Listasýning í tilefni af leiðtogafundinum 1986
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 038
Hinn 2. maí var opnuð listsýning í Washington D.C. til að minna á 10 ára afmæli leiðtogafundarins í Reykjavík 1986, milli
Reagans og Gorbachevs. Yfirskrift sýningarinnar er Brúarsmíð: Reykjavíkurfundurinn - Tíu árum síðar "Building Bridges:
The Reykjavík Summit, Ten Years Later". Leiðtogafundurinn var merkur áfangi í samskiptum stórveldanna og markaði
upphafið að lokum kalda stríðsins. Hann átti stóran þátt í því að vekja athygli á Íslandi og Reykjavíkurborg sérstaklega.
Á sýningunni eru verk þriggja listamanna, Sigrúnar Jónsdóttur frá Íslandi, Nancy Hamilton frá Bandaríkjunum og Pjotr
Shapiro frá Rússlandi. Einnig eru sýndar ljósmyndir frá leiðtogafundinum og tréútskurður eftir Gunnar R. Gunnarsson.
Verk hans Vinátta sýnir á táknrænan hátt samband Íslands og Bandaríkjanna.
Sýningin fer fram í Martin Luther King bókasafninu og stendur yfir 2.-28. maí 1996. Þetta er aðalbókasafn borgarinnar,
með fjölda sýningasala, og fær það um tvær milljónir gesta á ári.
Verk Sigrúnar Jónsdóttur vöktu sérstaka athygli á sýningunni. Hún sýnir vefnað, batík og steind glerverk og öll bera þau
með sér sterk einkenni íslenskrar náttúru.
Nancy Hamilton er málari sem starfar í Washingtonborg. Hún sýnir olíuverk. Pjotr Shapiro er myndhöggvari sem flutti til
Bandaríkjanna frá Rússlandi fyrir tveimur árum. Hann sýnir fjölda andlitsmynda, svo og módel verksins Pendúll lífsins
"The Pendulum of Life", sem er gert til minningar um leiðtogafundinn í Reykjavík. Hann hefur sýnt verk sín á Íslandi.
Myndlistarsýning þessi er haldin á vegum sendiráða Íslands og Rússlands í Washington. Hátt á annað hundrað manns voru
viðstaddir opnunina. Einar Benediktsson, sendiherra, hélt inngangsræðu. Einnig töluðu Andrew A. Venable,
varaforstöðumaður safnsins, Vladimir I. Chkhikvishvili, næstráðandi rússneska sendiráðsins og Birna Hreiðarsdóttir,
lögfræðingur, sem annaðist undirbúning sýningarinnar. Við þetta tækifæri voru safninu færðar bækur um Ísland og íslensk
málefni að gjöf.
Fréttatilkynning Martin Luther King bókasafnsins um sýninguna fylgir hjálagt.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 9. maí 1996