Hoppa yfir valmynd
23. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

Fundur um málefni Alþjóðabankans

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 33

Dagana 24. og 25. apríl fer fram á vegum utanríkisráðuneytisins fundur um málefni Alþjóðabankans, sem sóttur er af fulltrúum frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, auk þátttakenda frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðuneytið heldur slíkan samráðsfund eftir að ráðuneytið tók við umsjón málefna Alþjóðabankans af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í fyrra.

Þróunarmálefni og aðstoð Alþjóðabankans við þróunarlöndin verður helsta umræðuefni fundarins. Sérstakur gestur á fundinum verður Ali Bourhane, sem er einn af framkvæmda-stjórum Alþjóðabankans í Washington. Hann mun fjalla um þróunar- og uppbyggingarmál í Afríku (Partnership for Capacity Building in Africa). Ali Bourhane, sem er frá Comoroseyjum, er aðalfulltrúi á þriðja tug þróunarríkja í Alþjóðabankanum, sbr. meðfylgjandi lífshlaup hans.

Fundurinn í Reykjavík er í tengslum við fund þróunarmálanefndar Alþjóðabankans, sem haldinn verður í Washington 29. apríl, en utanríkisráðherra situr í forsæti fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í nefndinni. Þróunarmálanefndin fjallar um og mótar stefnu í þeim málaflokkum, sem eru efst á baugi í starfi Alþjóðabankans hverju sinni. Ríkin átta reka sameiginlega skrifstofu í Alþjóðabankanum.

Til umræðu á fundinum verða einnig málefni sérstaks átaks í þágu skuldsettustu ríkjanna (Heavily Indebted Poor Countries Initative), málefni Alþjóðlegu fjárfestingar-ábyrgðarstofnunarinnar (MIGA), málefni Þróunarbanka Afríku (ADB), auk ýmissa mála er tengjast samstarfi ríkjanna í starfi bankans.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 23. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta