Hoppa yfir valmynd
3. júní 1997 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ. á Íslandi

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 54

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra undirritaði í dag, ásamt rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna (United Nations University) í Tokýó, dr. Heitor Gurgulino de Souza, samkomulag um starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ. á Íslandi. Hafrannsóknastofnun er jafnframt aðili að samkomulaginu.
Undirbúningur að stofnun Sjávarútvegsskólans hefur staðið í tvö ár og er gert ráð fyrir að fyrstu nemendurnir komi til náms á næsta ári, 1998. Ætlunin er, að þeir hljóti þjálfun á sem flestum sviðum sjávarútvegs, þ.e. á sviði rannsókna, veiða, vinnslu og markaðssetningar. Stofnun Sjávarútvegsskólans er mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni íslenskra stjórnvalda að aðstoða þróunarlönd við uppbyggingu fiskiðnaðar.
Forstjóri Hafrannsóknastofnunar er samkvæmt samkomulaginu formaður stjórnar skólans. Í stjórn verða einnig fulltrúar stjórnvalda, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðar og sjávarútvegsins.
Dr. Heitor Gurgulino de Souza rektor, sem heimsótti Ísland í tilefni af undirrituninni, mun láta af störfum hjá Háskóla S.þ. í september og verður þetta því síðasta heimsókn hans til Íslands í núverandi stöðu. Við starfi hans tekur Hans van Ginkel, hollenskur prófessor.
Sjávarútvegsskólinn er annað verkefnið, sem Íslendingar takast á hendur í samvinnu við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en síðan 1972 hefur Jarðhitaskóli Háskóla S.þ. verið starfræktur á Íslandi.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 3. júní 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta