Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 1996 Utanríkisráðuneytið

Loðnuveiðar danskra skipa

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 59


Vegna ágreinings þess sem upp er kominn milli Íslands og Danmerkur um loðnuveiðar danskra skipa á hafsvæði milli Íslands og Grænlands vill utanríkisráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Samkvæmt samningnum um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands frá 29. júní 1994 eru grænlenskum og norskum fiskiskipum heimilar veiðar með vissum takmörkunum í íslenskri lögsögu. Hið sama gildir um færeysk fiskiskip samkvæmt sérstöku samkomulagi. Fiskiskipum af öðru þjóðerni, þ.á m. dönsku, hafa hins vegar ekki verið heimilaðarloðnuveiðar í íslenskri lögsögu.

Í bókuninni frá nóvember 1988, sem dönsk stjórnvöld vísa til, felst engin viðurkenning á rétti Dana til veiða á hinu umdeilda svæði.

Íslensk stjórnvöld hafa virt og munu virða ákvæði framangreindrar bókunar. Þau munu í samræmi við þau ákvæði tilkynna dönskum stjórnvöldum áður en gripið verður til hugsanlegra fullnustuaðgerða gagnvart dönskum skipum á svæðinu.

Utanríkisráðuneytið er reiðubúið til viðræðna við dönsk stjórnvöld í því skyni að jafna ágreining ríkjanna.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 2. ágúst 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta