Viðræður Danmerkur/Grænlands og Íslands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 61
Viðræður fóru fram í Reykjavík 13. og 14. ágúst 1996 milli fulltrúa Danmerkur / Grænlands og Íslands um afmörkun fiskveiðilögsögu og landgrunns landanna.
Viðræðurnar voru vinsamlegar og jákvæðar. Ágreiningsatriði skýrðust og fram kom að báðir aðilar halda fast við grundvallarréttarstöðu sína.
Í ljósi aukinna veiða á svæðinu milli Grænlands og Íslands að undanförnu, sem gera má ráð fyrir að halda muni áfram , telja aðilar líkur hafa aukist á árekstrum sem dönsk / grænlensk og íslensk stjórnvöld gætu þurft að hafa afskipti af.
Aðilar telja óvíst hvort það fyrirkomulag á samstarfi, sem hingað til hefur verið við lýði í samskiptum þeirra á þessu sviði, dugi til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum.
Í ljósi framangreinds telja aðilar nauðsynlegt að leita frekari leiða til að finna varanlega lausn á ágreiningsmálum þeirra.
Á næstu dögum munu stjórnvöld landanna athuga þá kosti sem eru fyrir hendi og verða í nánu sambandi til að undirbúa næsta fund sem fram fer í Kaupmannahöfn fyrstu vikuna í september.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. ágúst 1996.