Staða íslensks tónlistariðnaðar
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 8/1997
14. maí 1996, skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samráði við menntamálaráðherra, starfshóp til að kanna stöðu íslensks tónlistariðnaðar með tilliti til aukins útflutnings. Hópurinn hefur nú skilað niðurstöðu sinni og fylgir hún hér með í skýrsluformi.
Meginniðurstaða hópsins er að möguleikar íslensks tónlistariðnaðar á alþjóðlegum mörkuðum hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en nú og að full ástæða sé til að nýta þá stöðu með öflugri markaðssókn. Til að svo geti orðið telur hópurinn hins vegar að til þurfi að koma breytt viðhorf til greinarinnar innanlands. Tryggja þurfi stöðu tónlistar sem iðngreinar en jafnframt að meta hana í menningarlegu tilliti, því framleiðsla er engin án listarinnar og listinni verður ekki miðlað án iðngreinarinnar. Meðal tillagna hópsins er:
- Að stjórnvöld viðurkenni þá mismunun sem nú á sér stað milli listgreina með innheimtu virðisaukaskatts, með því að gefa eftir hluta hans við sölu íslenskra hljómplatna. Árlega verði reiknaður út mismunur þess skatts sem innheimtur er af sölu íslenskra hljómplatna nú og ef hann væri sambærilegur og á bókum. Mismunurinn verði settur í sjóð sem styðji við útflutning íslenskrar tónlistar.
- Lögð er áhersla á að greinin njóti jafns aðgangs við aðrar greinar að fyrirhuguðum Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóði.
- Hvatt er til allsherjar samræmingar í skattheimtu af skapandi listgreinum og að í því tilliti verði höfð hliðsjón af þeirri þróun sem nú á sér stað í Evrópu.
- Íslenskir ljósvakamiðlar eru hvattir til að marka sér framtíðarstefnu sem miði að aukinni hlutdeild íslenskrar tónlistar í dagskrá þeirra. Bent er á nauðsyn þess að utanríkisþjónustan og Útflutningsráð komi í auknum mæli til aðstoðar við kynningu og markaðssetningu á íslenskri tónlist.
- Aðilar tónlistariðnaðarins eru hvattir til sameiningar í einum samtökum er tali röddu þeirra allra.
Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var í dag var samþykkt að fela Iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa vinnuhóp er fái það hlutverk að meta, útfæra og fylgja eftir tillögum starfshópsins. Hópurinn verði skipaður fulltrúum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs og tónlistariðnaðarins. Gengið verður frá skipun hópsins á næstu dögum.
Reykjavík, 2. apríl 1997.