Samningur um loðnuveiðar innan lögsögu Íslands og Grænlands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 013
Í dag undirrituðu Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Lars Emil Johansen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, yfirlýsingu þess efnis að Ísland og Grænland hefðu staðfest samning milli landanna um loðnuveiðar innan íslenskrar og grænlenskrar lögsögu sem gerður var í Nuuk 20. febrúar sl.
Samkvæmt samningnum er grænlenskum loðnuskipum heimilt að veiða í lögsögu Íslands allt að 8.000 lestir af loðnu af loðnukvóta Íslands á loðnuvertíð þeirri sem lýkur í lok apríl nk.
Á móti verður íslenskum loðnuskipum heimilt að veiða 8.000 lestir af loðnu úr þeim kvóta, sem kemur í hlut Grænlands, á loðnuvertíð þeirri sem hefst í júlí nk. Þá verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 8.000 lestir af heildarkvóta Íslands sunnan 64°30'N við Austur-Grænland, en samkvæmt gildandi samningi milli Noregs, Íslands og Grænlands um nýtingu loðnustofnsins hafa loðnuveiðar verið íslenskum skipum óheimilar á því svæði.
Reykjavík, 28. febrúar 1997