Ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 18/1996
Iðnaðarráðherra hefur í dag ákveðið að setja Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum til að gegna störfum ráðuneytisstjóra í ráðuneytunum frá 12. september n.k. til áramóta í stað Þorkels Helgasonar sem hefur verið skipaður orkumálastjóri.
Halldór hóf störf í ráðuneytinu haustið 1981 og var skipaður skrifstofustjóri í ráðuneytinu 1. júní 1989. Halldór starfaði við Evrópubankann í London á tímabilinu 15. apríl 1991 til 1. september 1994 og tók þá að nýju við starfi skrifstofustjóra í ráðuneytinu.
Halldór lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands vorið 1979 og lauk L.L.M. gráðu í alþjóðalögfræði frá New York háskóla vorið 1981. Halldór hefur á liðnum árum gegnt formennsku í fjölmörgum nefndum á vegum stjórnvalda og stjórnarformennsku í iðnfyrirtækjum og sjóðum með ríkisaðild.
Eiginkona Halldórs er Karólina F. Söebech, stjórnmálafræðingur og eiga þau tvö börn.
Reykjavík, 6. september 1996