Ársskýrsla OECD
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 46
Ársskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahagsmál Íslands verður birt opinberlega í dag.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir, að vel hafi árað í íslenskum þjóðarbúskap síðustu 3 árin. Landsframleiðsla hafi aukist um 5,7% árið 1996 en það sé mesti hagvöxtur sl. áratug og með því hæsta, sem gerist innan OECD. Búist sé við allt að 5% hagvexti á þessu ári. Atvinnuleysi, sem hafi verið 5% árið 1995 hafi lækkað um eitt prósentustig og gæti farið niður í 3,5% árið 1998. Verðbólga hafi farið vaxandi og spenna á vöru- og þjónustumarkaði gæti aukist og með vaxandi launakostnaði gæti verðbólgan náð aftur 3% árið 1998 í fyrsta sinn síðan 1993.
Hvatt er til aðhalds í ríkisfjármálum. Ríkisfjármálastefnan hafi ekki verið eins aðhaldssöm og stefnt hafi verið að. Verði efnahagsumsvif mun meiri en fjárlög reikni með, eins og spár OECD geri ráð fyrir, þurfi að tryggja að efnahagsstöðugleikann, afkomu ríkissjóðs og viðunandi jöfnuð í viðskiptum við útlönd.
Hallalaus ríkisbúskapur á þessu ári væri í sjálfu sér verulegur árangur og tryggði að staða ríkismála á Íslandi væri með því besta sem gerist innan OECD.
Lagt er til í skýrslunni að aðhald í peningamálum verði aukið til að verna víxilhækkunum verðlags og launa með því að hækka vexti og auka sveigjanleikann í gengismálum. Í skýrslunni er einnig fjallað um menntamálin á Íslandi og fyrirkomulagið á vinnumarkaði.
Hér með fylgir eintak af skýrslunni og þýðing Þjóðhagsstofnunar á niðurstöðum hennar.
Utanríkisráðuneytið,
22. maí 1997