Hoppa yfir valmynd
3. júní 1996 Matvælaráðuneytið

Skýrsla nefndar um Mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 1996 - 2002

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/1996




Þann 12. desember 1995, skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp til að meta mannaflaþörf vegna stækkunar ÍSAL, áform um fyrirhugaða stækkun Járnblendifélagsins, hugsanlegt nýtt álver og tengdar framkvæmdir hjá Landsvirkjun. Í skipunarbréfi starfshópsins segir m.a.: ,,Með hliðsjón af umfangi framkvæmdanna og þeim tækifærum til að byggja upp þekkingu sem skapast við slíkar framkvæmdir, er mikilvægt að auka samkeppnismöguleika íslenskra fyrirtækja í þeim. Til að stuðla að slíku er nauðsynlegt að skilgreina og tímasetja mannaflaþörf og þær þekkingar- og hæfniskröfur sem krafist er. Í framhaldi af því gæti þurft að gera ráðstafanir t.d. í starfsmenntunarmálum."

Starfshópnum var falið að meta sérstaklega eftirfarandi atriði: 1) Árlega mannaflaþörf vegna umræddra verkefna. 2) Þekkingarkröfur og hæfni sem krafist er í viðkomandi verkefnum og á hvaða tíma þær eru gerðar. 3) Hvort viðkomandi þekkingar- og hæfniskröfur séu almennt fyrir hendi og hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, t.d. átaki í starfsmenntun, til að mæta ofangreindum þörfum.

Í upphafi réði starfshópurinn Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. sem tæknilegan ráðgjafa til þess að fjalla um framkvæmdaáætlanirnar og vann Runólfur Maack vélaverkfræðingur að verkefninu í samvinnu við starfshópinn. Starfshópurinn skilaði fyrsta verkhluta um miðjan janúar 1996 og lokaskýrslu til ráðherra í lok mars 1996, tæpum þrem mánuðum eftir að nefndin hóf störf.

Ákveðið var að miða forsendur stóriðjuframkvæmda á árunum 1996 - 2002, við svokallaða sviðsmynd 2, en hún felur í sér nokkurs konar meðaltal allt frá litlum framkvæmdum til mjög viðamikilla. Sviðsmynd 2 felur í sér eftirfarandi iðjukosti: Stækkun Ísals, sem lokið yrði í árslok 1997. Lítið álver á Grundartanga (Columbia), gangsett 1997. Miðlungs iðjuver, eins og stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, gangsett í ársbyrjun 1999. Lítið ótilgreint iðjuver, gangsett í árslok árið 2000. Miðlungs ótilgreint iðjuver, gangsett í árslok 2002. Stórt álver, gangsett um áramótin 2002 og 2003.

Í skýrslu starfshópsins eru tillögur og ábendingar m.a. um mikilvægi þess að stuðla að samfellu í stórframkvæmdum og stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði og að stuðlað verði að nægu framboði vinnuafls sem uppfylli hæfniskröfur. Einnig að einstaka iðngreinar s.s. málmiðnaður sé nægjanlega öflugur til að geta tekist á við jafn umfangsmikil verkefni sem hér um ræðir. Í athugun nefndarinnar kom fram að borið hefði á vantrú erlendra aðila á möguleikum innlendra fyrirtækja á að fást við stórframkvæmdir á þessu sviði. Athyglisvert er í því sambandi að forráðamenn Alusuisse-Lonza tóku ákvörðun um að byggingarstjórn og nánast öll verkfræðileg hönnun yrði í höndum íslenskra verkfræðifyrirtækja og hefur sú ráðstöfun sannað gildi sitt nú þegar.

Einnig er bent á áhersluatriði og úrbætur sem á ýmsum sviðum s.s. hvað varðar að til staðar séu ávallt nýjar upplýsingar um mannafla, verktíma framkvæmda, mannaflaáætlanir, eflingu málmiðnaðar, eðli verkefna og undirbúningstíma, útboðsstefnu ríkisins og tækniþekkingu.

Í megin atriðum eru niðurstöður skýrslunnar þó eftirfarandi: 1) Framkvæmdir vegna stækkunar Ísals hafa ekki áhrif til þenslu á vinnumarkaði. 2) Verði fleiri stóriðjukostir ákveðnir er hætta á þenslu á vinnumarkaði, nema gripið verði til viðeigandi ráðstafana í tíma. 3) Vinna þarf að því að jafna sveiflur í mannaflaþörf á framkvæmdatímabilinu, sem lýst er í sviðsmynd 2 eða sambærilegri sviðsmynd. (Sjá viðauka 2 og 3 í skýrslu.) 4) Vegna stóriðjuframkvæmda verður að huga að hæfniskröfum og starfsmenntun í tíma, einkum í málmiðnaði. 5) Fjölga þarf tæknimenntuðum mönnum í verktaka- og tækjaiðnaði. 6) Tengja þarf útboðsstefnu hins opinbera markmiðum iðnþróun. 7) Áætlunargerð og umfjöllun sem þessi getur verið mikilvægt hagstjórnartæki fyrir stjórnvöld á öllum sviðum framkvæmda.

Í starfshópnum áttu sæti Baldur Pétursson, frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sem jafnframt gegndi formennsku, Andrés Svanbjörnsson frá Markaðsskrifstofu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins, Ingólfur Sverrisson frá Samtökum iðnaðarins og Örn Friðriksson frá Samiðn, sambandi iðnfélaga.

Það er von ráðuneytisins að skýrslan verði gott innlegg í umfjöllun og stefnumörkun sem mikilvægt er að fram fari á þessu sviði, ef takast á að tryggja samkeppnishæfni og hagsmuni innlends atvinnulífs og starfsfólks á sviði stóriðjuframkvæmda í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Baldur Pétursson deildarstjóri í iðnaðarráðuneytinu.

Reykjavík, 3. júní 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta