Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 046
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í Maríuhöfn á Álandseyjum.
Ráðherrarnir ræddu Evrópumálefni, einkanlega stækkun ESB og ríkjaráðstefnuna, málefni Atlantshafsbandalagsins og
þróun mála í fyrrverandi Júgóslavíu. Utanríkisráðherra hafði framsögu á fundinum um stækkun NATO.
Rætt var um samstarf Norðurlanda á grannsvæðum, Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og hið fyrirhugaða Norðurskautsráð.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á, að Norðurskautsráðið yrði stofnað sem allra fyrst.
Þá var rætt um málefni Sameinuðu þjóðanna, samnorræn framboð á vettvangi þeirra, starf mannréttindaráðsins í Genf,
ástand mannréttinda í Íran og Tyrklandi, hinar fyrirhuguðu kosningar í Rússlandi og stöðu mála í Mið-Austurlöndum.
Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning ráðherranna.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 29. maí 1996