Framkvæmd friðarsamnings í Bosníu-Hersegóvínu
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 053
Í dag lauk í Flórens á Ítalíu ráðstefnu þeirra ríkja og alþjóðastofnana, sem þátt taka í framkvæmd friðarsamningsins vegna
Bosníu-Hersegóvínu. Af Íslands hálfu sat Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fundinn/ráðstefnuna.
Sem kunnugt er hefur Ísland lagt af mörkum til alþjóðlega friðargæsluliðsins undir forystu Atlantshafsbandalagsins og
efnahagslegrar uppbyggingar, og hyggst einnig leggja fé til Öryggissamvinnustofnunnar Evrópu (ÖSE) sem ber ábyrgð á
undirbúningi og framkvæmd kosninga í landinu næsta haust.
Markmið ráðstefnunnar var tvíþætt; annars vegar að meta árangur af framkvæmdinni sl. 6 mánuði og hins vegar að skiptast
á skoðunum um framhaldið.
Um árangurinn síðustu sex mánuðina frá undirritun friðarsamningsins var það nær samhljóma álit að vel hefði tekist til með
framkvæmd hernaðarlega hluta samningsins, en síður hefði tekist til með hinn þáttinn, félagslega og efnahagslega
uppbyggingu. Þá er ástand mannréttinda afar bágborið, þó sýnu verst á svæði Serba.
Mikilvægasta skrefið á næstunni verður undirbúningur og framkvæmd lýðræðislegra kosninga í landinu 14. september
samkvæmt ákvæðum friðarsamningsins.
Ýmis flókin vandamál þarf að leysa fyrir þá dagsetningu, s.s. tryggja ferðafrelsi, hjálpa flóttamönnum að snúa heim og
koma á frjálsri fjölmiðlun. Einnig er mikilvægt að koma böndum á ákærða stríðsglæpamenn, sem kunna að hafa áhrif á
kosningarnar, þá einkum Bosníu-Serbana Karadzic, fyrrverandi forseta og Mladic hershöfðingja.
Bosníu-Serbar voru harðlega gagnrýndir, m.a. af dómforseta alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins, fyrir skort á samvinnu um
framsal meintra stríðsglæpamanna, sérstaklega þeirra Karadzic og Mladic.
Lögð var áhersla á að hraða þyrfti efnahagslegri uppbyggingu til að gera landið sjálfbjarga, en því verki hefur miðað hægt.
Erindisbréf alþjóðlega friðargæsluliðsins rennur út 14. desember nk. og komu fram talsverðar áhyggjur um framhaldið, því
almennt er talið ljóst að varanlegur friður verði ekki orðinn að veruleika á þeim tíma.
Svæðisbundin áhrif friðarsamkomulagsins voru einnig rædd. Margvíslegar aðgerðir, m.a. fyrir tilstuðlan ESB, eru í
burðarliðnum til að efla efnahagslega samvinnu á svæðinu, þ.e. Balkanskaga.
Jákvætt var að á fundinum tókst að fá deiluaðila til að undirrita samning um afvopnun og traustvekjandi aðgerðir.
Hjálagðar niðurstöður formanns ráðstefnunnar, Ítalíu, voru samþykktar í fundarlok með fáeinum fyrirvörum. Fundinn sátu
fulltrúar 43 ríkja og fjölda alþjóðasamtaka. Næsti fundur verður haldinn í árslok.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. júní 1996