Taka Sigurðar VE við Jan Mayen
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 55
Norska varðskipið Nordkapp tók í gær nótaskipið Sigurð VE 15 á síldarmiðunum við Jan Mayen fyrir meint brot á reglum um tilkynningaskyldu og færslur í afladagbók. Skipið hefur leyfi til síldveiða við Jan Mayen. Enginn afli var um borð, en skipið veiddi síðast síld 27. maí. Skipstjórinn telur sig hafa fylgt öllum reglum um tilkynningaskyldu og aflaskráningu.
Skipherra norska varðskipsins sendi í gær menn um borð í Sigurð VE 15 og gaf fyrirmæli um að skipið skyldi fært til hafnar í Noregi. Eftir samráð útgerðar skipsins og íslenskra stjórnvalda voru vélar skipsins stöðvaðar nokkru eftir miðnætti. Skipin héldu kyrru fyrir á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs fram til kl. 6 í morgun, en þá tók norska varðskipið Sigurð VE 15 í tog og sigldi áleiðis til Noregs.
Íslensk stjórnvöld hafa borið fram harðorð mótmæli við norsk stjórnvöld vegna þessa atburðar og krafist þess að skipið verði þegar í stað látið laust.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 7. júní 1997