Hoppa yfir valmynd

Helstu áfangar á árinu 2022

Fréttaannáll 2022

Húsnæðis- og skipulagsmál

Rammasamningur um húsnæðisuppbyggingu

Ríkið og sveitarfélög undirrituðu í júlí rammasamning um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða fyrir ólíka hópa samfélagsins. Samkomulagið markaði tímamót en þetta er í fyrsta sinn sem ríki og sveitarfélög gert gera með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til tíu ára, 2023-2032.

Samkvæmt samningnum verða 35 þúsund íbúðir byggðar um land allt á næstu tíu árum. Af heildaruppbyggingunni skuli 30% vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Sérstök áhersla verður því á að byggja ríflega 12 þúsund hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði.

Markviss húsnæðisstuðningur fyrir þau sem standa höllum fæti

Stjórnvöld hafa unnið að því að innleiða aðgerðir til að auka hlut íbúða fyrir tekjuminni einstaklinga í almenna íbúðakerfinu. Áfram verður stutt við tekjulága einstaklinga í gegnum húsnæðis- og vaxtabótakerfin og í fyrra var tilkynnt um hækkun á húsnæðisbótum til leigjenda.

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta voru hækkaðar um 13,8% samhliða 7,4% hækkun á tekjumörkum frá 1. janúar 2023. Enn fremur voru eignamörk vaxtabóta hækkuð um 50% í upphafi árs 2023 og stefnt er að því að heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði verði framlengd til ársloka 2024.

Fasteignaskrá flutt til HMS

Verkefni tengd fasteignaskrá og fasteignamati voru flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á árinu. Markmiðið var að einfalda og efla þjónustu við fólk og fyrirtæki á sviði húsnæðismála og tryggja enn frekari samhæfingu milli ríkisstofnana og sveitarfélaga. Þjóðskrá Íslands mun áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga.

Með þessum breytingum var stigið stórt skref til að samhæfa og einfalda þjónustu á vegum hins opinbera á sviði húsnæðismála. Tilgangurinn er m.a. að auka yfirsýn til að gera stjórnvöldum kleift að gera markvissari aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Dregið úr kolefnislosun með vistvænni mannvirkjagerð

Byggingariðnaðurinn og stjórnvöld settu sér á síðasta ári þau markmið að dregið verði úr árlegri kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43% fyrir árið 2030, miðað við núverandi losun. Markmiðin voru sett fram í nýjum vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð á vegum samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs, Byggjum grænni framtíð (BGF).

Í vegvísinum er losun íslenskra bygginga metin, markmið sett um að draga úr losun fyrir 2030 og aðgerðir skilgreindar til að ná þeim markmiðum. Þetta er í fyrsta sinn sem losun, markmið og aðgerðir fyrir vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi eru skilgreind með þessum hætti.

Samgöngur

Sundabraut komin af stað

Undirbúningur vegna Sundabrautar komst á skrið á árinu. Óháð félagshagfræðileg greining leiddi í ljós mikinn samfélagslegan ábata af lagningu Sundabrautar. Innviðaráðherra skipaði verkefnisstjórn sem mun hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautar. Í stjórninni eru fulltrúar ráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá var verkefnisstjóri ráðinn til að starfa.

Undirbúningur miðast við að framkvæmdir hefjist 2026 og Sundabrautin verði tekin í notkun 2031. Fyrstu verkefnin á undirbúningstímabili felast m.a. í að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, undirbúa samráð við íbúa og hagsmunaaðila á öllum stigum verkefnisins og huga að nauðsynlegum lagabreytingum og breytingum á skipulagi.

Fjölmörg samgöngumannvirki klárast eða komin vel á veg

Mörg stór samgönguverkefni kláruðust á árinu og stór skref stigin vegna annarra. Lokið var við nýjan kafla Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss nokkuð á undan áætlun. Ný brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi var vígð en með tilkomu hennar er engin einbreið brú lengur austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Einbreiðum brúm heldur því áfram að fækka.

Unnið er að framkvæmdum við nýjan veg og brú yfir Hornafjarðarfljót sem áætlað er að ljúki 2025. Þá óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í samkeppnisútboð vegna hönnunar, framkvæmdar og fjármögnunar á framkvæmdatíma vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá. Stefnt er að því að ljúka því verkefni árið 2026.

Þá hafa framlög til uppbyggingar göngu- og hjólreiðastíga aukist á undanförnum árum og áfram verður haldið á sömu braut. Mikilvægi slíkra innviða hefur aukist samhliða hraðri aukningu á umferð smáfarartækja.

Endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af ökutækjum og umferð

Vinna hófst á árinu við að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins af ökutækjum og umferð en tekjur af hefðbundnum tekjustofnum hafa dregist verulega saman vegna orkuskipta. Mikilvægt er að tryggja að tekjuöflun standi undir þeirri fjárfestingarþörf sem fyrirsjáanleg er á næstu árum.

Horft er til þess að tekjuöflun af ökutækjum og umferð nái fyrra hlutfalli af VLF, eða um 1,7%. Þá er mikilvægt að kerfið sé sveigjanlegt að því leyti að hægt verði að flýta þjóðhagslega arðsömum framkvæmdum. Gróflega má skipta tekjuöflun í tvennt, í almenna gjaldtöku af umferð og ökutækjum og svo sértæka gjaldtöku með innheimtu veggjalda.

Ný lög um leigubíla samþykkt

Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur var samþykkt á Alþingi á árinu. Markmiðið er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu, neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta. Þá er lögunum ætlað að tryggja að ríkið uppfylli þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Lögin tóku gildi 1. apríl 2023.

Sveitarstjórna- og byggðamál

Ný byggðaáætlun samþykkt

Ný byggðaáætlun fyrir 2022-2036 og aðgerðaáætlun fyrir 2022-2026 var samþykkt á Alþingi á árinu. Í henni er kveðið á um 44 aðgerðir. Öll ráðuneyti eru beinir aðilar að byggðaáætlun og ber hvert þeirra ábyrgð á minnst einni aðgerð. Innviðaráðuneytið ber ábyrgð á flestum aðgerðum, eða tólf alls, en umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið á 10 aðgerðum.

Samráð og samhæfing eru leiðarljós við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Samráðið er m.a. við sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök þeirra og Samband íslenskra sveitarfélaga og við ráðuneyti í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál.

Breytingar á Jöfnunarsjóði undirbúnar

Starfshópur á vegum ráðuneytisins vann á árinu að undirbúningi tillagna um breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samvinnu við starfsfólk sjóðsins. Tillögurnar voru síðan kynntar í samráðsgátt í mars 2023. Tillögurnar miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum.

Endurskoðun stefnu í málefnum sveitarfélaga

Á árinu 2022 hófst vinna við endurskoðun stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038, ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Markmið stefnunnar er að gera sveitarfélögin í landinu betur í stakk búin til að sinna lögbundnum skyldum sínum við íbúa landsins og takast á við aukna ábyrgð og áskoranir til framtíðar.

Vinnan við endurskoðunina hefur farið fram í víðtæku samráði s.s. við íbúa, sveitarstjórnir, aðra hagaaðila og fulltrúa annarra stefna og áætlana stjórnvalda. Reiknað er með því að Alþingi samþykki stefnuna ásamt aðgerðaáætlun vorið 2023.

Römpum upp Ísland

Átakinu Römpum upp Ísland var formlega hleypt af stokkunum í mars. Markmiðið með verkefninu var í upphafi að byggja 1.000 rampa um land allt á fjórum árum. Átakið gekk svo vel að síðar á árinu var ákveðið að setja markið hærra og stefna að 1.500 römpum, að meðtöldum þeim 100 römpum sem reistir voru í Reykjavík árið 2021.

Með römpunum er öllum gert kleift að nýta sér margvíslega þjónustu, fara á veitingahús og verslanir um land allt. Innviðaráðuneytið styður við verkefnið með veglegum fjárstuðningi. Verkefnið nýtur einnig stuðnings frá einkaaðilum og þeim sveitarfélögum þar sem ramparnir eru settir upp.

Stefnumál innviðaráðherra

Ráðuneytið vinnur að fjölmörgum mikilvægum verkefnum hverju sinni. Ráðherra hefur sett fjölmörg mál í forgang sem unnið er að á kjörtímabilinu í takt við stjórnarsáttmála og stefnur og áætlanir ráðuneytisins í málaflokkum þess.

Starfsáætlun ráðuneytisins

Starfsáætlun innviðaráðuneytis fyrir yfirstandandi kjörtímabil til ársins 2025 var kynnt í lok árs 2022. Starfsáætlunin varpar ljósi á hvaða árangri er stefnt að og er leiðarljós starfsfólks við skipulagningu og forgangsröðun verkefna hjá ráðuneytinu. Í áætluninni koma fram framtíðarsýn, áherslur, markmið og aðgerðir ráðuneytisins fyrir tímabilið.

Starfsáætlunin byggir á þeim markmiðum og verkefnum sem sett voru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hún byggir jafnframt á framtíðarsýn og meginmarkmiðum ráðuneytisins og stefnum og áætlunum málaflokkanna, samgöngumál, húsnæðis- og skipulagsmál, byggðamál og málefni sveitarfélaga.

 

Framvinda í kynja- og jafnréttismálum

Framtíðarsýn innviðaráðuneytisins er að kynja- og jafnréttissjónarmið séu samþætt vali aðgerða og ákvarðanatöku. Jafnrétti er mikilvægur þáttur í árangri á þeim málefnasviðum sem ráðuneytið ber ábyrgð á. Til þess að meta framvindu í kynja- og jafnréttismálum er nauðsynlegt að þekkja  með hvaða hætti ólík sjónarmið, staða og væntingar kynjanna hafa áhrifa innan málaflokkanna með það að markmiði að varpa ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum. 

Einn af mikilvægustu þáttunum í þeirri vinnu eru auknar rannsóknir og öflun kyngreinanlegra gagna. Góð gögn eru forsenda þess að koma auga á aðgerðir sem geta skilað okkur í átt að auknu jafnrétti. Aukin vakning hefur verið um jafnréttismál innan ráðuneytisins sem hefur leitt til þess að söfnun gagna hefur batnað frá fyrra ári og áfram verður hvatt til þess að slík gögn séu tekin saman og þau greind markvisst. Í málaflokkunum samgöngur, sveitarstjórnarmál og byggðamál voru tilteknar aðgerðir í fjárlögum 2022 sem fjölluðu um jafnréttismál.

Samgöngur 

  • Áfram var unnið að því að auka hlutdeild kvenna í siglingum. Þar hefur náðst nokkur árangur m.a. hefur  hlutur kvenna í umfjöllunum fjölmiðla sem og sem frummælendur á ráðstefnum hefur aukist verulega. Alþjóðadagur kvenna í siglingum var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur 18. maí 2022 um allan heim og vakin á honum athygli hérlendis. Sýnileiki kvenna í siglingum skapar fyrirmyndir sem vonandi munu fjölga konum í faginu á næstu árum. Stúlkur eru enn um 8% nemenda í skipstjórnarnámi. Loks hófst vinna við  gerð heimilda- og kennslumyndar um Konur og siglingar. Er stefnt að frumsýningu á árinu 2023.
  • Síðla árs 2022 var gerð ferðavenjukönnun þar sem m.a. er skoðaður kynjamunur í notkun samgöngumáta unnið er úr niðurstöðum sem bárust vorið 2023.
  • Áfram var tryggð sértæk niðurgreiðsla á innanlandsflugi, Loftbrú, fyrir þá íbúa sem búa í meira en 3,5 klst. ferðatíma frá nauðsynlegri opinberri þjónustu og sameiginlegum menningarstofnunum. Rannsóknir höfðu sýnt að umtalsverðan kynbundinn mun á  notkun innanlandsflugs og  stóðu vonir til þess að Loftbrú draga úr þessum mun síst vegna viðvarandi launamunar kynjanna víða á landsbyggðinni.  Niðurstaðan er sú að fleiri konur en karlar hafa verið a nýta Loftbrúnna og árið 2022 var nýting kvenna 57% á móti 43% karla.  Munurinn er áþekkur í öllum aldurshópum. 

Byggðamál

  • Samhliða endurskoðun byggðaáætlunar hefur verið unnið tilraunaverkefni undir leiðsögn forsætisráðuneytisins þar sem hugað hefur verið sérstaklega að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Í stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036 er riðið á vaðið hvað þetta varðar og þar kemur fram að horft verði til jafnréttissjónarmiða við úrlausn þeirra verkefna sem falla undir fimm lykilviðfangsefni byggðaáætlunar. 
  • Fyrir sveitarstjórnarkosningar, eða í byrjun árs 2022, hófst átak í vitundarvakningu undir myllumerkinu #JÁTAK. Átakið var eitt af aðgerðum byggðaáætlunar og fór Jafnréttisstofa með framkvæmdina. Farið var í auglýsingaherferð á öllum helstu samfélagsmiðlum. Átakið var á íslensku, ensku og pólsku. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum eftir kosningar 2022 er 50,9%. 

Sveitarstjórnarmál

  • Verkefnisstjórn um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa skilaði sinni skýrslu í lok nóvember 2022. Skýrslan hefur að geyma 15 tillögur um hvernig megi draga úr álagi, stuðla að sanngjarnari kjörum, bættum vinnuaðstæðum og samskiptum kjörinna fulltrúa, sín á milli og við almenning. Markmið tillagnanna er að draga úr endurnýjun fulltrúa í sveitarstjórnum. Endurnýjunarhlutfall kvenna hefur verið heldur hærra (7/10) en karla (5/10). Að baki skýrslunnar liggja þrjár rannsóknir á starfsaðstæðum og líðan sveitarstjórnarfólks. Niðurstöðurnar gefa til kynna að fulltrúar í íslenskum sveitarstjórnum séu færri, yngri og eyði lengri tíma í störf í þágu viðkomandi sveitarfélags heldur en fulltrúar í öðrum norrænum sveitarstjórnum. 
  • Innviðaráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fylgdu tillögum verkefnisstjórnarinnar eftir með sameiginlegu bréfi til allra sveitarfélaga í kjölfar útkomu skýrslunnar. Nokkrar tillögur verkefnisstjórnarinnar á sviði kjaramála og starfsaðstæðna ganga inn í endurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Öðrum tillögum verður fylgt úr hlaði af ráðuneytinu í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila á  árunum 2023 til 2025. 
  • Tveimur tillagnanna er fylgt eftir með aðgerðum í nýrri þingsályktunartillögu að stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem bíður þinglegrar meðferðar. Önnur aðgerðin felur í sér stofnun fagteymis vegna kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni í garð kjörinna fulltrúa. Rannsóknir Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands leiða í ljós að konur verða frekar fyrir slíkri áreitni en karlar. Hin aðgerðin felur í sér samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofuna um þróun mælaborðs með jafnréttismælikvörðum á heimasíðu Jafnréttisstofu. Þeirri aðgerð hefur þegar verið ýtt úr vör. 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta