Utanríkisráðherrafundur NATO
Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu Nr. 049
Vorfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins var haldinn 3. júní í Berlín. Halldór Ásgrímsson sat fundinn fyrir Íslands hönd.
Megin mál fundarins voru: innri aðlögun bandalagsins í ljósi breyttra aðstæðna, framlag IFOR-friðargæsluliðsins í Bosníu-Hersegóvínu, samvinnu við ríki Mið- og Austur Evrópu í Norður-Atlantshafssamvinnuráðinu og Samstarfi í þágu friðar og loks samskiptin við Rússland og Úkraínu.
Á fundinum var tekin söguleg ákvörðun um breytingu á skipulagi bandalagsins, sem miðar að því að aðlaga það breyttu umhverfi í alþjóðamálum. Ákvörðun þessi felur í sér að Evrópuríkin fá aðgang að tækjum og öðrum búnaði Atlantshafsbandalagsins til aðgerða, t.d. á sviði friðargæslu, stjórnunar á hættutímum og brottflutningi borgara af hættusvæðum. Með þessari breytingu er skapaður raunhæfur möguleiki á að Evrópuríkin innan bandalagsins eða Vestur-Evrópusambandið bregðist við átökum eða hættuástandi án þátttöku aðildarríkjanna í Norður-Ameríku,
Bandaríkjanna og Kanada. Mun þetta styrkja mjög Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins og auka vægi Evrópu í varnar- og öryggismálum. Evrópuríkin binda miklar vonir við þessa breytingu sérstaklega þar sem það styrkir getu Atlantshafsbandalagsins og Evrópuríkja til að taka þátt í eða standa fyrir friðargæslu og öðrum friðarskapandi aðgerðum sem ekki tengjast gagnkvæmum varnarskuldbindingum bandalagsríkjanna.
Reynslan af samstarfi ríkja undir forystu Atlantshafsbandalagsins um friðargæslu IFOR í Bosníu-Hersegóvínu og Samstarfi í þágu friðar sýnir að þessar breytingar eru tímabærar.
Í ræðu sinni lýsti Halldór Ásgrímsson ánægju með þann árangur, sem náðst hefði í aðlögun Atlantshafsbandalagsins að nýjum aðstæðum. Forsendur hefðu skapast fyrir meiri og markvissari ábyrgð Evrópuríkja til að takast á við og leysa ný öryggisvandamál. Þetta mætti þó hvorki bitna á varnarskuldbindingum bandalagsins né veikja Atlantshafstengslin.
Utanríkisráðherra lagði einnig áherslu á að undirbúningur að stækkun Atlantshafsbandalagsins færi fram þannig að tekið yrði tillit til öryggishagsmuna þeirra ríkja, sem ekki fengju aðild í fyrstu lotu eða hygðust ekki gerast aðilar. Í því sambandi væri samskipti við Rússland og Úkraínu afar mikilvæg.
Samskiptin þyrfti að bæta þannig að engar efasemdir ríktu um markmið bandalagsins með stækkun sinni. Utanríkisráðherra lagði loks áherslu á að tekið yrði fullt tillit til öryggishagsmuna Eystrasaltsríkjanna.
Utanríkisráðherra bandalagsríkjanna héldu síðan sérstakan fund með utanríkisráðherra Rússlands, Yevgeny Primakov, í morgun. Fundurinn var afar jákvæður.
Í dag er haldinn í Berlín ráðherrafundur Norður-Atlantshafs-samvinnuráðsins. Þann fund sitja fulltrúar 44 ríkja og er þar skipst á skoðunum um almenna þróun öryggismála í Evrópu.
Utanríkisráðuneytið, Reykjavík, 4. júní 1996