Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Ársskýrsla utanríkisráðherra byggist á fyrirmælum í lögum um opinber fjármál. Gerð er grein fyrir fjárheimildum, raunútgjöldum, aðgerðum og þeim árangri sem náðst hefur í átt að settum markmiðum undir þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir ráðherrann heyra.
Utanríkisþjónustan fer með utanríkismál og gætir í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Borgaraþjónustan veitir íslenskum ríkisborgurum erlendis aðstoð þegar á þarf að halda, víðtækir viðskiptasamningar opna íslenskum fyrirtækjum markaði, varnarsamstarf tryggir öryggi borgaranna og með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi og með alþjóðlegri þróunarsamvinnu vinnur utanríkisþjónustan að því að efla virðingu fyrir mannréttindum allra, velsæld og friði.

Utanríkisþjónustan greinist annars vegar í utanríkisráðuneytið og hins vegar í sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur. Alls störfuðu um 300 starfsmenn í utanríkisþjónustunni í árslok 2023 að meðtöldum tímabundið ráðnum starfsmönnum og staðarráðnum starfsmönnum á sendiskrifstofum Íslands erlendis. Ríflega helmingur hér á landi á aðalskrifstofu og þýðingamiðstöð. Í upphafi árs 2024 starfrækti Ísland 25 sendiskrifstofur í 21 landi sem skiptast í sendiráð, fastanefndir og aðalræðisskrifstofur.

Kjörræðismenn Íslands, sem þiggja almennt ekki laun fyrir vinnuframlag sitt, eru mikilvægir útverðir utanríkisþjónustunnar og framlag þeirra er ómetanlegt, ekki síst á sviði borgaraþjónustu og viðskiptaþjónustu. Í árslok 2023 voru þeir 208 í um 100 ríkjum. Fyrirkomulag rekstrar utanríkisráðuneytisins þar sem sendiskrifstofur og aðalskrifstofa ráðuneytisins eru reknar sem ein heild, hefur reynst hagkvæmt og leitt til betri nýtingar fjármuna, meðal annars með sameiginlegri stoðþjónustu og skýrari yfirsýn yfir reksturinn.

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2023.

Málefnasvið

Málefnasviðin sem heyra undir utanríkisráðuneytið eru tvö, 04 Utanríkismál og 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna. Málefnasvið 04 skiptist í fjóra málaflokka, utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, utanríkisviðskipti, samstarf um öryggis- og varnarmál og samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs. Málefnasvið 35 hefur einn málaflokk sem nefnist Alþjóðleg þróunarsamvinna.

4.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála

Undir málaflokkinn fellur meirihluti rekstrarkostnaðar utanríkisþjónustunnar, ráðuneytis og sendiskrifstofa og þau verkefni sem lúta að því að standa vörð um hag íslenskra ríkisborgara erlendis. Málaflokknum tilheyrir einnig rekstur EES-samningsins, fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga, viðskiptaþjónusta, alþjóðleg og svæðisbundin samvinna um frið og öryggi, þjóðaréttur og sjálfbær þróun til viðbótar við mannréttindi, loftslags- auðlinda- og umhverfismál.

Utanríkisráðuneytið hefur sætt aðhaldskröfu og gætt ráðdeildar í rekstri. Þetta veldur áskorunum bæði hvað varðar þau verkefni sem þjónustunni eru falin samkvæmt lögum, og að tryggja grunnstoðir í rekstri aðalskrifstofu og sendiskrifstofa Íslands erlendis.

Ísland á alþjóðavettvangi

Þessi skýrsla kemur enn á ný út á meðan innrásarstríð Rússlands geisar í Úkraínu. Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur ófriðarbál kviknað með blóðugum átökum og ómældum hörmungum sem haft hafa víðtæk samfélagsleg áhrif og kynt undir sundrungu meðal þjóða. Fjallað er um þessi átök í sérstökum köflum hér að neðan.

Ísland hefur allt frá fyrstu árum lýðveldisins skipað sér í lið með vestrænum þjóðum sem staðið hafa vörð um framþróun lýðræðis og mannréttinda og virðingu fyrir alþjóðalögum. Utanríkisstefnan hverfist um þessi gildi sem meitluð eru í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og höfð eru að leiðarljósi hvarvetna þar sem Ísland lætur að sér kveða á vettvangi alþjóðastofnana.

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar að loknum leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík Starfsfólk utanríkisþjónustunnar að loknum leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu á miklum umbrotatímum í sögu álfunnar. Tilviljun réði því að formennsku Íslands bar upp á jafn örlagaríkum tímum og lögðu stjórnvöld sig fram um að axla þá ábyrgð og sinna verkefninu svo sómi væri af. Sögulegur leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí á síðasta ári var áþreifanlegt framlag Íslands til að treysta í sessi grunngildi ráðsins; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.  

Stuðningur aðildarríkjanna við baráttu Úkraínumanna fyrir landi sínu og frelsi var þungamiðjan í umræðum og niðurstöðum fundarins. Leiðtogarnir ályktuðu í þágu brottnuminna úkraínskra barna og með stofnsetningu alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu var stigið mikilvægt skref í átt að uppgjöri á þeim skaða sem Rússland veldur með stríðsrekstri sínum.

Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, ávarpar leiðtogafund Evrópuráðsins í maí 2023 Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, ávarpar leiðtogafund Evrópuráðsins í maí 2023. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Reykjavíkuryfirlýsingin (Reykjavik Declaration), efnisleg niðurstaða fundarins, var samþykkt eftir margra mánaða vinnu á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg undir forystu Íslands. Í henni birtist sameiginleg sýn aðildarríkjanna á það hvernig Evrópuráðið skuli takast á við helstu áskoranir í nútíð og framtíð.

Leiðtogafundurinn, sem var sá fyrsti í nær 20 ár og sá fjórði í 75 ára sögu ráðsins, var eitt umfangsmesta verkefni sem utanríkisþjónustan hefur tekist á hendur og var allt tiltækt starfsfólk innan ráðuneytisins virkjað. Það sama átti við um embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem léku lykilhlutverk og fengu til sín liðsauka, þar með talið frá Norðurlöndunum.

Leiðtogafundinn sóttu fulltrúar allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins, auk háttsettra fulltrúa alþjóðastofnana og fimm áheyrnarríkja Evrópuráðsins. 65 erlendar sendinefndir og hátt í eitt þúsund gestir komu til landsins til að taka þátt í fundinum og um 350 blaða- og fjölmiðlamenn skráðu sig til þátttöku. Íslenskir ráðherrar héldu 29 formlega fundi í tengslum við leiðtogafundinn en alls voru haldnir 130-140 tvíhliða fundir leiðtoga í Reykjavík.

Fundurinn var lokastefið í formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem stóð í hálft ár. Auk grunngildanna var á formennskutímabilinu lögð áhersla á málefni barna, kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks, og tengsl umhverfis og mannréttinda. Efnisrík niðurstaða leiðtogafundarins sýndi að framlag Íslands getur oft á tíðum verið veigameira en smæð landsins segir til um.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sóttu ráðherraviku allsherjarþingsins í september þar sem leiðtogafundur um heimsmarkmiðin var hápunktur fundarhaldanna og haldinn til að færa nýjan kraft í framfylgd þeirra. Í ræðu sinni í allsherjarþinginu lagði utanríkisráðherra megináherslu á mikilvægi samstarfs og ábyrgðar alþjóðasamfélagsins við að leysa vandamál samtímans, hvort sem þau vörðuðu framkvæmd heimsmarkmiðanna, baráttu gegn loftslags- og umhverfisvá, versnandi stöðu mannréttinda eða fæðuöryggi. Ráðherra fordæmdi árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu og aðför stjórnvalda í Belarús að lýðræðisöflum í landinu og áréttaði að lýðræði og borgaraleg réttindi yrði skilyrðislaust að verja.

Í mars 2023 samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna með afgerandi kosningu árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem hópur fjögurra ríkja undir forystu Íslands lagði fram. Ályktunin framlengdi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í Íran. Í fyrsta sinn frá því ályktunin var upphaflega lögð fram fyrir tíu árum var ákveðið að bæta efnislega við ályktunartextann, annars vegar tilvísun til sérstakrar rannsóknarnefndar sem var sett á laggirnar að frumkvæði Íslands og Þýskalands í nóvember 2022 og hins vegar sérstakri fordæmingu á aukningu dauðarefsinga í kjölfar mótmælanna í Íran haustið áður. Ísland sækist á nýjan leik eftir setu í mannréttindaráðinu fyrir tímabilið 2025-2027 með stuðningi Norðurlandanna.

Ísland situr í framkvæmdastjórn Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) fyrir tímabilið 2021-2025 og hefur þar lagt áherslu á framkvæmd heimsmarkmiðanna, jafnrétti, mannréttindi, mennta- og menningarmál og pólitísk málefni og tekið virkan þátt í mótun UNESCO á ábyrgðarsviði stofnunarinnar í Afganistan og Úkraínu. Ísland var í annað sinn kjörið í stjórnarnefnd UNESCO um mannréttindi og framkvæmd samninga og tilmæla fyrir tímabilið 2023-2025. Þá var Ísland í fyrsta sinn kjörið til setu í framkvæmdastjórn alþjóðahaffræðinefndarinnar (IOC) fyrir tímabilið 2023-2025.

Umhverfis- og loftslagsmál voru í brennidepli á árinu 2023 enda ein stærsta áskorun ríkja að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Afleiðinga hlýnunar gætir ekki síst í þróunarríkjunum og birtast í tíðari hamfaraveðrum, þurrkum og flóðum, uppskerubresti, versnandi lífskjörum fólks og neikvæðum áhrifum á líffræðilega fjölbreytni. Á ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Dúbaí (COP28) í desember var Ísland meðal fyrstu ríkja sem tilkynntu um fjárhagsstuðning við sjóð sem ætlað er að standa straum af tjóni þróunarríkja vegna loftslagshamfara.

Norrænt samstarf er lykilþáttur í framkvæmd og stefnumótun á öllum sviðum utanríkismála. Á síðasta ári gegndi Ísland formennsku í norrænu samstarfi sem annars vegur felur í sér umfangsmikla samræmingu á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og hins vegar leiðandi hlutverk í utanríkispólitísku samstarfi ríkjanna. Náið samstarf líkt þenkjandi ríkja styrkir rödd Íslands á alþjóðavettvangi og er mikill ávinningur af því, bæði formlegur og óformlegurMikilvægi alþjóðakerfisins, jafnrétti, mannréttindi og lýðræði voru áherslumál og áttu norrænu ráðherrarnir sjö fundi sín á milli, bæði staðfundi og fjarfundi. Sumarfundur norrænu utanríkisráðherranna fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í júní þar sem stuðningur við Úkraínu og alþjóðasamfélagið, samskiptin við Rússland og staða mannúðarmála í Afganistan voru efst á baugi.

Málefni norðurslóða eru ofarlega á baugi í alþjóðlegri umræðu og skipar Ísland sér sem norðurslóðaríki í forystusveit þeirra ríkja sem hvað mest hafa að segja um þróun svæðisins. Ísland tekur virkan þátt í alþjóðlegum ráðstefnum þar sem norðurslóðir eru til umræðu. Öryggi á svæðinu, sjálfbærni og samfélagsleg og efnahagsleg þróun eru stórt hagsmunamál fyrir Ísland sem endurspeglast í virkri umræðu  meðal bandalagsþjóða og víðar um varnir og stöðugleika á norðurslóðum.

Utanríkisviðskipti

Aukin spenna í alþjóðasamskiptum er hreyfiafl breytinga þegar kemur að utanríkisviðskiptum þar sem tengsl milli utanríkisviðskipta og varnar- og öryggismála verða skarpari. Ríki heimsins hafa brugðist ólíkt við þessum áskorunum og hafa sum aukið á verndarstefnu eða söfnun aðfanga á meðan önnur hafa reynt að koma sér saman um reglur til að vernda aðfangakeðjur. Þetta er þróun sem snertir Ísland með beinum hætti.
Ríki huga nú þegar að hagvörnum sínum og eru í auknum mæli meðvituð um hættuna af því að frjáls milliríkjaviðskipti umbreytist í pólitískt vogarafl. Þar eru samstarfsþjóðir okkar á Evrópska efnahagssvæðinu engin undantekning. Ísland leggur áherslu á góða framkvæmd EES-samningsins, mikilvægasta viðskiptasamnings Íslands, sem tók gildi fyrir þremur áratugum síðan og hefur óumdeilt fært almenningi og atvinnulífi margvíslegan ávinning. Aðgangur að innri markaði Evrópusambandsins gegnum EES-samninginn og net viðskiptasamninga, bæði hvað varðar aðföng og útflutning, hefur reynst traust fótfesta í þessu breytta landslagi. Þátttaka í innri markaðnum og styrk staða hans er þannig mikilvægur liður í hagvörnum okkar Íslendinga.
Í lok nóvember á síðasta ári lauk samningaviðræðum við ESB um markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB sem samþykkt var sem hluti af niðurstöðum viðræðna um nýtt tímabil Uppbyggingarsjóð EES. Nýtt samkomulag felur í sér tollkvótakerfi sem stóreykur möguleika íslenskra útflytjenda til að flytja sjávarafurðir tollfrjálst til ESB. Íslensk stjórnvöld beita sér áfram  fyrir því að koma á fullu tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir inn á markað ESB. Mikilvægt skref í þeirri vinnu var sameiginleg yfirlýsing um endurskoðun markaðsaðgangs fyrir vörur. Það er út af fyrir sig óásættanlegt að ESB haldi tollum á sjávarafurðir í viðskiptum við Ísland – náið samstarfsríki, þegar fyrir liggur að sambandið fellir slíka tolla niður í fríverslunarsamningum sem sambandið gerir gagnvart öðrum ríkjum.

Ísland hefur í áranna rás gert fjölda viðskiptasamninga til að tryggja aðgang okkar að erlendum mörkuðum og gera íslenskan útflutning samkeppnishæfari, meðal annars í gegnum aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Árið 2023 lauk fríverslunarviðræðum við Moldóvu með samningi. Þá var fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Indlands, sem undirritaður var í Nýju-Delí í mars síðastliðnum, sá fyrsti sem Indverjar gera við Evrópuríki. Samningurinn er þýðingarmikill fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf með stórbættum markaðskjörum fyrir allar helstu útflutningsvörur landsins. Viðræður standa yfir um gerð fríverslunarsamninga við fleiri ríki, s.s. Kósovó, Taíland, Malasíu, Víetnam og MERCOSUR-ríkin (Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ). Jafnframt er unnið að því að uppfæra fríverslunarsamning við Úkraínu.

Frá ráðherrafundi EFTA Í Liechtenstein í júní Frá ráðherrafundi EFTA Í Liechtenstein í júní. Ljósmynd/EFTA

4.20 Utanríkisviðskipti

Undir málaflokkinn falla einungis framlög til Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar en um hana gilda lög nr. 38/2010, með síðari breytingum. Utanríkisráðuneytið starfar náið með Íslandsstofu að því að efla íslenskan útflutning og laða ferðamenn og erlenda fjárfestingu til landsins.
Góð reynsla er komin á markaðsverkefnið Skapandi Ísland sem hófst síðla árs 2021. Markmið verkefnisins er að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning.
Áhersla er á aukna aðkomu atvinnulífs að fjárfestingum og atvinnuskapandi verkefnum í þróunarlöndum. Íslandsstofa hefur það hlutverk að kynna fyrirtækjum tækifæri í þróunarlöndum og víðar í gegn um vefinn Heimstorg.is. Í samstarfi við utanríkisráðuneytið sinnir Íslandsstofa ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja sem hyggjast nýta sér þessi tækifæri. Þá hefur Íslandsstofa milligöngu um að kynna lausnir, vörur og þjónustu íslenskra fyrirtækja fyrir innkaupastofnun Sameinuðu þjóðanna og miðla upplýsingum til þeirra um útboð Alþjóðabankans og annarra alþjóðastofnana.

4.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál

Í 75 ár hefur Ísland tryggt öryggi sitt með þátttöku í sterkasta varnarbandalagi sögunnar og með tvíhliða varnarsamningi við öflugasta herveldi heims. Nú þegar alþjóðakerfið á undir högg að sækja og Evrópa stendur frammi fyrir stærstu öryggisógn frá lokum síðari heimsstyrjaldar er nauðsynlegt að Ísland vinni að sameiginlegum öryggishagsmunum sem verðugur bandamaður og standi vörð um alþjóðalög og rétt.

Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er mikilvægasta framlag lýðræðisríkja til að tryggja eigið öryggi og varnir. Samtímis glíma þau við fjölþáttaógnir, hættu á hryðjuverkum, og áskoranir sem fylgja hraðri tækniþróun og örum breytingum í alþjóðasamfélaginu. Vegna þessa gerbreytta öryggislandslags hafa ríki Evrópu snúið við blaðinu og hækkað framlög sín til varnarmála svo um munar. Er svo komið að meirihluti bandalagsríkja mun standa við skuldbindingar sínar innan Atlantshafsbandalagsins um að verja að minnsta kosti tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Þótt staða Íslands sé um margt ólík stöðu annarra bandalagsríkja í ljósi herleysis vinna íslensk stjórnvöld að því að auka framlög til varnarmála enn frekar til þess að geta talist trúverðugur aðili að þessu öfluga varnarsamstarfi þar sem Ísland hefur undirgengist skyldu til að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hafa stefnur og áætlanir verið uppfærðar með áherslu á nærvarnir og fælingu. Á leiðtogafundi bandalagsins í Vilníus í júlí 2023 samþykktu leiðtogarnir nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir sem fela í sér mestu breytingar í sögu bandalagsins frá lokum kalda stríðsins. Norðurlöndin eru nú sameinuð í bandalaginu og varnarsamstarf þeirra hefur aldrei verið jafn náið. Aðild Finnlands og Svíþjóðar styrkir öryggi Norðurlandanna og eflir til muna fælingar- og varnarmátt bandalagsins alls.

Hér á landi hefur verið brugðist við með því að uppfæra viðbragðsáætlanir í takt við áætlanir bandalagsins og setja aukinn kraft í alþjóðlegt samstarf á sviði varnarmála. Samhliða auknu samstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur svæðisbundinni varnarsamvinnu vaxið fiskur um hrygg innan ramma norræns varnarsamstarfs (NORDEFCO), Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) og meðal norðurskautsríkjanna að frátöldu Rússlandi.

Kafbátur og herskip Í ljósi breytts öryggisástand í Evrópu var kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins heimilað á árinu 2023 að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út áhafnarmeðlimum. Ákvörðunin er liður í stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi. Ljósmynd/Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi.

Tvíhliða varnarsamstarf og verkefni Bandaríkjanna og Íslands, á grundvelli gagnkvæmra varnarskuldbindinga, hafa vaxið að umfangi vegna aðgerða og innviðauppbyggingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, ekki síst í tengslum við kafbátaeftirlit og fælingaraðgerðir á Norður-Atlantshafi.  Þá hefur beint samstarf við herstjórnir og hermálayfirvöld Bandaríkjanna verið eflt til að koma hagsmunum Íslands á framfæri og efla upplýsingaskipti. Þannig höfum við markvisst lagt meira af mörkum til sameiginlegra öryggishagsmuna og eflt öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins.

Innanlands hefur verið unnið að því að efla samráð og upplýsingaskipti meðal ráðuneyta og stofnana á sviði öryggis- og varnarmála með það fyrir augum að styrkja álags- og áfallaþol innviða, stjórnkerfis og samfélagsins alls vegna þeirra ólíku öryggisógna sem við stöndum frammi fyrir. Mikil þekkingaruppbygging hefur einnig átt sér stað innan utanríkisráðuneytisins og víðar að undanförnu og starfsfólki fjölgað til að mæta vaxandi umfangi öryggis- og varnarmála. Sett hafa verið á fót reglubundin námskeið um öryggis- og varnarmál í samstarfi utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Þátttaka í lykilherstjórnum Atlantshafsbandalagsins hefur verið efld sem hluti af framlagi Íslands en einnig til að tryggja hagsmuni og tengingar við Ísland, þar með talið í flotaherstjórn bandalagsins, nýrri herstjórnarmiðstöð fyrir Norður-Atlantshafið í Norfolk í Bandaríkjunum og yfirherstjórn bandalagsins í Mons í Belgíu. Sérstaklega hefur verið leitast við að senda til starfa fólk sem skilar reynslu og þekkingu til baka til þeirra íslensku stofnana sem koma með einum eða öðrum hætti að öryggismálum.

4.50 Bundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs

Undir málaflokkinn falla skylduframlög og aðildargjöld Íslands til alþjóðastofnana sem hafa þann tilgang að styðja alþjóðakerfið og þátttöku Íslands á vettvangi viðkomandi stofnana. Þátttaka Íslands í fjölþjóðasamstarfi fellur þvert á verkefni og fer stefnumótun fram undir öðrum málaflokkum sem falla undir málefnasvið 04 Utanríkismál.

35.10 Þróunarsamvinna

Alþjóðleg þróunarsamvinna er á ábyrgð utanríkisráðherra og fellur undir málefnasvið 35. Meginstoðir alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru stuðningur við tvíhliða samstarfsríki og samstarf við alþjóðastofnanir ásamt öflugri samvinnu við félagasamtök og atvinnulíf með ríka áherslu á árangur, skilvirkni og vönduð og fagleg vinnubrögð. Markmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.

Mynd frá MalavíÍsland og Malaví hafa starfað saman á sviði þróunarsamvinnu frá árinu 1989.

Niðurstöður jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) á þróunarsamvinnu Íslands sem kynntar voru um mitt síðasta ár staðfestu að framlag íslenskra stjórnvalda hafi skilað umtalsverðum árangri. Skýrist það ekki síst af skilvirkri nálgun íslenskra stjórnvalda sem áfram verður unnið eftir samkvæmt ályktun Alþingis frá því í desember síðastliðnum um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028.

Stefnan tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sameiginlegum vegvísi þjóða heims í átt að farsæld og friði og er í ályktuninni er stefnt að því að undir lok gildistímans nemi framlög Íslands til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar 0,46% af vergum þjóðartekjum. Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af VÞT til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu..

Með öflugu samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir getur Ísland stutt með árangursríkum hætti við þau ríki sem helst þurfa á stuðningi að halda. Nýlega hafa rammasamningar við sjö stofnanir Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðar- og þróunarsamvinnu verið endurnýjaðir til þriggja ára, sem veitir þeim mikilvægan fyrirsjáanleika og stuðlar að markvissari ráðstöfun fjármagns til þeirra sem mest þurfa á að halda. Í gegnum samstarfið við Alþjóðabankann leggur Ísland sitt af mörkum til sjálfbærrar uppbyggingar innviða og efnahags þróunarríkja, sérstaklega þeirra allra fátækustu. Í öllu samstarfi leggja íslensk stjórnvöld áherslu á mannréttindi og kynjajafnrétti, mannauð og grunnstoðir samfélaga, loftslagsmál og náttúruauðlindir og mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar.

Í tvíhliða samstarfsríkjum Íslands hefur náðst markverður árangur til bættra lífskjara og aukinnar velferðar. Á þeim 35 árum sem liðin eru frá því að Ísland hóf þróunarsamvinnu í Malaví hefur Ísland stuðlað að bættum aðgangi að hreinu vatni fyrir 400 þúsund manns, námsumhverfi 100 þúsund barna verið bætt og 250 þúsund konum og börnum verið tryggður aðgangur að bættri heilbrigðisþjónustu.

Eitt allra fátækasta ríki heims, Síerra Leone, er nýtt samstarfsríki Íslands. Sendiráð Íslands tók til starfa á liðnu hausti og var formlega opnað 2. maí sl. Þar er Ísland eitt fárra samstarfsríkja með viðveru í landinu og tækifærin til góðra verka óteljandi. Stefnt er að því að útrýma fæðingarfistli, sjá 30 þúsund börnum fyrir heimaræktuðum skólamáltíðum og bæta aðgang að neysluvatni og hreinlæti.

Ísland hefur einnig átt í farsælu samstarfi við héraðsyfirvöld í Úganda. Þróun mannréttinda hinsegin fólks í landinu veldur hins vegar verulegum áhyggjum þá helst grimmileg löggjöf þar sem beinist gegn samkynhneigðum og er gróft brot á mannréttindum þeirra. Afstöðu íslenskra stjórnvalda hefur ítrekað verið komið á framfæri við stjórnvöld og hefur löggjöfin verið fordæmd af öllum líkt þenkjandi ríkjum og samsstarfsstofnunum Íslands. Ekkert þeirra hefur dregið sig út úr samstarfi við stjórnvöld vegna þessa heldur ætla þau að standa við skuldbindingar sínar og stuðning við þau allra fátækustu. Í kjölfar lagasetningarinnar hefur stuðningur Íslands við mannréttindasamtök í landinu verið aukinn, þá helst þeirra sem styðja við og vernda réttindi hinsegin fólks.

Íslensk stjórnvöld eru málsvari hafsins á alþjóðavettvangi og gæta hagsmuna Íslands í hvívetna hvað varðar málefni hafsins og sjálfbærar fiskveiðar á vettvangi alþjóðastofnana og í tvíhliða og svæðisbundnu samstarfi, í nánu samráði utanríkisráðuneytis, matvælaráðuneytis, og umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis.

Úkraína

Innrás Rússa í Úkraínu er skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Væri framganga Rússa látin óátalin fæli það í sér umbreytingu á leikreglum alþjóðasamfélagsins í þá veru að breyta megi landamærum og uppræta fullveldi í skjóli vopnavalds. Því er nauðsynlegt að Ísland taki þátt í samstilltu átaki vestrænna lýðræðisþjóða um að standa þétt við bakið á Úkraínu í varnarstríði sínu svo lengi sem þörf er á.

Í rúm tvö ár hafa Úkraínumenn varist grimmilegri allsherjarinnrás Rússlands, fært með því ómældar fórnir og sýnt meira hugrekki og kænsku en nokkur bjóst við. En þjóð getur ekki varið sig með hugrekkinu einu saman. Undanfarna mánuði hefur Úkraína kallað eftir því að Vesturlönd veiti þeim enn meiri og tímanlegri stuðning.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja heimsóttu úkraínsku hafnarborgina Odesa í apríl ásamt utanríkisráðherra Úkraínu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneyti Lettlands
Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja heimsóttu úkraínsku hafnarborgina Odesa í apríl ásamt utanríkisráðherra Úkraínu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneyti Lettlands.

Nýlega var skrifað undir tvíhliða samning Íslands og Úkraínu um öryggissamstarf og langtímastuðning sem rammar inn og formgerir þann stuðning sem Ísland hefur veitt Úkraínu og hyggst veita í samræmi við þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024-2028. Þar á meðal er virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styðji við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu.

Ísland bætti verulega í stuðning sinn við Úkraínu frá fyrra ári og lætur sem fyrr ekki sitt eftir liggja í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi og Belarús. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu felst í mannúðaraðstoð, efnahagslegum stuðningi til að styrkja innviði í Úkraínu og framlögum til varnarmála en heildarframlög Íslands námu tæplega 3,5 milljörðum króna á árinu 2023.

Í maí 2023 samþykkti Alþingi einróma að fela utanríkisráðherra að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir úkraínska herinn sem var stærsta einstaka verkefnið. Sjúkrahúsið var smíðað í Eistlandi og afhent Úkraínu í nóvember.

Færanlegt neyðarsjúkrahús sem Ísland færði Úkraínu að gjöf Færanlegt neyðarsjúkrahús sem Ísland færði Úkraínu að gjöf. Ljósmynd/Þórlindur Kjartansson.

Átök fyrir botni Miðjarðarhafs

Blóðug átök sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs hófust með skelfilegri hryðjuverkaárás Hamas 7. október 2023, sem Ísland fordæmdi harðlega. Þúsundir óbreyttra borgara og barna hafa látið lífið, algjört neyðarástand hefur skapast á Gaza þar sem neyðaraðstoð sætir miklum takmörkunum og fjöldi gísla er enn í haldi Hamasliða. 

Strax í nóvember ályktaði Alþingi um afstöðu Íslands og áréttaði ákall Íslands um að hryðjuverk skuli fordæma, alþjóðalög skuli standa og grunnreglum um vernd borgara og aðgengi fyrir mannúðaraðstoð eigi aldrei að fórna. Afstaða Alþingis hefur verið leiðarljós í öllum málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi, hvort sem er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra, ráðherrafundum eða í tvíhliða samskiptum við Ísrael og Palestínu. 

Ísland er meðal þeirra ríkja sem studdu rétt Ísraels til að verja sig gegn slíkri ógn en gerði jafnframt frá upphafi skýra kröfu um að stjórnvöld færu í einu og öllu að alþjóðalögum í varnarbaráttu sinni. Ísland hefur ítrekað kallað eftir tafarlausu vopnahléi, fullnægjandi mannúðaraðstoð og lausn gísla. Ísland hefur ítrekað kallað eftir innleiðingu ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ákvarðana Alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðarástafanir. Ísland leggur einnig áherslu á að strax verði hugað að varanlegri tveggja ríkja lausn á langvarandi deilu Ísraels og Palestínu. 

Átökin hafa haft áþreifanleg áhrif á öryggi á svæðinu öllu og áfram er hætta á útbreiðslu þeirra, meðal annars fyrir tilstuðlan ríkja sem styðja hryðjuverkasamtök á svæðinu. Öryggi á Vesturbakkanum hefur farið þverrandi og samstaða náðist innan ESB í apríl sl. um þvingunaraðgerðir gegn herskáum landnemum á Vesturbakkanum, sem Ísland innleiðir.
  Ísland jók stuðning sinn við Palestínuflóttamannaaðstoðina (UNRWA) á árinu 2023 um 225 milljónir króna. Auk þess var Rauða krossinum á Íslandi veitt 25 milljóna króna árslokaframlag til að styðja við starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem starfar með palestínska Rauða hálfmánanum á Gaza og 15 milljóna króna viðbótarframlag var veitt til Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC).

Framvinda í kynja- og jafnréttismálum

Starf utanríkisþjónustunnar á sviði jafnréttismála byggist á áherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að fullu kynjajafnrétti verði náð á Íslandi fyrir árið 2030. Ísland leiddi áfram lista Alþjóðaefnahagsráðsins um mest kynjajafnrétti fimmtánda árið í röð (World Economic Forum, Global Gender Gap Report, 2023). Í alþjóðlegu samstarfi leitast Ísland við að vera fyrirmynd og ötull málsvari jafnréttismála. Kynjajafnrétti eru grundvallar mannréttindi, drifkraftur sjálfbærrar þróunar, friðar og framfara innan alþjóðakerfisins. Á árinu stóðu utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur fyrir á fjórða hundrað verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála um allan heim.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2020-2023 eru verkefni utanríkisráðuneytisins þrjú. „Innleiðing jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu“  lauk á árinu 2022 og þá eru verkefnin „ Þátttaka karla í jafnréttismálum“ og „Jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum“ vel á veg komin eða lokið.

Utanríkisráðuneytið starfar eftir fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023 og hefur kortlagt kynjasjónarmið og jafnréttismetið verkefni í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Þeirri vinnu er gerð skil í sérstakri stöðuskýrslu sem kemur út ár hvert. Árið 2022 var hafin kortlagning kynjasjónarmiða í fjárframlögum Íslands til varnarmála. Ráðuneytið vinnur einnig jafnréttismat á fjárlagatillögum og lagafrumvörpum.

Í yfirstjórn ráðuneytisins ríkir kynjajafnvægi. Þá veita forstöðu sendiskrifstofum sextán karlar og níu konur. Ráðuneytið er jafnlaunavottað samkvæmt íslenska jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Óútskýrður launamunur var innan við 1% sem er með því besta sem gerist.

Aðgerðir í kynja- og jafnréttismálum á málefnasviði 04

Málsvarastarf í þágu kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna er mikilvægur hluti starfs ráðuneytisins um allan heim. Ísland hefur ítrekað vakið athygli á bágri stöðu kvenna og stúlkna bæði í Afganistan og Íran, ekki síst í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og verið meðflytjandi ályktana því tengt. Utanríkisráðherra nýtir hvert tækifæri til að taka upp þessi mál þar á meðal í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra og hefur tekið höndum saman með kvenkyns utanríkisráðherrum með yfirlýsingar um þau mál.

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og lagði sérstaka áherslu á jafnréttismál í formennskuáætlun sinni.

Ísland hefur beitt sér fyrir því að setja jafnréttisákvæði í viðskiptasamninga, þ.á.m. í núgildandi fríverslunarsamningi við Bretland. Er þetta fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Ísland gerir þar sem slík ákvæði er að finna.

Ísland hefur leikið lykilhlutverk við að koma jafnréttismálum á dagskrá innan Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO) og stýrir óformlegum vinnuhópi um þau mál, ásamt Botsvana og El Salvador. Á ráðherrafundi WTO í júní 2022 samþykktu aðildarríkin í fyrsta skipti ákvæði um efnahagslega valdeflingu kvenna  í ráðherrayfirlýsingu fundarins.  

Ísland leggur áherslu á innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, ekki síst á vettvangi fastanefndar Íslands í Brussel, New York og Vín. Landsáætlun Íslands rann sitt skeið á enda í lok árs 2022 og verður fjórða landsáætlun með gildistíma til 2030 kynnt á þessu ári. Ráðuneytið fjármagnar stöðu sérfræðings á þessu sviði hjá Atlantshafsbandalaginu.

Ísland leggur einnig áhersla á virka þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni og hefur frá árinu 2015 efnt til ríflega tuttugu ráðstefna undir merkjum Barbershop. Á síðasta ári var efnt til ráðstefnu hjá UNESCO, Evrópuráðinu og ÖSE, sem vinna að þessu markmiði.

Aðgerðir í kynja- og jafnréttismálum á málefnasviði 35 

Jafnrétti kynjanna er bæði þverlægt og sértækt markmið í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands. Áfram var unnið samkvæmt stefnumiðum um jafnréttismál í alþjóðlegri þróunarsamvinnu 2019-2023 og þess gætt að framlög Íslands til málaflokksins stuðli að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, stuðla að heilbrigði stúlkna og kvenna, kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi, menntun með áherslu á stúlkubarnið, valdeflingu kvenna, og aukinni þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni. Í apríl 2023 voru niðurstöður jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands kynntar að undangengnu ítarlegu mati á starfi íslenskra stjórnvalda á því sviði. Þar var starf í þágu kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna nefnt sem dæmi um málaflokk þar sem Ísland hefur látið til sín taka á alþjóðlegum vettvangi og í tvíhliða starfi, en sökum þess hve Ísland nýtur mikils trúverðugleika á því sviði og skýrrar nálgunar sé sýnileiki og árangur af starfinu umtalsvert meiri en fjárframlög gefa til kynna.  

Málsvarastarf og forystuhlutverk á alþjóðavettvangi fékk áfram mikið vægi á sl. ári. Ísland leiddi m.a. áfram aðgerðarbandalag um kynbundið ofbeldi innan átaksverkefnis UN Women Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum) í samstarfi við Bretland, Úrúgvæ og Kenía og fleiri aðila, og gegndi forsætisráðherra meðgestgjafahlutverki miðannarfundar átaksverkefnisins ásamt Tansaníu í september sl. Þá var samstarfi við UN Women um karlmennsku og þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni fram haldið, og einnig samstarfi tengdu tengslanets kvenleiðtoga.

Mikið jafnréttisstarf er unnið á vettvangi alþjóðastofnana og má þar helst geta Stofnun Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem allt eru áherslustofnanir í þróunarsamvinnu Íslands. Auk kjarnaframlaga styður Ísland einstök jafnréttisverkefni þessara stofnana á borð við jafnréttissjóð UNICEF sem vinnur að menntun stúlkna á áhættusvæðum, sameiginlegt verkefni UNICEF og UNFPA um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna og umfangsmikil verkefni í samvinnu við UNFPA vegna baráttunnar gegn fæðingarfistli í Síerra Leóne Úganda og Malaví.
 Ísland lagði áfram áherslu á stuðning við jafnréttismál á átakasvæðum og í óstöðugum ríkjum þar sem mikilvægt er að hugað sé að sérstökum þörfum kvenna og stúlkna í slíkum aðstæðum. Í Afganistan var til að mynda veittur stuðningur við verkefni UN Women og UNFPA og framlög veitt í sérstakan sjóð sem veitir styrki til kvennasamtaka í landinu (Women‘s Peace and Humanitarian Fund, WPHF). Í Úkraínu voru veitt framlög til verkefna UN Women og UNFPA auk áframhaldandi stuðnings við starfsemi UN Women í Palestínu, verkefni UNICEF um mæðraheilsu í Palestínu og UNFPA í Jemen. Stuðningur við sýrlenskar konur hélt áfram með framlögum til UNFPA og verkefnis UN Women sem snýr að valdeflingu sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Sendiráð Íslands í Malaví hefur lagt aukna áherslu á verkefni er snúa að  jafnréttismálum og hóf á árinu samstarf við ýmsar stofnanir og samtök til að veita heildstæðan stuðning  með það að markmiði að fyrirbyggja og uppræta kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni. Einnig var lögð áhersla á efnahagslega valdeflingu  kvenna og stúlkna. Þá gerði sendiráð Íslands í Úganda stöðugreiningar á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í Buikwe og Namayingo héruðum á árinu. 

Hinn 15. desember sl. samþykkti Alþingi stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til næstu fimm ára (2024-2028) þar sem lögð er enn ríkari áhersla á mannréttindi og jafnrétti kynjanna en í fyrri stefnu. Er það bæði í ljósi þess að mannréttindi og jafnrétti kynjanna eru forsenda framfara á öllum sviðum og þess bakslags er hefur gætt á þessum sviðum á undanförnum árum. Auk þess að samþætta þessi málefni í verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda og styðja við sértæk jafnréttis- og mannréttindamiðuð verkefni, munu íslensk stjórnvöld áfram vera ötulir málsvarar mannréttinda og jafnréttismála á alþjóðlegum vettvangi. Lögð verður sérstök áhersla á valdeflingu kvenna og stúlkna, aukin borgaraleg réttindi, bætta lagalega og félagslega stöðu hinsegin fólks, bætt kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, upprætingu kynbundins og kynferðislegs ofbeldis og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta