80 milljónir króna til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 10/1997
80 milljónir króna til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni - 36 verkefni hljóta styrki
Á fundi ríkisstjórnar 5. júní síðastliðinn var samþykkt tillaga iðnaðar- og viðskiptaráðherra um ráðstöfun 80 milljóna króna til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni, einkum þeim svæðum sem ekki njóta góðs af uppbyggingu á sviði stóriðju og virkjana.
Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1997 lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra það til við ríkisstjórn að heimilt yrði að ráðstafa 80 milljónum króna, eða því sem næst áætluðum arði ríkisins af rekstri Landsvirkjunar á síðasta ári, til eflingar atvinnulífs á landsbyggðinni. Tillagan var samþykkt og var ráðherra falið að gera tillögur til ríkisstjórnar um með hvaða hætti fjármununum skyldi varið.
Með samþykkt ríkisstjórnar frá í síðustu viku, liggur fyrir hvaða verkefni munu njóta stuðnings. Er þar bæði um að ræða verkefni sem miða að aukinni erlendri fjárfestingu, jafnt á sviði stóriðju sem í öðrum greinum, en einnig fjölda smærri verkefna sem taka til flestra atvinnugreina.