Fundur Halldórs Ásgrímssonar með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 37
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti fund með William Cohen, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og starfsliði hans í Pentagon, Washington D.C. á miðvikudag 30. apríl, 1997.
Á fundinum lýstu báðir aðilar ánægju sinni með framkvæmd varnarsamnings þjóðanna frá 1951 og voru sammála um mikilvægi Íslands sem hlekks í þeirri keðju sem tengir Bandaríkin og Kanada við Evrópu. Rætt var um fyrirhugaða stækkun Atlantshafsbandalagsins í kjölfar leiðtogafundarins í Madríd í sumar. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að þess yrði sérstaklega gætt að þær þjóðir sem ekki verður boðin aðild að bandalaginu í fyrstu umferð fái ótvíræða staðfestingu á því að bandalagið verði áfram opið nýjum aðildarríkjum. Utanríkisráðherra lagði einnig áherslu á að skilyrði fyrir aðild að Atlantshafsbandalaginu yrðu að vera hin sömu fyrir öll umsóknarríki og að ekki mætti aðskilja öryggi Eystrasaltsþjóðanna frá öryggismálum Evrópu almennt.
Af hálfu Bandaríkjamanna kom fram sérstök ánægja með framlag Íslands við enduruppbyggingu Bosníu og þátttöku íslenskra lækna, hjúkrunarfólks og lögreglumanna við hjálparstörf þar. Almennt var rætt um friðarsamstarf Atlantshafsbandalagsins (PfP) og frekari þróun þess í framtíðinni. Varðandi almannavarnaræfinuna SAMVÖRÐ 97, sem haldin verður á Íslandi í júlí n.k., var það skoðun beggja að æfingin væri vissulega táknræn fyrir þær breytingar sem orðnar eru í öryggismálum Evrópu. Æfingin væri m.a. markverð fyrir það að vera sú fyrsta innan friðarsamstarfs NATO sem snýst um viðbrögð við náttúruhamförum. Áréttuðu Bandaríkjamenn það sérstaklega að þeir teldu æfinguna mikilvægt framlag til friðar og öryggis í Evrópu.
- Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 1. maí, 1997