Hoppa yfir valmynd
2. apríl 1996 Matvælaráðuneytið

Breyting á raforkuverði og aukinn afsláttur til húshitunar

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 9/1996




Um þessi mánaðarmót hækkar gjaldskrá Landsvirkjunar um 3%. Síðast hækkaði raforkuverð Landsvirkjunar í ársbyrjun 1994. Síðan þá hefur byggingarvísitala hækkað um 6,3%. Hækkunin er því minni en hækkun byggingarvísitölu á sama tímabili. Um mánaðarmótin hækka stærstu dreifiveitur raforkuverð sitt enn fremur um sama hlutfall og Landsvirkjun. Talið er að sú hækkun muni leiða til um 0,03% hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Raforka til hitunar íbúðarhúsnæðis er niðurgreidd með þrennum hætti. Í fyrsta lagi niðurgreiðslur ríkisins sem nema 1,38 kr/kWh, en samtals ver ríkissjóður um 450 m.kr. í þessu skyni á þessu ári. Í öðru lagi veitir Landsvirkjun afslátt að upphæð 0,39 kr/kWh og í þriðja lagi tóku þær dreifiveitur sem selja raforku til hitunar, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríksins og Orkubú Vestfjarða, þátt í þessu átaki til lækkunar húshitunarkostnaðar á síðasta ári með því að veita viðbótarafslátt að upphæð 0,03 kr/kWh. Samtals hafa þessar þrjár aðgerðir leitt til þess að rafhitunarkostnaður heimila hefur undanfarið verið um 1,8 kr/kWh lægri en ella væri eða 54 þ.kr. á ári á húsnæði vísitölufjölskyldu fyrir álagningu virðisaukaskatts. Að teknu tilliti til hans sem og endurgreiðslu ríkissjóðs af hluta skattsins er sú upphæð um 67 þ.kr. á ári.

Að öðru óbreyttu hefði fyrrgreind hækkun á útsöluverði raforku leitt til hlutfallslega meiri hækkunar á rafmagni til húshitunar en til annarra heimilisnota eða um 5%.

Að ósk ráðherra orkumála hafa umræddar drefiveitur, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða því ákveðið, að auka afslátt á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis þannig að kostnaður við upphitun hækki ekki meira en hin almenna hækkun á raforkuverði. Þessar dreifiveitur munu því hækka afslátt á raforku til hitunar íbúðarhúsnæði úr 0,03 kr/kWh í um 0,08 kr/kWh.

Reykjavík, 2. apríl 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta