Hoppa yfir valmynd
13. júní 1997 Matvælaráðuneytið

Veiðar krókabáta


Veiðar krókabáta

Eins og kunnugt er voru gerðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða vorið 1996, varðandi veiðar krókabáta.

Höfuðatriði þeirra breytinga var að hlutfallstengja fastar heildarþorskaflaheimildir krókabáta í tonnum talið (21.500 lestir) við þágildandi heildarþorskafla (155.000 lestir). Þannig að þorskaflaheimildir krókabáta færu vaxandi umfram það sem áður var ráðgert, með vaxandi heildarþorskafla. Myndu vera 13,9% af heild í stað fastrar tonnatölu áður.

Nú er komið í ljós að þetta samkomulag mun hafa í för með sér um 41% hækkun veiðiheimilda krókabáta í þorski á tveimur fiskveiðiárum. Úr 21.500 lestum fiskveiðiárið 1995/1996 í 30.302 lestir fiskveiðiárið 1997/1998.

Hlutdeild einstakra krókabáta í heildarþorskafla þeirra er byggð á meðal veiðireynslu þeirra tvö bestu árin af þremur, á almanaksárunum 1992, 1993 og 1994. Eigendum krókabáta gafst fyrir upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs kostur á að velja þá hlutdeild sem einstaklingsbundið þorskaflahámark og njóta frelsis í veiði á öðrum tegundum. Eða að leggja veiðireynslu sína í sameiginlegan pott í öðrum af tveimur aðgreindum hópum krókabáta á dagatakmörkunum.

Val krókabáta á veiðikerfum þróaðist þannig að meirihluti bátanna, með um 82% af veiðireynslunni, valdi þorskaflahámark. Í sóknardagshópunum eru veiðiheimildir á hvern bát mun minni að meðaltali, eða innan við 10 lestir á bát í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs.

Eins og meðfylgjandi upplýsingar bera með sér blasir því við mikil fækkun veiðidaga hjá sóknardagabátum á næsta fiskveiðiári. Er það raunar í samræmi við eldri spár um fyrirsjáanlega þróun í sóknardagakerfunum.

Með hliðsjón af þessu var gerð sú breyting á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins í desember síðast liðinn að framlengja enn tilboð um úreldingar krókabáta á sóknardögum, til 1. júlí n.k. Er þetta gert til að koma til móts við þann fjárhagsvanda sem blasir við mörgum eigendum sóknardagabáta vegna fækkunar sóknardaga. Samkvæmt tilboðinu er greitt 80% af markaðsverði báts gegn afsali leyfis til veiða í atvinnuskyni og afsali endurnýjunarréttar, en eigendur halda bátum sínum til annarra nota.

1. Sóknardagabátar.

Fjöldi krókabáta sem stunda veiðar á sóknardögum og þorskaflaheimildir þeirra á fiskveiðiárinu 1996/1997:

Veiðikerfi
Fjöldi báta
1. sept. 96
Fjöldi báta
27. maí 97
Þorskaflaheimild 96/97 (lestir)
Þorskafli frá
1. sept. 96 til 27. maí. 97 (lestir)
Þorskafli sem hlutfall af þorskaflaheimild
Línu- og
handfærabátar
185
169
1.836
5.767
314%
Handfærabátar
291
277
2.554
3.117
122%

Þeim bátum sem eru í ofangreindum veiðikerfum má halda að veiðum í 84 sóknardaga, miðað við veiðar með handfærum, á fiskveiðiárinu 1996/1997.

Sé línu- og handfærabát róið með línu á tímabilinu 1. maí til 1. september reiknast sóknardagurinn sem 1,9 sóknardagar, en sem 1,35 sóknardagar á tímabilinu 1. september til 1. maí.

Þorskafli sóknardagabáta á yfirstandandi fiskveiðiári hefur áhrif á fjölda sóknardaga á næsta fiskveiðiári skv. 3.gr. laga nr. 105/1996. Sóknardagar næsta fiskveiðiárs verða ákveðnir með því að reikna meðalafla á hvern leyfðan sóknardag yfirstandandi fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í leyfðan hámarksafla þeirra á næsta fiskveiðiári. Fjöldi sóknardaga á fiskveiðiárinu 1997/1998 ræðst þar af leiðandi af heildarafla hvors hópsins fyrir sig á yfirstandandi fiskveiðiári og leyfilegum heildarþorskafla á næsta fiskveiðiári.

Línu- og handfærabátar hafa nýtt 30,3% af sóknardögum fiskveiðiársins 1996/1997 (4.711 dagar af 15.540 dögum alls) og þorskafli þeirra hefur farið 214% umfram þann þorskafla sem þeim er ætlaður, en handfærabátar hafa nýtt 17,1% (4.177 dagar af 24.444 dögum alls) og farið 22% umfram viðmiðun

Mjög misjafnt er hve marga daga einstakir bátar hafa nýtt. Af þeim 169 línu- og handfærabátum sem hafa veiðileyfi höfðu 25 bátar ekki farið til veiða 27. maí s.l. og af þeim 277 handfærabátum sem hafa veiðileyfi höfðu 49 bátar ekki farið til veiða.

9 línu- og handfærabátar og 13 handfærabátar hafa verið úreltir með styrk frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Vegna endurnýjunar krókabáta hafa komið inn 2 nýir línu- og handfærabátar og 4 nýir handfærabátar, en 9 línu- og handfærabátar og 5 handfærabátar afsalað sér krókaleyfi á móti.
Spá um fjölda sóknardaga á fiskveiðiárinu 1997/1998

Spá um fjölda sóknardaga á fiskveiðiárinu 1997/1998 er miðuð við eftirfarandi forsendur:

1. Fjöldi báta í hvoru veiðikerfi verði sá sem hann er í dag, 27. maí 1997
2. Heildarþorskafli sóknardagabáta á fiskveiðiárinu 1996/1997 er miðaður við þann afla sem kominn var á land þann 27. maí að viðbættum áætluðum þorskafla þeirra á tímabilinu 28. maí 1997 til 31. ágúst 1997. Áætlun fyrir tímabilið 28. maí 1997 til 31. ágúst 1997 er fengin með því að reikna aukningu þorskafla, þeirra báta sem hafa veiðileyfi 27. maí 1997, milli tímabilsins 1. september 1995 til 27. maí 1996 og tímabilsins 1. september 1996 til 27. maí 1997 og reikna með því að afli bátanna aukist jafn mikið milli tímabilsins 28. maí 1996 til 31. ágúst 1996 og tímabilsins 28. maí 1997 til 31. ágúst 1997.
3. Leyfilegur heildarþorskafli komandi fiskveiðiárs er 218.000 lestir. Hlutur krókabáta verður því 30.302 lestir, sem er 13,9% af leyfilegum heildarþorskafla

Veiðikerfi
Fjöldi báta
27. maí. 97
Þorskaflaheimild 96/97 (lestir)
Þorskaflaspá 96/97 (lestir)
Þorskaflaheimild 97/98 (lestir)
Fjöldi sóknardaga á fiskveiðiárinu 97/98
Línu- og
handfærabátar
169
1.836
10.321
2.158
19
Handfærabátar
277
2.554
8.317
3.002
32

Þorskafli línu- og handfærabátanna 169 hefur aukist um 75,6% milli fiskveiðiára og þorskafli handfærabáta hefur aukist um 53,3% milli fiskveiðiára, séu borin saman tímabilin 1. september 1995 til 27. maí 1996 og 1. september 1996 til 27. maí 1997.

2. Þorskaflahámark

Bátar í þessu veiðikerfi sæta einstaklingsbundinni magntakmörkun í þorskveiðum, en stunda frjálsar veiðar í örðum tegundum. Þeim eru heimilar veiðar alla daga ársins.

53 af hundraði allra krókabáta með um 82% af veiðireynslu krókabáta á viðmiðunarárunum }92. }93 og }94 völdu þetta veiðikerfi fyrir upphaf síðasta fiskveiðiárs. Þar var því þegar í upphafi hæsta meðalveiðiheimild á bát í veiðikerfunum þremur í krókaleyfahópnum. Þar hefur þó mest hagræðing átt sér stað frá þeim tíma, m.a. vegna framsals á þorskaflahámarki í tengslum við úreldingu og hefur meðalveiðiheimild á bát hækkað verulega í þessum hópi skv. eftirfarandi töflu:

Fjöldi báta
1. sep. 96
Fjöldi báta
27. maí 97
Þorskaflahámark 96/97 (lestir)
Þorskaflahámark pr. bát, meðaltal 96/97 (lestir)
Þorskaflahámark
97/98 (lestir)
Þorskaflahámark pr. bát, meðaltal 97/98 (lestir)
533
413
20.964
39
24.642
60

113 þorskaflahámarksbátar hafa verið úreltir með styrk frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Vegna endurnýjunar krókabáta hafa komið inn 6 nýir þorskaflahámarbátar en 13 þorskaflahámarksbátar afsalað sér krókaleyfi.
Sjávarútvegsráðuneytið 13. júní 1997


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta