Skýrsla nefndar um tengsl iðnaðar og sjávarútvegs
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 3/1996
Um nokkurt skeið hefur nefnd á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins unnið að athugunum á hagrænum tengslum iðnaðar og sjávarútvegs. Nefndin var skipuð í mars 1992 af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hefur hún nú skilað skýrslu sinni um málið.
Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun, tillögur og ábendingar varðandi tengsl iðnaðar og sjávarútvegs, svo og stjórn efnahagsmála í því sambandi. Bent er á mikilvægi þess að auka fullvinnslu og þróun afurða í fiskvinnslu og iðnaði, til að efla iðnað tengdan sjávarútvegi en ekki síður til þess að draga úr sveiflum í viðskiptakjörum þjóðarinnar. Í því sambandi er bent á að sveiflur í viðskiptakjörum megi að hluta til rekja til lítt unninna útflutningsafurða í sjávarútvegi sem og stóriðju, þar sem verðsveiflur slíkra afurða eru að öllu jöfnu mun meiri en á meira unnum afurðum. Mikilvægt er því talið m.a. að efla vöruþróun, markaðssókn og nánara samstarf fyrirtækja (svokallaðra þróunarklasa) í atvinnulífi með markvissum stuðningsaðgerðum stjórnvalda. Svo virðist hins vegar sem Íslendingar hafi staðið helstu samkeppnisþjóðum sínum að baki í viðbúnaði til að taka skipulega á stuðningskerfum atvinnulífs og hafi lengi vanmetið þörf á viðeigandi aðgerðum á því sviði. Þetta stafar m.a. af miklum umsvifum í atvinn
ulífinu undanfarna áratugi og nægrar atvinnu.
Nefndin fjallaði um stöðu og þróun iðnaðar sem tengist sjávarútvegi og hvaða þættir hafi helst áhrif á þessi tengsl. Í því sambandi var fjallað um gengisstefnu, sveiflur í viðskiptakjörum, þróun fiskvinnslu og sjávarútvegs og sölumál sjávarafurða. Einnig var fjallað sérstaklega um áhrif svokallaðra framleiðsluþátta, eftirspurnarþátta, tengdar greinar og stuðningsgreinar, fyrirtækjagerð, tilviljanir og áhrif stjórnvalda á atvinnulíf. Vegna þessa má segja að efnistök nefndarinnar hafi verið með nokkuð nýjum hætti við umfjöllun um málefni sem þetta.
Í skýrslunni er einnig fjallað sérstaklega um einstakar greinar sem hvað mest tengjast sjárvarútvegi, s.s. skipasmíðar og viðgerðir, málmiðnaðargreinar, veiðarfæraiðnað, umbúðaiðnað og matvælaiðnað og hvernig þessar greinar tengjast sjávarútvegi með svokölluðum bak- og framtengslum. Nefndin fjallaði um vinnslustig sjávarafurða, skort á framtengslum, klasa í atvinnulífi og hvaða aðgerðum stjórnvöld geta beitt til að efla samkeppnishæfni atvinnulífs á þessu sviði og stuðla þar með að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í framtíðinni. Fjallað er um mikilvægi stöðugleika og sveiflujöfnunar í íslensku efnahagslífi, þó að ekki hafi verið lagðar fram fullmótaðar tillögur í því sambandi, en bent á hversu aðkallandi viðfangsefnið er. Í skýrslunni eru rakin ýmis töluleg dæmi um þróun iðnaðar sem tengist sjávarútvegi og kemur m.a. fram að mikil aukning hefur orðið í útflutningi á tækjum og búnaði til sjávarútvegs og þó einkum í hátæknivörum eins og rafeindavogum.
Í nefndinni áttu sæti: Ari Skúlason, sem jafnframt gegndi formennsku, frá Alþýðusambandi Íslands, Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Baldur Pétursson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, frá Samiðn sambandi iðnfélaga, Halldór Árnason frá sjávarútvegsráðuneyti, Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Þorsteinn M. Jónsson frá Samtökum iðnaðarins. Með nefndinni starfaði Björn Rúnar Guðmundsson frá Þjóðhagsstofnun sem ritari.
Það er von ráðuneytisins að skýrslan verði gott innlegg í umfjöllun um framtíð íslensks efnahagslífs og hvernig verðmætasköpun og atvinna verði sem best tryggð með aðgerðum vinnuveitenda, launþega og stjórnvalda á sviði iðnaðar og sjávarútvegs sem og á öðrum sviðum.
Nánari upplýsingar veitir Baldur Pétursson deildarstjóri í iðnaðarráðuneytinu.
Reykjavík, 31. janúar 1996