Áfangaskýrsla um íslenska fiskvinnslu
FRÉTTATILKYNNING
Áfangaskýrsla um íslenska fiskvinnslu
Þann 15. nóvember s.l skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna helstu þætti í starfsumhverfi fiskvinnslu og til að fjalla um framtíðarmöguleika hennar. Í nefndinni eiga sæti, Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Ágúst H. Elíasson, framkvæmdastjóri, Elínbjörg Magnúsdóttir, fiskverkakona, Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri og Logi Þormóðsson, fiskverkandi. Starfsmenn nefndarinnar eru þeir Ásgeir Daníelsson og Gunnar Haraldsson hagfræðingar á Þjóðhagsstofnun.
Nefndin hefur nú skilað áfangaskýrslu til ráðherra en gert er ráð fyrir að hún skili lokaskýrslu um starf sitt í marsmánuði.
Í áfangaskýrslunni eru settar fram tölulegar upplýsingar um ýmsa þætti er lúta að starfsemi fiskvinnslu og sjávarútvegssins í heild. Varðandi afkomumál sjávarútvegsins kemur fram að greinin í heild var rekin með um 1,3% hagnaði miðað við rekstrarskilyrði í desember s. l. samanborið við 0,5% halla í ágústmánuði. Jafnframt kemur fram að rekstrarskilyrði botnfiskvinnslu hafa batnað á undanförnum mánuðum en áætlað er að halli á botnfiskvinnslu hafi numið um 4,6% af tekjum miðað við rekstrarskilyrði í desember s. l. samanborði við 8,5% halla í ágúst. Þá kemur fram að botnfiskafli hefur dregist saman um 27,9% frá árinu 1988 til ársins 1995 en framleiðsla af landunnum botnfiski hefur minnkað heldur minna eða um 26%.
Nefndin leggur áherslu á að halda núverandi stefnu í gengismálum og að stefnan í ríkisfjármálum eigi að stuðla að því að halda vöxtum í sem mestu samræmi við það sem er í helstu viðskipalöndum. Þá telur nefndin brýnt að skattar á sjávarútveginn séu ekki hærri en í grannlöndunum.
Í umfjöllun um verðmyndunarkerfið á fiski uppúr sjó er lögð áhersla á að verð eigi að vera frjálst, eins og nú er, en leita þurfi leiða til að það taki meira mið af gæðum hráefnisins.
Til að tryggja aukna framleiðni í fiskvinnslu þá telur nefndin að leggja beri áherslu á að stórbæta menntun og starfsþjálfun á öllum starfssviðum í sjávarútvegi. Á það við um menntun á öllum stigum.
Með áfangaskýrslu nefndarinnar fylgir skýrsla sem danska ráðgjafafyrirtækið Matcon vann fyrir nefndina um íslenska fiskvinnslu. Nefndin hefur ekki fjallað um skýrslu ráðgjafafyrirtækisins og er efni hennar því alfarið á ábyrgð fyrirtækisins. Meginniðurstaðan í skýrslu danska ráðgjafafyrirtækisins Matcon er að margt megi bæta í starfsemi íslenskra fiskvinnslufyrirtækja. Ráðgjafafyrirtækið telur að sterkasta vopn landvinnslunnar í samkeppninni um hráefnið sé að auka framleiðslu á verðmeiri afurðum. Þá er í skýrslunni m.a. talið sýnt að bæta megi stjórnun fiskvinnslufyrirtækja, nýtingu afkastagetu, framleiðni vinnuafls og ýmis atriði í skipulagi greinarinnar.
Sjávarútvegsráðuneytið,
22. janúar 1997
22. janúar 1997