Viðræður við hollensk orkufyrirtæki og stjórnvöld um orkumál
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 1/1997
1. Viðræður við hollensk stjórnvöld
Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Hans Wijers, efnahagsmálaráðherra Hollands áttu fund í Haag 15. þ.m. þar sem farið var yfir samskipti Íslands og Hollands á sviði orkumála og mál er varða framkvæmd tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlegan raforkumarkað í Evrópu. Hollensk yfirvöld eru í formennsku fyrir Evrópusambandið á árinu 1997. Af Íslands hálfu var lögð áhersla á sérstöðu íslensks raforkumarkaðar, sem eðlilegt væri að taka tillit til.
Á fundinum var sérstaklega rætt um áherslu hollensku ríkisstjórnarinnar á að skapa sérstakan markað fyrir raforku sem framleidd er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, en slík orka er nú þegar seld á hærra verði en önnur orka. Ríkisstjórnin hyggst auka hlut slíkrar orku, sem er nú um 1-2% af heildarnotkun, í 10% árið 2010. Í því sambandi var rætt um tengingu íslenskra raforkukerfisins við orkumarkaði í Evrópu og sölu á raforku frá Íslandi um sæstreng til hollenskra orkufyrirtækja. Ákveðið var að taka upp nánara samstarf milli stjórnvalda og Hollands og Íslands til að auka á samskipti þjóðanna í atvinnuppbyggingu.
2. Viðræður við hollensk orkufyrirtæki
Í tengslum við fund iðnaðar- og viðskiptaráðherra og efnahagsmálaráðherra Hollands fóru þann 14. og 15. janúar sl. fram viðræður milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og þeirra þriggja fyrirtækja sem eiga aðild að ICENET-hópnum. Fyrirtækin hafa á undanförnum árum kannað hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu með það að markmiði að bjóða raforku framleidda úr endurnýjanlegum orkulindum á markaði í Hollandi. Af Íslands hálfu var lögð sérstök áhersla á að fram færi heildarathugun á verkefninu í samstarfi við þau orkufyrirtæki í Hollandi og Þýskalandi sem sýnt hafa málinu áhuga. Eftirfarandi þættir yrðu lagðir til grundvallar frekari ákvörðunar af Íslands hálfu:
- Jákvæð áhrif raforkuflutnings um sæstreng á uppbyggingu orkuiðnaðar á Íslandi og betri nýtingu orkulindanna út frá íslenskum hagsmunum.
- Jákvæð áhrif sæstrengs á möguleika samningsaðila til að uppfylla framtíðarskuldbindingar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um að draga úr losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum.
Fyrsti sameiginlegi fundur íslenskra stjórnvalda, ICENET hópsins, þýskra og breskra orkufyrirtækja, sem einnig hafa átt aðild að athugun á lagningu sæstrengs, verður væntanlega haldinn í Reykjavík í mars. Á þeim fundi verða teknar ákvarðanir um áframhaldandi undirbúningsstarf.
Á fundinum með hollensku orkufyrirtækjunum var jafnframt rætt um þátttöku þeirra í smærri orku- og iðnaðarverkefnum á íslandi m.a. þátttöku í fjárfestingarverkefnum á Austurlandi og aðild að íslenska Jarðgufufélaginu.
Reykjavík,
17. jan 1997.