Hoppa yfir valmynd
13. júní 1997 Utanríkisráðuneytið

Ársfundur CITES í Harare í Zimbabwe

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 56

Þessa dagana stendur yfir ársfundur CITES (alþjóðasáttmáli um verslun með tegundir í útrýmingarhættu) en að þessu sinni er hann haldinn í Harare í Zimbabwe. Af hálfu Íslands sækja fundinn sem áheyrnarfulltrúar þeir Jóhann Sigurjónsson, sendiherra, Arnór Halldórsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og Sigurður Ármann Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu. Er þetta í fyrsta sinn sem íslensk sendinefnd sækir ársfund CITES.

Í yfirlýsingu íslensku sendinefndarinnar sem flutt var 10. júní sl. var lögð áhersla á að aðlaga störf stofnunarinnar að svæðisbundnum lausnum á þeim vandamálum sem tengjast sjálfbærri þróun lifandi auðlinda. Var sérstaklega bent á þá þróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði varðandi stjórnun lifandi auðlinda hafsins sem meðal annars kemur fram í hinum nýja Úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þessu sambandi lýsti sendinefndin yfir andstöðu Íslands við stofnun sérstakrar vinnunefndar á vegum CITES til að fjalla um sjávarfiska í útrýmingarhættu.

Sendinefndin lýsti yfir samúð með sjónarmiðum þeirra Afríkuríkja sem berjast fyrir því að viðskiptabanni fyrir afurðir fíla verði aflétt enda gildir bannið á heimsvísu og tekur ekki á einn eða neinn hátt tillit til mismunandi ástands fílastofna eftir svæðum. Þá var lýst yfir fullum stuðningi við tillögu sem lögð hefur verið fram á ársfundinum um að fjarlægja hrefnu af lista yfir dýr i útrýmingarhættu.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 13. júní 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta