Hoppa yfir valmynd
20. janúar 1997 Utanríkisráðuneytið

Endurbætur á efnahags- og félagsmálastarfi Sþ

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 002

Síðdegis í gær, 20. janúar, áttu fastafulltrúar Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum í New York fund með Kofi Annan, framkvæmdastjóra samtakanna. Kynntu þeir honum sameiginlega skýrslu Norðurlandanna um endurbætur á efnahags- og félagsmálastarfi Sameinuðu þjóðanna, einkanlega á sviði þróunarmála, sem er umfangsmesti þáttur starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan hefur verið gefin út á ensku á vegum þeirra norrænu ráðuneyta, sem fara með þróunarmál.
Leitast er við að svara því, á hvaða hátt hægt sé að styrkja og endurbæta starf samtakanna, svo þau fái betur sinnt hlutverk sínu á sviði efnahags- og félagsmála, einkanlega þróunarmála. Leitast er við að greina og vinna úr hugmyndum um endurbætur og gagnleg skoðanaskipti hafa farið fram við fulltrúa þróunarlandanna.
Lagt er til, að starf Sameinuðu þjóðanna að þróunarmálum verði styrkt með því að samræma starfsemi þeirra fjölmörgu stofnana í þróunarlöndunum, sem eru starfandi þar á vegum samtakanna, s.s. Þróunarstofnunin (UNDP), Barnahjálpin (UNICEF), Mannfjöldasjóðurinn (UNFPA), Matvælaáætlunin (WFP), Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO). Norðurlöndin telja, að verði starfsemi þessara stofnana í einstökum þróunarlöndum samræmd, t.d. með sameiginlegri stjórn og samræmingu áætlana, nái þær betri árangri.
Talið er nauðsynlegt að styrkja stjórn aðildarríkja S.þ. á þróunarstarfi samtakanna, einkanlega á vettvangi allsherjarþingsins, Efnahags- og félagsmálaráðsins (ECOSOC) og í stjórn stofnana.
Styrkja þarf fjárhagsgrundvöll og fjármögnun á sviði þróunarmála, auka hagræðingu og setja langtímamarkmið. Leita þarf nýrra fjáröflunarleiða og hvetja aðildarríki til aukinna frjálsra framlaga. Ennfremur þarf að innleiða nútímalegri aðferðir í skrifstofu- og starfsmannahaldi, með það fyrir augum að auka virkni í rekstri.
Lögð er áhersla á aukna samvinnu stofnana S.þ., alþjóðabankastofnana og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Í tillögunum er gert ráð fyrir eflingu Efnahags- og félagsmálaráðsins (ECOSOC), einkum hvað varðar getu þess til að leggja á ráðin um störf undirstofnana og sérstofnana og hlutverks þess sem samræmingaraðila skýrslugerðar. Leitast verði við að forðast tvíverknað gagnvart allsherjarþinginu og nefndum þess. Einnig er lögð áhersla á hlutverk ráðsins sem umsjónaraðila með framkvæmd niðurstaðna stórráðstefna S.þ., og helstu áætlunum S.þ. á sviði efnahags- og félagsmála. Þá er einnig lagt til, að framkvæmdaþáttur ráðsins verði styrktur og ráðið kallað saman, þegar þörf þykir.
Norðurlöndin vinna nú að því að kynna hugmyndir sínar fyrir aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og er fyrirhugað að þær verði sameiginlegt framlag þeirra í umbótastarfið, sem farið hefur fram innan stofnunarinnar undanfarin misseri.
Meðfylgjandi þessari fréttatilkynningu er eintak af greinargerðinni á ensku.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 21. janúar 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta