Hoppa yfir valmynd
15. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

Þátttaka Íslands í löggæslu S.þ. í Bosníu-Hersegóvínu

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 30

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu utanríkisráðherra um þátttöku af Íslands hálfu í löggæslu Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu, "International Police Task Force". Í tillögunni felst að þrír íslenskir lögreglumenn verða sendir til liðs við danska lögreglusveit sem þegar er komin til starfa í Bosníu.
Á grundvelli Dayton samkomulagsins um frið í Bosníu-Hersegóvínu og í umboði Sameinuðu þjóðanna er nú unnið að því að treysta alþjóðlegt samstarf á sviði lögreglueftirlits í Bosníu-Hersegóvínu. Grundvallarmarkmið samstarfsins er að koma á sjálfstæðum innlendum lögreglusveitum, er starfað geti á óvilhallan hátt og komið á lögum og reglu. Alþjóðlegu sveitirnar fylgjast með uppbyggingu og árangri innlendrar lögreglu, taka þátt í eftirlitsstarfi með innlendum sveitum og annast jafnframt hvers konar þjálfun og veita ráðgjöf á sviði lögreglueftirlits.
Samstarfið í Bosníu-Hersegóvínu hófst snemma árs 1996, en einkenndist í upphafi af margvíslegum erfiðleikum í framkvæmd, einkum vegna skipulagsleysis innlendra lögreglusveita og innbyrðis tortryggni fyrrum stríðsaðila. Umboð lögreglusveitanna til aðgerða á vettvangi var einnig mjög takmarkað. Á grundvelli nýs umboðs Sameinuðu þjóðanna frá 21. desember síðastliðnum, er alþjóðlega lögregluliðinu falið aukið hlutverk. Er sveitunum meðal annars falið að rannsaka meint brot innlendra lögreglusveita á mannréttindum og mæla með því að innlendar lögreglusveitir sem orðið hafa uppvísar að spillingu og brotum á friðarsamkomulaginu, verði leystar upp. Alþjóðlegu lögreglusveitirnar munu áfram verða óvopnaðar. Ráðgerður heildarfjöldi í lögreglusveitum Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu er 1700 manns.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 15. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta