Hoppa yfir valmynd
14. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

Heimsókn José Ramos-Horta

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 29

Halldór Ásgímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með José Ramos-Horta, sem verið hefur helsti baráttumaður á alþjóðavettvangi fyrir réttindum íbúa Austur-Tímors síðan landið var hernumið af Indónesíumönnum árið 1975. Ramos-Horta fékk friðar-verðlaun Nobels í ár ásamt Carlos Felipe Ximines Belo biskupi fyrir baráttu þeirra fyrir réttindum íbúa Austur-Tímor.

Á fundinum ítrekaði utanríkisráðherra stuðning íslenskra stjórnvalda við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Austur-Tímors í samræmi við þjóðarétt og viðleitni á alþjóðavettvangi til að stöðva mannréttindabrot á Austur-Tímor.

Sameinuðu þjóðirnar hafa látið málefni Austur-Tímor til sín taka með ýmsum hætti og fjallað hefur verið um Austur-Tímor á vettvangi S.þ. öðru hverju síðan 1975. Ísland hefur stutt ályktanir um sjálfsákvörðunarrétt eyjaskeggja í samræmi við þjóðarétt og telur rétt að halda opnum möguleika til að taka málið á dagskrá allsherjarþingsins.

Á fundinum minntist utanríkisráðherra á að Ísland hefur gerst meðflutningsaðili að tillögu ESB á 53. þingi mannréttindaráðsins í Genf, þar sem ástand mannréttinda á Austur-Tímor sætir gagnrýni.

Í tillögunni er meðal annars vísað til þess, að öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna ber að virða mannréttindi í samræmi við sáttmála samtakanna og mannréttindayfirlýsinguna. Minnt er á, að Indónesía sé aðili að samningnum um réttindi barnsins og samningnum gegn allri mismunun gagnvart konum. Vísað er til ályktunar þings mannréttindaráðsins nr. 97 frá 11. mars 1993 um mannréttindaástandið á Austur-Tímor og yfirlýsinga formanns mannréttindaráðsins um sama efni á 48., 50., 51. og 52. þingi ráðsins.

Jafnframt er nýrri skýrslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um ástandið á Austur-Tímor og skipan sérstaks fulltrúa vegna Austur-Tímors fagnað. Ennfremur starfi mannréttindaskrifstofu Indónesíu og skuldbindingum Indónesíustjórnar til að halda áfram viðræðum undir forystu framkvæmdastjóra, til að finna lausn á vandanum varðandi Austur-Tímor.

Lýst er yfir miklum áhyggjum vegna frétta af mannréttindabrotum á Austur-Tímor, þ. m. t. aftökur án dóms og laga, pyntingar, fangelsanir og brottnám. Ennfremur vegna þess, að stjórnvöld í Indónesíu hafa lítið aðhafst í samræmi við skuldbindingar sínar á þingi mannréttindaráðsins og hafa ekki boðið fulltrúum ráðsins til að athuga ástandið á Austur-Tímor, þrátt fyrir að hafa skuldbundið sig til þess.

Stjórnvöld í Indónesíu eru hvött til að virða mannréttindi og eiga fullt samstarf við ráðið og mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um athugun á ástandinu á Austur-Tímor.

Ennfremur upplýsist, að Íslendingar greiddu atkvæði með ályktun allsherjarþingsins 1982 (37/30), þar sem framkvæmdastjóra S.þ. er falið að hafa samráð við alla málsaðila um allsherjarlausn, og sérnefndinni um framkvæmd yfirlýsingarinnar um sjálfstæði nýlendna er falið að halda áfram að fjalla ítarlega um málið. Íslendingar hafa verið í hópi þeirra ríkja, sem hafa á vettvangi S.þ. gagnrýnt mannréttindabrot Indónesíumanna á eynni, þ.m.t. í ræðu fastafulltrúa við upphaf 49. allsherjarþingsins 1994.

Fyrir frumkvæði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hefur reglubundnum viðræðum Indónesíu og Portúgal og fulltrúa Tímorbúa um pólitíska framtíð Austur-Tímor verið haldið áfram á ráðherrastigi. Áttundi fundur um málið var haldinn með utanríkisráðherrum Indónesíu og Portúgals í júní 1996. Nýr, framkvæmdastjóri, Kofi Annan, hefur tilnefnt sérstakan fulltrúa sinn til að fjalla um málefni Austur-Tímor og látið gera nýja skýrslu fyrir 53. þing mannréttindaráðs S.þ. (Human Rights Commission), sem nú stendur yfir í Genf, um mannréttindaástandið í landinu, þar sem yfirvöld í Indónesíu eru gagnrýnd fyrir mannréttindabrot.

Hinn 11. júlí 1996 ítrekuðu íslensk stjórnvöld, ásamt aðildarríkjum ESB og nokkrum öðrum ríkjum, stuðning við afstöðu þá, sem ESB tók hinn 27. júní 1996, en þar er hvatt til viðræðna um viðunandi lausn málsins, sem virði hagsmuni íbúa Austur-Tímors í samræmi við alþjóðarétt. Einnig er Indónesíustjórn hvött til að gera ráðstafanir til að bæta ástand mannréttinda á eynni.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 14. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta