiskrifstofum, fastanefndum og ræðismönnum er heimilt að gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) ef brýna nauðsyn ber til. Neyðarvegabréf eru handskrifuð og ekki tölvulesanleg og hafa þar af leiðandi mun lægri öryggisstaðal en almenn vegabréf. Neyðarvegabréf eru fyrst og fremst ætluð til heimferðar eða ferðar á næsta umsóknarstað almennra vegabréfa.
Öruggast er að panta tíma fyrir neyðarvegabréfaumsókn hjá sendiskrifstofu eða ræðismanni. Upplýsingar um íslenskar sendiskrifstofur og ræðismenn erlendis er að finna á vef stjórnarráðsins.
Gildistími neyðarvegabréfs er aldrei lengri en í 12 mánuði. Handhafa neyðarvegabréfs ber að skila því til lögreglu eftir notkun.
Óvíst er að neyðarvegabréf dugi alls staðar til að fá landgöngu. T.d. heimila Bandaríkin ekki landgöngu á neyðarvegabréfi án áritunar, - einungis heimferð.
Umsækjandi skal:
- Mæta í eigin persónu á umsóknarstað
- Sanna deili á sér með eldra vegabréfi eða öðrum persónuskilríkjum
- Koma með tvær passamyndir af sér
- Fylla út umsóknareyðublað um neyðarvegabréf hjá sendiskrifstofu.
- Greiða fyrir vegabréf skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.
Mynd í neyðarvegabréfi skal uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlitið snúi beint að myndavél og bæði augu sjáist.
- Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga.
- Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun.
- Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúarástæðum.
- Ef umsækjandi kemur með ljósmynd á rafrænum miðli má ljósmyndin ekki vera eldri en sex mánaða gömul.
Allar upplýsingar um ferðalög með börn er að finna á Ísland.is.
Ástralía og Nýja-Sjáland
Utanríkisráðuneytið hóf vinnu við gerð samkomulags um "Working Holiday Visa" við Nýja-Sjáland og Ástralíu fyrir nokkru síðan og voru drög að samkomulagi afhent stjórnvöldum í Ástralíu og Nýja Sjálandi með þeim skilaboðum að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að undirrita slíkt samkomulag eins og fljótt og kostur væri. Þess má geta að áður hafði verið reynt að semja um þessa tegund af visa við Ástrali, árið 2010, en ekki var tekið jákvætt í beiðnina þá. Þrýst hefur verið á um jákvæð svör en án árangurs.
Utanríkisráðuneytið mun halda áfram að beita sér eins og hingað til að ná fram jákvæðri niðurstöðu í málinu.
Ef þú hefur spurningar varðandi framgang málsins, ekki hika við að hafa samband við okkur.
Japan
Samkomulag um vinnudvöl ungs fólks í Japan og á Íslandi tók gildi 1. september 2018.
Samkomulagið gerir ungu fólki frá Japan og Íslandi kleift að sækja um skammtíma dvalarleyfi sem gerir þeim kleift að taka að sér tilfallandi vinnu meðan á tímabundinni dvöl í hinu landinu stendur. Þannig fær ungt fólk mikilvæga innsýn í menningarhætti og atvinnulíf í fjarlægu landi.
Allar upplýsingar um skilyrði og umsóknarferli er nú að finna á vef Sendiráðs Japans (fyrir íslenska ríkisborgara) og á vef Útlendingastofnunar (fyrir japanska ríkisborgara). Umsækjendur þurfa m.a. að vera íslenskir eða japanskir ríkisborgarar og á aldrinum 18-26 ára.
Við undirritun samkomulagsins var stofnaður ferðasjóður á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Íslenska viðskiptaráðsins í Japan og Japansk-íslenska viðskiptaráðsins, með framlögum frá átta fyrirtækjum. Úr ferðasjóðinum verða veittir styrkir fyrir flugfargjöldum einstaklinga sem nýta sér samkomulagið.
Utanríkisráðuneytið gefur sjaldan út ferðaviðvaranir en bendir þess í stað á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands. Þau ríki eru í flestum tilfellum með starfsemi á viðkomandi stöðum og geta því gefið mun ítarlegri og betri viðvaranir.
Hlekki á ferðaviðvarðanir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og annarra ríkja má finna á vef ráðuneytisins.
Ferðaviðvaranir breska utanríkisráðuneytisins er einnig að finna á Twitter.
Utanríkisráðuneytið veitir Apostille stimplun og kostar stimplun 2.500 krónur pr. skjal. Hægt er að koma með skjölin í utanríkisráðuneytið eða póstsenda þau. Almennt tekur stimplun sólarhring. Utanríkisráðuneytið er staðsett á Rauðarárstíg 25, 105 Reykjavík (rétt hjá Hlemmi) og er opið alla virka daga frá kl. 8:30 til 16:00.
Allar nánari upplýsingar má finna á vef ráðuneytisins.
Mikilvægt er að íslenskir ferðamenn hafi ávallt vegabréf sitt meðferðis á ferðalögum innan Schengen-svæðinu þar sem engin önnur raunveruleg persónuskilríki eru gefin út hér á landi. Þótt hægt sé að ferðast um á Schengen svæðinu án þess að framvísa vegabréfum á landamærum er þess krafist að þeir sem ferðast á svæðinu hafi meðferðis gild persónuskilríki til að þeir geti sannað á sér deili hvenær sem krafist er. Einnig ber að hafa í huga að flugfélög geta krafist þess að ferðamenn framvísi vegabréfum áður en gengið er um borð í flugvél. Nánari upplýsingar um Shengen-samstarfið er að finna á vef stjórnarráðsins.
Almennt gildir sú regla að vegabréf þurfi að vera gilt í sex mánuði við komu á áfangastað. Hins vegar gera sum ríki undantekningu og leyfa ferðamönnum að koma inn í landið á vegabréfum sem gilda í þrjá mánuði.
Upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til ferðaskilríkja erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands er að finna á vef útlendingastofnunar, www.utl.is.
Á vef Tryggingastofnunar má finna ýmsar upplýsingar er varða flutning milli landa m.t.t. réttindamála.
Fjölbreyttar upplýsingar um réttindi fólks á EES-svæðinu og flutninga á milli landa má finna á vefnum Your Europe en þar sjá ríkin sjálf um að uppfæra upplýsingarnar sem þar birtast, enda alltaf best að leita beint til viðkomandi stjórnvalds þar sem best þekking er þar á þeim lögum og reglum sem í gildi eru.
Varðandi leyfi í því ríki sem gifting fer fram í þarf að hafa samband við þarlend yfirvöld eða sendiráð þeirra gagnvart Íslandi.
Upplýsingar um sendiráð ríkja gagnvart Íslandi má finna á vef stjórnarráðsins.
Hvað varðar lagakröfur hér á Íslandi til að hjónaband teljist löglegt þarf að hafa samband við Þjóðskrá.
Sýslumaðurinn í Keflavík annast milligöngu stefnubirtinga erlendis þegar viðkomandi einstaklingur er búsettur í ríki sem er aðili að Haagsamningnum um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum.
Nánari upplýsingar á vef sýslumanna.
Utanríkisráðuneytið hefur milligöngu um birtingu á stefnum erlendis í ríkjum sem eru ekki aðilar að Haagsamningnum.
Listar yfir þvingunaraðgerðir eru birtir á vefsíðu utanríkisráðuneytisins og vef Stjórnartíðinda.
Íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum er skylt að virða þær þvingunarráðstafanir sem eru í gildi hverju sinni. Utanríkisráðuneytið getur ekki veitt undantekningar frá gildandi þvingunarráðstöfunum, nema slíkt sé sérstaklega heimilað í lögum eða reglugerðum.
Utanríkisráðuneytið veitir fyrst og fremst almennar leiðbeiningar um gildandi reglur varðandi þvingunarráðstafanir, sbr. ofangreint. Þegar um er að ræða sértækari fyrirspurnir um tiltekin viðskipti, bendir ráðuneytið fyrirspyrjendum á að leitar sér ráðgjafar hjá aðilum sem sérhæfa sig í fyrirtækja- og lögfræðiráðgjöf vegna viðskipta erlendis.
Íslensk ökuskírteini eru gild innan EES-svæðisins. Einnig er hægt að sækja um alþjóðlegt ökuskírteini, sem er staðfesting og í leiðinni þýðing á því íslenska. Alþjóðlega ökuskírteinið dugar ekki eitt og sér heldur þarf ávallt að framvísa íslenska ökuskírteininu og alþjóðlega ökuskírteininu saman. Alþjóðlega ökuskírteinið veitir eitt og sér ekki rétt til að stjórna ökutæki. Sjá nánar á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).
Íslenskir ferðalangar hafa stundum lent í því erlendis að fólk hafi ekki heyrt talað um EEA (European Economic Area) sem er erlent heiti EES. Það getur því verið gott að hafa útprent á ensku um hvaða lönd tilheyra því, helst frá opinberum aðila eins og ESB:
Hægt er að skrá sig á viðbragðslista friðargæslunnar og haka við "gef eingöngu kost á mér í kosningaeftirlit." Skráningin er á vef viðbragðslista friðargæslunnar.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.