Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Á þeim 80 árum sem liðið hafa frá lýðveldistöku hafa lífskjör landsmanna gjörbreyst. Sívaxandi utanríkisviðskipti og alþjóðasamstarf á fjölmörgum sviðum lögðu grunninn og við blasir að án sterkra alþjóðlegra samskipta værum við einfaldlega fátækari í víðu samhengi. Ýmsu má þakka, eins og farsælli utanríkisstefnu, en frumforsenda þessara framfara er það alþjóðakerfi sem hefur byggst upp frá stofnun lýðveldisins. 

Þessu kerfi er nú ógnað. Innrásarstríð Rússlands er stærsta ógn við frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og árás á alþjóðakerfið sem sjálfstæði Íslands byggist á. Ísland hefur með ráðum og dáð stutt varnarbaráttu Úkraínumanna, sem leggja nú líf sitt að veði fyrir land sitt og frelsi, og ályktun Alþingis um langtímastuðning sem samþykkt var í apríl 2024 er rökrétt framhald á því framlagi og mikilvæg skuldbinding. Þýðingarmikið skref var stigið með stofnsetningu tjónaskrár fyrir Úkraínu á sögulegum leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík þar sem grunngildi lýðræðis og mannréttinda voru jafnframt fest í sessi sem leiðarljós aðildarríkjanna.

Ófriðarbál loga víðar. Tugþúsundir hafa týnt lífi á Gaza í átökum sem hófust með hrottalegri hryðjuverkaárás Hamas í október 2023 og gagnaðgerðum Ísraels sem fylgdu í kjölfarið. Í samræmi við ályktun Alþingis hefur Ísland fordæmt hryðjuverkin og ítrekað að alþjóðalög og grunnreglur um vernd borgara beri að virða og aðgengi fyrir mannúðaraðstoð megi aldrei hefta. Jafnframt hefur Ísland tekið undir sterkt ákall alþjóðasamfélagsins um vopnahlé. Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum til mannúðaraðstoðar á svæðinu en mest er um vert að pólitísk lausn finnist sem fyrst. Slík lausn þarf að fela í sér tvö stöðug og friðsöm ríki á svæðinu sem fara að alþjóðalögum og virða tilverurétt hvors annars.

Þrátt fyrir miklar áskoranir er til mikils að vinna að efla virðingu fyrir alþjóðalögum og tala fyrir þeim. Þar hefur Ísland rödd sem skiptir máli að sé beitt á eins áhrifaríkan hátt og hægt er. Ísland leggur lóð sín á vogaskálarnar með vaxandi framlögum til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, og málsvarastarfi og ábyrgðarstörfum á vettvangi alþjóðastofnana, samanber framboð okkar til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna 2025-2027.

Ísland hefur frá fyrstu árum lýðveldisins skipað sér í sveit vestrænna lýðræðisríkja sem í 75 ár hafa sammælst um að verja öryggi landsins og lýðræðisleg gildi. Nú þegar ógn steðjar að og samstarfsríki Íslands telja sig knúin til að efla varnir og viðbúnað, ríður á að Ísland verði traustur bandamaður og leggi enn frekar af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.

Vegna breyttrar stöðu öryggismála eru Norðurlöndin nú sameinuð í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarf þeirra hefur aldrei verið jafn náið, líkt og raunar á við um nær öll svið utanríkismála. Á liðnu ári gegndi Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna, sem öll hafa metnað til brúarsmíði á alþjóðavettvangi. Þá er vert að nefna sívaxandi samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna enda eiga þessi átta ríki góða sögu að segja um hvernig frelsi, mannréttindi, jafnrétti og jöfn tækifæri hafa skapað velsæld og lífsgæði sem óvíða verður við jafnað.

Fyrir okkur sem búum við slík lífsgæði er nær ómögulegt að gera okkur í hugarlund að þau geti glatast. Okkur kann að virðast óhugsandi að búa í samfélagi þar sem skoðanafrelsi, málfrelsi og fjölmiðlafrelsi er takmarkað, mannréttindi hinsegin fólks eru virt að vettugi og kynjajafnrétti er fært áratugi aftur í tímann. Því miður býr stór hluti mannkyns við slíkar aðstæður. Í því samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að hetjuleg barátta úkraínsku þjóðarinnar snýst ekki aðeins um að hrinda innrásarher Rússa heldur einnig um að öðlast tækifæri til að tryggja sömu lífsgæði og við njótum, meðal annars með aðild að samfélagi evrópskra lýðræðisþjóða. Þau vita sem er að friður er lítils virði án frelsis. Okkar skylda er að standa með þeim og þar liggja hagsmunir okkar einnig.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum